sunnudagur, 4. nóvember 2007

Söngfélagið kveður Violetu.

Violeta Smid.
Í gær var Violeta Smid fyrrum söngstjóri Söngfélags Skaftfellinga í Reykjavík kvödd af kórfélögum og henni þökkuð kórstjórnin í aldarfjórðung. Kórinn söng nokkur lög undir stjórn Violetu og einnig undir stjórn nýja stjórnandans, Friðriks Vignis Stefánssonar. Auk þess sungu tvær glæsilegar söngkonur Jóna Kolbrúnardóttir og Unnur Sigmarsdóttir nokkur lög. Sýndar voru myndir frá æfingum og ferðalögum sem kórinn hefur farið í gegnum tíðina. Þetta var hin besta skemmtun og margt rifjað upp frá liðnum árum. Ég tel mig heppinn að hafa fengið tækifæri að taka þátt í kórstarfi Skaftanna þótt aðeins hafi það samstarf varað í fjóra vetur. Þrátt fyrir að flestir söngfélagar eigi það sameiginlegt að vera skaftfellskrar ættar er þetta fólk sem kemur úr ólíkum áttum héðan úr Reykjavík. Það sem tengir það saman er söngæfingin í viku hverri. Það er gefandi stund að stilla saman fjórraddaðan blandaðan kór í fallegu lagi og verðlaunin í lokin er ómælanleg. Violeta færði inn í þennan hóp áhugafólks hámenningu Mið-evrópskrar tónlistarhefðar og blandaði henni saman við okkar tónlistararf, sem er nú býsna drjúgur. Við Íslendingar höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hingað hafa sótt miklir tónlistarmenn aðallega frá Evrópu sem hafa lyft okkar tónlistariðkun. Í þessum hópi er Violeta Smid en hún á ættir sínar að rekja til Búlgaríu. Það sem er einkennandi fyrir Violetu er hárfínn húmor og glettni. Hún var kosinn heiðursfélagi í Sköftunum og vonandi eiga leiðir okkar eftir að liggja aftur saman á komandi árum.

Engin ummæli: