laugardagur, 24. nóvember 2007

Í viðskiptum hjá Braga og Ara.

Ég hef mikla ánægju af að koma við og versla hjá þeim feðgum Braga og Ara á Klapparstígnum. Búinn að vera fastur kúnni hjá þeim í mörg ár og keypt töluvert af bókum í gegnum tíðina. Þar fær maður alltaf ríflegan afslátt á ýmsum grunnritum íslenskrar tónlistar- og bókmenntasögu. Hef dundað mér í gegnum tíðina að safna saman nótum eftir aðallega íslensk tónskáld. Á orðið þó nokkurt safn sem ég hef viðað að mér og þyrfti að fara flokka. Nú svo hef ég keypt allar ævisögur íslenskra tónskálda sem ég hef komist yfir. Það er fróðlegur lestur að lesa um íslenska tónlistarsögu og kynnast viðreisnarsögu hennar frá Pétri Guðjohnsen dómorganista á nítjándu öld og til vorra tíma. Vissulega eru margar þessar bækur góðar heimildir um tónsmíðar tónskáldanna. Auk þess lýsa þær sumar ágætlega þeim tíma sem tónskáldin lifðu. Bragi er viskubrunnur um menn og málefni og oft hefur hann gaukað að mér fróðleiksmolum um þetta áhugamál mitt í kaupbæti. Það sem tónlistarsagan skilur eftir er saga metnaðar, elju og hæfileika. Saga af fólki sem þrátt fyrir þrönga stöðu náði að leggja grunn að þeirri miklu og glæsilegu tónlistariðkun sem stunduð er á Íslandi í dag. Leiða má líkur að því þótt ekki verði það gert í stuttum pistli að tónlistariðkun Íslendinga hafi skipt lykilhlutverki í endurreisn íslensks samfélags eftir þúsund ára kyrrstöðu. Gaman væri að heyra í þeim sem deila þessum áhuga með mér.

Engin ummæli: