mánudagur, 27. september 2010

Um frelsi.

Spurt var: Frelsi leiðir ekki endilega til hamingju. Samt vilja fæstir afsala sér frelsi sínu. Er frelsið þá eftirsóknarvert í sjálfu sér?
Svar mitt er já, en frelsi þitt má ekki vera helsi mitt. En hugleiðum þetta:
Við berumst áfram eins og safn af fjalli. Mitt í þvögunni dásömum við grasið græna sem líður framhjá á göngunni og hve gott væri að geta staldrað við og gætt sér á því - teljum að þar í liggji hamingja okkar. Leiðin liggur þó ýmist í sláturhúsið eða fjárhúsið, enginn veit sín örlög fyrr en þar að kemur. Erum við ekki bara eins og hin hjarðdýrin. Er frelsið kannski jafnvægispunkturinn á pendúlnum, nauðsynlegur punktur til að telja slögin - hlutlaust augnablik í endalausum slætti gangverksins? Meira og minna huglægt ástand fremur en áþreifanlegt fyrirbæri? Frelsið er eins og lýðræðið, brothætt, sagði einu sinni frómur maður. Við brjótum það stundum en lofum það eigi að síður á tillidögum. Ég held mig áfram við hjarðhegðun mannsins eins og sauðasafn af fjalli. Það telur sig ráða för en þegar betur er að gáð eru það hundar og menn sem ráða. Já líklega er frelsið huglægt fyrirbæri og erfitt, ef ekki vonlaust að skilgreina það.

sunnudagur, 26. september 2010

Íslandsmeistarabærinn Kópavogur.

Blikar í baráttunni. Ég veit ekki hvort fólk almennt skilur það af hverju við gamlir Kópavogsbúar gleðjumst svo mikið yfir góðum sigri Breiðabliks í úrvalsdeild karla í fótbolta. Við sem erum alin upp í þessum bæ höfum lengst af verið í ákveðinni "underdog" stöðu gagnvart grönnum okkar á höfuðbólinu Reykjavík. Við vorum frumbyggjar, göturnar okkar framan af lélegar. Lífsbaráttan var harðari í Kópavogi. Við höfum líklega öll upplifað það að Reykvíkingar hafi horft til okkar með nebbann upp í loftið bara fyrir það að búa í Kópavogi. Viðleitni okkar hefur verið að sanna okkur og sýna þeim að við værum ekki síðri samferðarfólkinu hinum megin við lækinn. Okkur hefur tekist það á öllum sviðum og jafnvel gengið betur í sumu. Mikil uppbygging á sviði íþróttamála er að skila sér. Þótt kvennalið Breiðabliks hafi náð frábærum árangri stóð það alltaf upp á okkur karlana að ná sama árangri. Núna hefur ný kynslóð ungra manna tekist þetta verkefni með miklum sóma. Enn einn sigurinn í sigurgöngu Kópavogs er í höfn. Fallega bænum milli voganna tveggja.

mánudagur, 13. september 2010

Hæ, hvernig hefur þú það?

Það er farið að hausta og framundan bíður vetarstarfið. Þetta er tíminn sem maður setur sig í stellingar og fer yfir verkefnalistana og hristir af sér værukærð sumarsins. Ég byrjaði að auka hreyfinguna strax síðsumars í ágúst byrjun. Það veitir víst ekki af auknu úthaldi og þreki til þess að hefja leikinn. Eftir því sem á líður gerir maður sér betur og betur grein fyrir því hversu nauðsynleg holl hreyfing er bæði fyrir sál og líkama.
Þetta er líka tíminn sem maður laumast til að dusta rykið af sjálfshjálparbókunum. Ég gerði mér grein fyrir því nú um helgina þegar verið var að flokka bókaskruddur að ég hef augljóslega mikinn áhuga á slíkum bókum. Þegar flokkuninni var lokið stóð heima að ég átti fullan kassa. Mest eru þetta amerískar bækur, ýmist þýddar eða á ensku máli, nokkrar sænskar og svo auðvitað á íslensku. Þannig getur maður forvitnast milli menningarheima hvernig best er staðið að sjálfsstyrkingu sálartetursins. Ég minnist þess einu sinni handfjatlandi svona bók hjá Braga fornbókasala og hálft í hvoru að afsaka við hann að að ég væri hugsa um að kaupa svona bók. Bragi kom með rétta viðhorfið og sagði afslappað á sinn hátt eitthvað á það leið að hann vissi ekki til þess að það hefði skaðað neinn að lesa svona bækur. Sumar þeirra væru jafnvel alveg þess virði að lesa þær einu sinni eða svo. Ég keypti að sjálfsögðu bókina.
Uppáhaldsbækurnar mínar eru bækur Dr. Normans Vincent Peale, Vörðuð leið til lífshamingju og Bjartsýni léttir þér lífið. Líklega eru þær í mestu uppáhaldi vegna þess að ég komst í tæri við þær fyrir margt löngu við þannig aðstæður. Ein sem heitir, Inner game of Music er mjög góð til þess að styrkja sjálfstraustið. Miðar m.a. að því að berja sjálfsöryggi í skjálfandi tónlistarmenn. Sænsku bækurnar bera titlana Att leva är en konst, Vila för själen og Kompassen till ditt liv. Nú að ég tali nú ekki um Thick Face, Blach Heart, þrautreyndar asískar baráttuaðferðir til árangurs. Hugræn atferlismeðferð er eitt af því sem finna má upplýsingar um í sumum þessara bóka til þess að auka vellíðan fólks. Það er góð og einföld leið til þess að vinna í sálartetrinu.
Annað gott ráð til þess að viðhalda lífsgleðinni fyrir utan hreyfingu og lestur sjálfshjálparbóka er að syngja. Stemma lag við ljóð í góðum félagskap er jafnvel betri kostur en lestur sjálfshjálparbóka. Fátt hressir betur upp á sálartetrið á dimmu vetrarkvöldi. Nú er að byrja kórsstarf víða og óhætt að hvetja alla söngelska til þess að huga að því. Einn af þessum kórum sem nú er að hefja vetrarstarfið er kórinn minn, Söngfélag Skaftfellinga og byrja æfingar næstkomandi þriðjudag kl. 20.00 í Skaftfellingabúð. Við sjáumst ef til vill á næstu æfingu?
Nú ef ekkert af þessu dugar til að bæta sálarástandið getur verið þrautalending að takmarka hlustun á útvarp og sjónvarp og fletta hraðar í gegnum morgunblöðin. Þannig má takmarka flæði neikvæðninnar af vettvangi þjóðmálaumræðunnar, sem á örugglega stóran þátt í vaxandi vanlíðan margra.

laugardagur, 4. september 2010

Vífilsstaðir 100 ára

Helgi Sigurðsson Ég var mættur á 100 ára afmælishátið Vífilsstaða í dag. Hælið sem tók til starfa árið 1910 hefur fyrir margt löngu skilað hlutverki sínu sem berklahæli. Síðustu ár hefur þar verið rekin öldrunarþjónusta, sem nú hefur einnig verið aflögð. Þessi fornfræga glæsta bygging stendur nú tóm. Óvissa er um framtíðarnotkun hennar en vonandi fær húsið viðeigandi hlutverk. Þess var minnst að 100 ár eru síðan húsið var tekið til síns upprunalega brúks. Sýning var haldin í húsinu og fyrirlestraröð um sögu þess og sögu berklaveikinnar á Íslandi. Þá er í Morgunblaðinu í dag ítarlegt fylgiblað um Vífilsstaði þannig að hér verður sagan ekki tíunduð í smáatriðum. Ég hlustaði á nokkra fyrirlestrana þ.á.m.l. Helga Sigurðssonar læknis. Lokaorð Helga eru mér minnisstæð: Til að bæta þjóðarmein þarf vitra stjórn, velmenntaða og skynsama alþýðu. Þetta dugði í baráttu við berkla. Þetta þarf einnig til þess að koma okkur úr þeim vanda sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Helgi ásamt ýmsum öðrum fyrirlesurum rakti sögu berklanna og þá erfiðleika sem þeir sköpuðu þjóðinni og þeim þúsundum einstaklinga sem fengu þennan sjúkdóm. Þetta var frásögn af mikilli baráttu fólks sem seint líður úr minni þeirra sem hlustuðu á sögu fólksins og hælisins.
Vífilsstaðir Nafn Helga Ingvarssonar yfirlæknis er tengt órofa böndum sögu berklaveikinnar. Hann var yfirlæknir á Vífilsstöðum um áratugabil. Fróðlegt var að heyra frásagnir sjúklinga af mannkostum þessa merka læknis. Hann hafði gríðarlega sterka nærveru. Það get ég sjálfur vitnað um enda hitti ég hann nokkrum sinnum. Hann er afi Helga Sigurðssonar og kynni mín af Vífilsstöðum er í gegnum kynni mín og vinskap okkar. Göngur á Strandarkirkju sem fjölskylda Helga hefur staðið fyrir í áratugi eru m.a. gengnar í minningu hans, en hann stundaði þessar göngur. Frásagnir af henni er að finna á þessari heimasíðu. Þá er þess að geta að fyrstu kynni mín af Vífilsstöðum sem ungs drengs á sjöunda tug síðustu aldrar var þegar við félagarnir fórum í heimsókn til yfirlæknishjónanna á Vífilsstöðum. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar við gengum yfir Smárahvammsmóana og heiðina og sýnin heim að Vífilstöðum opnaðist okkur, hvít glæst bygging ásamt ýmsum smærri snyrtilegum byggingum í kring. Gríðarlega mikil tún fyrir framan bygginguna og fjöldi kúa á túninu. Ég man líka eftir óttanum sem því var tendur að nálgast hælið á þessum árum, hvað þá að fara inn á svæðið og berja að dyrum hjá yfirlækninum, sem tók okkur að sjálfsögðu ljúfmannlega. En vonin um að komast í amerískt sælgæti var óttanum yfirsterkari. Á Vífilsstöðum var nefnilega von um að komast í amerískt sælgæti sem þar var selt að sögn Helga sem í dag fór yfir sögu hælisins og sjúkdómsins. Þó minnist ég þess ekki að hafa fengið slíkt sælgæti en íslenskt límonaði og malt var sótt í kjallarann hjá yfirlæknishjónunum í tilefni heimsóknarinnar.