mánudagur, 13. september 2010

Hæ, hvernig hefur þú það?

Það er farið að hausta og framundan bíður vetarstarfið. Þetta er tíminn sem maður setur sig í stellingar og fer yfir verkefnalistana og hristir af sér værukærð sumarsins. Ég byrjaði að auka hreyfinguna strax síðsumars í ágúst byrjun. Það veitir víst ekki af auknu úthaldi og þreki til þess að hefja leikinn. Eftir því sem á líður gerir maður sér betur og betur grein fyrir því hversu nauðsynleg holl hreyfing er bæði fyrir sál og líkama.
Þetta er líka tíminn sem maður laumast til að dusta rykið af sjálfshjálparbókunum. Ég gerði mér grein fyrir því nú um helgina þegar verið var að flokka bókaskruddur að ég hef augljóslega mikinn áhuga á slíkum bókum. Þegar flokkuninni var lokið stóð heima að ég átti fullan kassa. Mest eru þetta amerískar bækur, ýmist þýddar eða á ensku máli, nokkrar sænskar og svo auðvitað á íslensku. Þannig getur maður forvitnast milli menningarheima hvernig best er staðið að sjálfsstyrkingu sálartetursins. Ég minnist þess einu sinni handfjatlandi svona bók hjá Braga fornbókasala og hálft í hvoru að afsaka við hann að að ég væri hugsa um að kaupa svona bók. Bragi kom með rétta viðhorfið og sagði afslappað á sinn hátt eitthvað á það leið að hann vissi ekki til þess að það hefði skaðað neinn að lesa svona bækur. Sumar þeirra væru jafnvel alveg þess virði að lesa þær einu sinni eða svo. Ég keypti að sjálfsögðu bókina.
Uppáhaldsbækurnar mínar eru bækur Dr. Normans Vincent Peale, Vörðuð leið til lífshamingju og Bjartsýni léttir þér lífið. Líklega eru þær í mestu uppáhaldi vegna þess að ég komst í tæri við þær fyrir margt löngu við þannig aðstæður. Ein sem heitir, Inner game of Music er mjög góð til þess að styrkja sjálfstraustið. Miðar m.a. að því að berja sjálfsöryggi í skjálfandi tónlistarmenn. Sænsku bækurnar bera titlana Att leva är en konst, Vila för själen og Kompassen till ditt liv. Nú að ég tali nú ekki um Thick Face, Blach Heart, þrautreyndar asískar baráttuaðferðir til árangurs. Hugræn atferlismeðferð er eitt af því sem finna má upplýsingar um í sumum þessara bóka til þess að auka vellíðan fólks. Það er góð og einföld leið til þess að vinna í sálartetrinu.
Annað gott ráð til þess að viðhalda lífsgleðinni fyrir utan hreyfingu og lestur sjálfshjálparbóka er að syngja. Stemma lag við ljóð í góðum félagskap er jafnvel betri kostur en lestur sjálfshjálparbóka. Fátt hressir betur upp á sálartetrið á dimmu vetrarkvöldi. Nú er að byrja kórsstarf víða og óhætt að hvetja alla söngelska til þess að huga að því. Einn af þessum kórum sem nú er að hefja vetrarstarfið er kórinn minn, Söngfélag Skaftfellinga og byrja æfingar næstkomandi þriðjudag kl. 20.00 í Skaftfellingabúð. Við sjáumst ef til vill á næstu æfingu?
Nú ef ekkert af þessu dugar til að bæta sálarástandið getur verið þrautalending að takmarka hlustun á útvarp og sjónvarp og fletta hraðar í gegnum morgunblöðin. Þannig má takmarka flæði neikvæðninnar af vettvangi þjóðmálaumræðunnar, sem á örugglega stóran þátt í vaxandi vanlíðan margra.

Engin ummæli: