mánudagur, 27. september 2010

Um frelsi.

Spurt var: Frelsi leiðir ekki endilega til hamingju. Samt vilja fæstir afsala sér frelsi sínu. Er frelsið þá eftirsóknarvert í sjálfu sér?
Svar mitt er já, en frelsi þitt má ekki vera helsi mitt. En hugleiðum þetta:
Við berumst áfram eins og safn af fjalli. Mitt í þvögunni dásömum við grasið græna sem líður framhjá á göngunni og hve gott væri að geta staldrað við og gætt sér á því - teljum að þar í liggji hamingja okkar. Leiðin liggur þó ýmist í sláturhúsið eða fjárhúsið, enginn veit sín örlög fyrr en þar að kemur. Erum við ekki bara eins og hin hjarðdýrin. Er frelsið kannski jafnvægispunkturinn á pendúlnum, nauðsynlegur punktur til að telja slögin - hlutlaust augnablik í endalausum slætti gangverksins? Meira og minna huglægt ástand fremur en áþreifanlegt fyrirbæri? Frelsið er eins og lýðræðið, brothætt, sagði einu sinni frómur maður. Við brjótum það stundum en lofum það eigi að síður á tillidögum. Ég held mig áfram við hjarðhegðun mannsins eins og sauðasafn af fjalli. Það telur sig ráða för en þegar betur er að gáð eru það hundar og menn sem ráða. Já líklega er frelsið huglægt fyrirbæri og erfitt, ef ekki vonlaust að skilgreina það.

Engin ummæli: