laugardagur, 4. september 2010

Vífilsstaðir 100 ára

Helgi Sigurðsson Ég var mættur á 100 ára afmælishátið Vífilsstaða í dag. Hælið sem tók til starfa árið 1910 hefur fyrir margt löngu skilað hlutverki sínu sem berklahæli. Síðustu ár hefur þar verið rekin öldrunarþjónusta, sem nú hefur einnig verið aflögð. Þessi fornfræga glæsta bygging stendur nú tóm. Óvissa er um framtíðarnotkun hennar en vonandi fær húsið viðeigandi hlutverk. Þess var minnst að 100 ár eru síðan húsið var tekið til síns upprunalega brúks. Sýning var haldin í húsinu og fyrirlestraröð um sögu þess og sögu berklaveikinnar á Íslandi. Þá er í Morgunblaðinu í dag ítarlegt fylgiblað um Vífilsstaði þannig að hér verður sagan ekki tíunduð í smáatriðum. Ég hlustaði á nokkra fyrirlestrana þ.á.m.l. Helga Sigurðssonar læknis. Lokaorð Helga eru mér minnisstæð: Til að bæta þjóðarmein þarf vitra stjórn, velmenntaða og skynsama alþýðu. Þetta dugði í baráttu við berkla. Þetta þarf einnig til þess að koma okkur úr þeim vanda sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Helgi ásamt ýmsum öðrum fyrirlesurum rakti sögu berklanna og þá erfiðleika sem þeir sköpuðu þjóðinni og þeim þúsundum einstaklinga sem fengu þennan sjúkdóm. Þetta var frásögn af mikilli baráttu fólks sem seint líður úr minni þeirra sem hlustuðu á sögu fólksins og hælisins.
Vífilsstaðir Nafn Helga Ingvarssonar yfirlæknis er tengt órofa böndum sögu berklaveikinnar. Hann var yfirlæknir á Vífilsstöðum um áratugabil. Fróðlegt var að heyra frásagnir sjúklinga af mannkostum þessa merka læknis. Hann hafði gríðarlega sterka nærveru. Það get ég sjálfur vitnað um enda hitti ég hann nokkrum sinnum. Hann er afi Helga Sigurðssonar og kynni mín af Vífilsstöðum er í gegnum kynni mín og vinskap okkar. Göngur á Strandarkirkju sem fjölskylda Helga hefur staðið fyrir í áratugi eru m.a. gengnar í minningu hans, en hann stundaði þessar göngur. Frásagnir af henni er að finna á þessari heimasíðu. Þá er þess að geta að fyrstu kynni mín af Vífilsstöðum sem ungs drengs á sjöunda tug síðustu aldrar var þegar við félagarnir fórum í heimsókn til yfirlæknishjónanna á Vífilsstöðum. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar við gengum yfir Smárahvammsmóana og heiðina og sýnin heim að Vífilstöðum opnaðist okkur, hvít glæst bygging ásamt ýmsum smærri snyrtilegum byggingum í kring. Gríðarlega mikil tún fyrir framan bygginguna og fjöldi kúa á túninu. Ég man líka eftir óttanum sem því var tendur að nálgast hælið á þessum árum, hvað þá að fara inn á svæðið og berja að dyrum hjá yfirlækninum, sem tók okkur að sjálfsögðu ljúfmannlega. En vonin um að komast í amerískt sælgæti var óttanum yfirsterkari. Á Vífilsstöðum var nefnilega von um að komast í amerískt sælgæti sem þar var selt að sögn Helga sem í dag fór yfir sögu hælisins og sjúkdómsins. Þó minnist ég þess ekki að hafa fengið slíkt sælgæti en íslenskt límonaði og malt var sótt í kjallarann hjá yfirlæknishjónunum í tilefni heimsóknarinnar.

Engin ummæli: