þriðjudagur, 31. maí 2005

Einmuna blíða í bænum..

Við fórum á sunnudaginn upp í Borgarnes að hitta nafna og fjölskyldu hans í Borgarnesi. Valdi og Stella komu frá London aðfaranótt sunnudags eftir viku dvöl í stórborginni. Kappinn mætti í uniformi í Brekkutúninu í gær eftir fyrsta daginn í starfi sem laganna vörður. Frú Unnur á afmæli í dag 31. maí 2005. Annállinn óskar henni til hamingju með daginn. Þetta er nú það helsta hér sunnan heiða.

Kveðja.

laugardagur, 28. maí 2005

Austur í Göggubústað.


Skaftártunga.

Við fórum austur í Skaftártungu í gærdag í sól og sumaryl. Gistum í nótt í Göggubústað. Í gærkveldi fórum við á Klaustur í ísferð eins og í gamladaga 28 km fram og til baka. Þar var fullt af mótorhjólagæjum á þessum fínu nýju "pickup" bílum frá Ameríku með hjólin á kerrum eða upp á pallinum. Flottir voru þeir og voru að fara að keppa í mótorhjólaakstri í dag laugardag. Veðrið í Skaftártungunni var fínt, hlýtt, hægur andvari og skýjabólstrar hér og þar. Ærnar með lömbin sín voru á túnum Hlíðarbónda og mikill fuglasöngur sáum og heyrðum m.a. helsingja. Við yljuðum okkur við sól og gamlar minningar sem við eigum þarna fjölmargar. Aðalega er það þó um veru okkar í kringum verslunarmannahelgina. Við höfum verið þarna um þann tíma meira og minna frá árinu 1973. En það er svolítið einmannalegt þegar við erum bara tvö. Þótt það geti líka verið indælt. Við erum bara svo vön að hafa krakkana okkar og fjölskyldu þarna í kringum okkur. Um þrjúleytið í dag laugardag keyrðum við í Kópavoginn. Stoppuðum í Vík og fengum okkur að borða í Halldórskaffi held ég það heiti. Enduðum heima hjá Helga og Ingunni. Þar beið okkar þessi fíni kvöldmatur eftir ferðalagið.

fimmtudagur, 26. maí 2005

Sumarið stimplar sig inn.

Það grænkar óðum þessa dagana. Sumarið er að koma með í næstum öllum sínum skrúða. Fór og skoðaði nýtt flaggskip HB Granda í dag. Þarna voru allir, nákvæmlega allir að skoða nýja skipið. Það er engin smásmíði þetta skip 105 metra langt 20 metra breitt. Sjálfvirkni mikil um borð og aðbúnaður eins góður og best þekkist. Skipið fer á veiðar eftir sjómannadag.

miðvikudagur, 25. maí 2005

Fótboltadrama

Vá ég verð nú bara að festa þessa stund í bloggbókina. Hvílíkt drama, hvílíkur leikur. Liverpool búið að jafna leikinn við AC Milan 3,3 og framlenging hafin. Ég er svo spenntur að ég fór bara í tölvuna til að róa mig niður. Það er ótrúlegt hvað Liverpool liðið hefur breyst eftir hálfleik. Þeir voru eins og trjádrumbar fyrir hlé. Þetta er "UEFA-league" keppnin eða Evrópumeistarakeppnin leikurinn og fer fram í Istanbul í Tyrklandi. Jæja best að fylgjast með. Nú þetta verður án efa einn minnisstæðasti fótboltaleikur sem ég hef séð. Leikurinn endaði í vítaspyrnukeppni og Liverpool vann eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik. Ef þetta er ekki karakter í liði þá veit ég ekki hvað. Hjörtur Sveinsson hlýtur að vera glaður eftir þennan leik.

Sveinspróf í málun.

Árni og Sunneva buðu okkur til veislu í gærkvöldi í tilefni þess að hann var að útskrifast með sveinspróf í málun. Hann segir að næst fari hann í háskólann og læri sagnfræði. Það verður fínt að dunda sér í henni og mála hús þess í milli. Valdi og Stella eru í Lundúnum ásamt vinum. Sigrún kom heim í gær með þessar líka fínu einkunnir úr Kvennó. Brekkutúnsannáll óskar henni til hamingju með þennan frábæra árangur. Þá er þess að geta að Valda gengur einnig vel í sínu erfiða námi. Annars allt í góðu. Kveðja.

þriðjudagur, 24. maí 2005

Út í Eyjum..

Það er víða komið við þessa dagana. Var á fundi út í Eyjum í gærdag. Flugum í frábæru útsýnisflugi fram og til baka sama daginn. Vorum í fimmtugsafmæli hjá Bigga í gærkvöldi.
Sigrún byrjaði sumarstarfið sitt í dag. Þetta eru nú helstu fréttir héðan.
Kveðja

sunnudagur, 22. maí 2005

Ekki stoppað..

Við höfum ekki stoppað þessa helgi. Í gær föstudag fórum við upp í Borgarnes að heimsækja nafna, foreldra hans og afa og ömmu. Áttum með þeim ánægjulega stund. Í dag laugardag höfum við heldur ekki stoppað. Fyrst fórum við með Íu að kaupa afmælisgjöf handa sameiginlegum vini. Þá fórum við á hátíðardagskrá hjá Snælandsskóla og hlustuðum m.a. á söng kór Snælandsskóla. Þar næst var keyrt niður í Snorrabúð við Snorrabraut til að hlusta á Huldu Sif syngja á burtfarartónleikum úr Söngskólanum. Það var gerð stutt viðkoma í Brekkutúni áður en keyrt var austur fyrir fjall til þess að halda upp á 30 ára júbelíumsafmæli MR stúdenta sem útskrifaðir voru 1975. Ánægjuleg stund þar sem maður hitti ýmsa gamla skólafélaga. Komum heim um miðnættið.

mánudagur, 16. maí 2005

Annar í hvítasunnu.


Minjasafnskirkjan á Akureyri
Þá erum við aftur komin suður eftir ferðalagið norður á Akureyri. Þetta eru búnir að vera yndislegir dagar. Allt hefur gengið að óskum og öll ferðaplön og flugáæltanir gengu upp. Veðrið hefur leikið við okkur allan tímann. Skírnin var mjög hátíðleg í litlu minjasafns kirkjunni. Svona atburður er einstakur og maður vermir sér við hann um ókomna daga að ég tali nú ekki um það að hafa eignast lítinn alnafna!!! Sr. Hirti tókst að búa til hátíðlega stund í kirkjunni og Brynhildi með fallegum söng. Eftir skírnina var kaffiboð hjá Ingibjörgu og Hirti. Bestu kveðjur.

föstudagur, 13. maí 2005

Aftur norðan heiða.

Við komum hingað til Akureyrar kl. 20.00. Ferðin gékk vel og bílinn minn stóð sig eftir viðgerðina. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað kostaði að gera við gripinn en það var mikið. En þetta er svona með þá sem þjónað hafa mikið og lengi þeir verða stundum að fara í "by pass aðgerð". Nú er bara að vona að aðrir partar dugi svolítið lengur svo að ég og gamli bíllinn getum átt lengri tíma saman. Hér á Akureyri var 12°C og þetta fína veður. Við kíktum við hjá Hirti og Ingibjörgu og litla manni. Nóg í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 12. maí 2005

Reykholt í Borgarfirði.

Ég er búinn að vera uppi í Reykholti í Borgarfirði í gær og í dag. Veðrið hefur leikið við hvern sinn fingur, blankalogn, sól og hlýindi. Þarna er ágætis aðstaða til fundarhalds, næturgisting og fundarsalir. Sagan hrópar á mann á þessum stað og maður minnist Snorra Sturlusonar um leið og maður skoðar Snorralaug og gamla bæjarstæðið. Það gafst ekki mikill tími til þess að skoða sig um í þetta skipti. Þetta er vissulega staður til þess að heimsækja fljótlega aftur. Á morgun föstudag förum við norður.

þriðjudagur, 10. maí 2005

Bifreiðaviðgerðir.

Ég var búinn að segja ykkur að bíllinn minn bilaði. Ég svaf á því eina nótt hvað gera skyldi og ákvað svo að láta gera við hann. Eins og þeir segja í stjórnunarfræðunum á maður að taka ákvörðun og standa við hana. Nú hringdi verkstæðisformaðurinn í dag og sagði mér að þetta væri komið í nokkur hundruð þúsund krónur. Mér varð nú á að segja við hann að ég yrði að leggjast fyrir meðan hann héldi áfram. Þá er bara að vona að viðgerðin haldi og bifreiðin nýtist mér eitthvað áfam. Hún verður allavega kominn í lag þegar við förum norður um hvítasunnuna. Kveðja.

sunnudagur, 8. maí 2005

Lokadagur söngsins..

Lokadagur kallast síðasti dagur vetrarvertíðar sem endar 11. maí ef ég man þetta rétt. Í dag var lokadagur söngvetrarins með Sköftunum. Við enduðum þetta á því að syngja fyrir eldri Skaftfellinga í Skaftfellingabúð. Sungið var í fullum skrúða og ég varð að fara heim í fataskipti því ég hélt að maður ætti að koma "casualy" klæddur, en svo var nú ekki. Við sungum nokkur lög úr prógrammi vetrarins og tókst ágætlega þrátt fyrir að vana menn og konur vantaði. Þetta er annar veturinn með Sköftunum og ég verð að segja það að ég hef haft mjög gaman að þessum æfingum í vetur. Sakna þess svolítið að nú verður hlé en það er ágætt að hvíla sig svolítið á þessu. Fyrr í morgun fórum við Sirrý í Þjóðmenningarhúsið til þess að hitta Utah farana sem við förum með til þess að heimsækja Spanish Fork í tilefni þess að 150 ár eru liðin síðan þeir fyrstu sem tóku mormónatrú fóru til Utah. Eftir fyrirlestur af hálfu Jónasar Þórs sagnfræðings skoðuðum við Mormónasýninguna sem opnuð var í húsinu í gær. Hér komu í dag Magnús og Brynhildur, Stella og Valdimar og Björn og Sigríður og hundurinn Sunna. Þau síðastnefndu voru ánægð með ferðina til Feneyja. Sunna var glöð að hitta "hussa" sinn aftur.

föstudagur, 6. maí 2005

Á föstudagskvöldi í maísól.

Enn einu sinni sit ég við töluvna í vikulok og pára nokkur orð hér á fréttasíðuna. Þetta er búin að vera annasaöm vika og töluverðu hefur verið komið í verk. Það er maísól úti en við orkum ekki í göngutúr. Þetta minnir mig á það þegar maður var í próflestrinum í gamladaga og það var alltaf sól í maí. Svo komu sumar mánuðurnir þegar maður var úti við þá fannst manni alltaf vera rok og rigning. Hundurinn Sunna fór í gær heim til sín. Þetta var ágætis tími sem við áttum með henni. Nú hér komu sr. Hjörtur og Unnur í heimsókn í gærkvöldi. Við höfum bara verið hér heima við enda nóg að gera í húsverkum. Björn og Sigríður komu heim úr ferðalaginu í gær. Annars ekki fleira í bili. Kveðja,

fimmtudagur, 5. maí 2005

Uppstigningardagur.

Tónleikarnir tókust með ágætum í gær. Þeir eru endapunktur á söngæfingum vetrarins. Það var töluverður fjöldi fólks mættur til þess að hlíða á sönginn í Háteigskirkju kl. 20.00. Fengum við góðar viðtökur gesta og sungum tvö aukalög. Lagaval tónleikanna var fjölbreytilegt að vanda. Fyrir utan Skaftárþing og Í Öræfasveit sungum við meðal annars Funiculi-Funiculia, Over the rainbow, Tumbalalaika, Heima, Ú í heim, Á vængjum söngsins, Syngið við hörpu og síðast en ekki síst Frið úr oratoríu eftir Björgvin Guðmundsson. Einsöngvarar í Syrpu úr Sardasfurstynjunni voru Sigurður Þengilsson og Unnur Sigmarsdóttir. Hulda Ólafsdóttir og Unnur sungu dúett í Bátasönginum eftir J. Offenbach. Ásamt Skaftfellingakórnum sungu einnig félagar í Mánakórnum nokkur lög. Stjórnandi var Violeta Smid og undirleikari Pavel Manásek. Eftir tónleikana var skroppið á bjórkrá niður á Laugarvegi. Það voru nú ekki margir sem mættu þangað við höfum verið um 10 samtals sem sátum þarna drykklanga stund. Við höfum verið heimavið í dag að dunda okkur við lestur og fleira. Valdi og Stella litu hér inn í gærkvöldi. Ég var svo syfjaður í gærkvöldi eftir viðburði dagsins að ég rotaðist hreinlega þegar ég lagðist til hvílu. Kveðja.

þriðjudagur, 3. maí 2005

Tíminn flýgur.

Það er nóg að gera hjá okkur þessa dagana. Á morgun eru lokatónleikar Skaftanna í Háteigskirkju og hefjast þeir kl. 20.00. Vonast til að sjá ykkur flest en það kostar 1000 kr. á manninn. Missi af myndakvöldi hjá Rotarý úr vesturferðinni í fyrra. Nú maður er rétt að jafna sig eftir ferðina norður. Það styttist óðum í skírnina fyrir norðan núna um hvítasunnuna.
Kveðja.

mánudagur, 2. maí 2005

Ár á blogginu.

Hver hefði trúað því að ég mundi endast heilt ár á blogginu. Hvern einasta mánuð hefur ég verið með einhverja pistla hér á síðunni nema í nóvember. Það var allur vindur úr mér íþeim mánuði einhverra hluta vegna. Allavega skrifaði ég ekkert í þeim mánuði. Það er söngæfing í kvöld með Sköftunum. Nú er það lokahnykkurinn fyrir aðaltónleika ársins í Háteigskrikju á miðvikudagskvöld. Þá er þessu vetrarstarfi nánast lokið. Teljarinn segir að yfir 1300 innkomur hafi verið inn á síðuna á þessum tíma. Ég verð víst að viðurkenna það að ég á örugglega 400 til 500 innkomur sjálfur því það telur allt sem ég geri inn á síðunum í skrifum og leiðréttingum. Sunna var glöð að hitta okkur í gær blessunin. Bíllinn minn er farinn í stóru viðgerðina. Fleira ekki í bili. Kveðja.

sunnudagur, 1. maí 2005

Á 1. maí á söngferðalagi um Norðurland.

Við erum komin heim úr söngferðalaginu um Norðurland. Veislan á KEA var fín með góðum mat. Eftir matinn var farið í heimsókn á Verkstæðið sem er krá í gamla Gránufélagshúsinu. Tilkomumikið hús og hálf leiðinlegt að svona hús úr atvinnusögu landsins skuli ekki gegna merkilegra hlutverki. Upp úr 11.00 í dag á verkalýðsdaginn var haldið af stað til suður. Við stoppuðum á Blönduósi og héldum konsert á Sjúkrahúsinu á Blönduósi og var gerður góður rómur að söng okkar. Við komum í bæinn upp úr kl. 18.00. Ferðin var í alla staði eftirminnileg og ánægjuvekjandi. Kveðja.