sunnudagur, 21. nóvember 2010

Það leiðist engum í söng

Í gær var ég á söngæfingu hjá kórnum mínum, Söngfélagi Skaftfellinga. Við æfum einu sinni í viku og tökum því einstaka sinnum langan laugardag til þess að taka ærlega á því. Æfingin stóð í fjóra tíma og svo var sameiginlegur kvöldverður kórfélaga í lok æfingar. Þetta var í alla staði hin skemmtilegasta æfing.Unnið er að vinna upp lagavalið fyrir næstu vortónleika og svo var aðeins farið yfir jólalögin. Fyrirhuguð er ferð til Svíþjóðar næsta sumar til að endurgjalda heimsókn sænska kórsins Östergök sem kom hingað síðastliðið vor.

laugardagur, 13. nóvember 2010

Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Kórinn minn, Söngfélag Skaftfellinga kom fram á sérstökum opnum degi héraðskjalavarða sem haldinn var í húsi Borgarbókasafnsins í Reykjavík við Tryggvagötu. Þetta var notaleg stund innan um bækur og skjöl og þó nokkur hópur fólks sem var mættur til að hlusta á kórinn.
Söngfélag Skaftfellinga 2010. Þegar herðir að í þjóðfélaginu verða starfsgreinarnar að gera betur grein fyrir störfum sínum, verða sýnilegar. Þetta á líka við kórinn okkar sem æfir reglulega í hverri viku yfir vetrarmánuðina.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Eftirminnilegir atburðir.

Mbl. 12. okt. 1994 Sextán ára minningarbrot frá Noregi. Ef smellt er á myndina má lesa þessa grein. Þetta var svona "15 minutes of fame" atburður í lífi mínu. Á þessum fundi voru mörghundruð málsmetandi menn í norskum sjávarútvegi. Aðalumræðuefnið var innganga Noregs í ESB og veiðar Íslendinga í Barentshafi. Mitt hlutverk var að gera þeim grein fyrir að við hefðum rétt á að veiða í Barentshafi. Öll norska pressan og Gro Harlem Bruntland þá forsætisráðherra Noregs voru þarna líka. Ég hitti hana í kvöldverðarhófi eftir fundinn. Minnist þess að hún hafði einhver orð um að það sem hún hefði sagt um Íslendinga fyrr um daginn væri nú bara eins og hvert annað hjal miðað við þau orð sem formaður norskra útvegsmanna hafði um okkur. Ég hugsa að hún hafi ekki gert sér grein fyrir að það væru Íslendingar í salnum. Það var ekki fyrr en ég las Verdens Gang daginn eftir sem ég skyldi hvað hún átti við. Hún var tilbúin að fórna hagsmunum Noregs í sjávarútvegi fyrir aðgöngumiða að ESB en náði ekki að sannfæra landa sína um skynsemi þess. Noregur er enn utan ESB og dagar hennar voru senn taldir sem stjórnmálamanns eftir að niðurstaða fékkst í málinu.

mánudagur, 8. nóvember 2010

Á fæðingardegi frumburðarins.

Byrjaði á samtali við Sirrý til Svíþjóðar til að óska okkur til hamingju með frumburðurinn okkar. Kappinn orðinn 37 ára gamall. Hvað tíminn flýgur áfram sem örskotsstund. Minningarbrot frá 8. nóvember 1973. Byrjaði daginn í skólanum. Kominn heim upp úr hádeginu. Barnið er að koma! Það fór sko ekkert milli mála þegar til kom. Hringdi í leigubíl. Engan sjúkrabíl mátti panta í þessa ökuferð. Lögðum af stað á Fæðingarheimilið í Reykjavík. Hríðarverkirnir jukust hrátt á leiðinni. Úff, ég hélt að ólin á leðurveskinu mundi fara í sundur milli tannanna, eftir því sem verkirnir urðu kröftugri. Leigubílstjóranum stóð ekki á sama. Miklabrautin ekin á ógnarhraða í vestur. Við náðum í tíma, en litlu munaði. Verðandi faðir kallaður nánast fyrirvaralaust inn á fæðingarstofuna til þess að vera til taks. Allt í einu var barnið fætt. Vá hvað gerðist eiginlega. Við fengum strák! Við fengum strák! Foreldrarnir hlustuðu á grátur barnsins og gott ef þau grétu ekki með honum. Móðir og sonur kvödd er komið var undir kvöldmat. Ekkert "Hreiður" á þessum stað eða aðstaða fyrir nýbakaða foreldra. Gengið út í síðdegið. Það hafði kólnað, hvít hálkuslikja yfir öllu. Farið í strætó heim. Raunveruleikinn heltist yfir hinn nýbakaðan föður. "Nú er að standa sig drengur minn," heyrðist frá innra sjálfinu er það kallaðist á við hugrenningar föðursins. Færð var farin að spillast og ekkert var úr kvöldheimsókn. Til hamingju með daginn Hjörtur okkar.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Tónleikar í Seltjarnarneskirkju.

Seltjarnarneskirkja. Í dag voru haldnir tónleikar Kammerkórs Seltjarnarneskirkju. Félagar í kórnum hófu tónleikana með því að sungin voru átta klassísk einsöngslög af jafnmörgum kórfélögum eftir ýmsa meistara tónsmíðanna: Back, Franck, Händel, Mendelsohn og Vivaldi. Eftiminnilegur er flutningur sópransins Agnesar Amalíu Kristjónsdóttur á Sposa son disprezzata eftir Vivaldi og altsins Jóhönnu Héðinsdóttur á Panis Angelicus eftir C. Franck. Einnig var ánægjulegt að heyra svo marga sóprana syngja og heyra hversu mismunandi raddirnar eru þrátt fyrir að allar flokkist undir sama raddsvið. Þar næst söng kammerkórinn fjögur lög. Eftir hlé var sannarlega hápunktur tónleikanna. Þá flutti kórinn Missa Brevis eftir Jacob de Haan við undirleik félaga úr Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Þetta var mikil tónlistarveisla og góður kraftur í flutningi verksins, sem skiptist upp í hefðbundin katólsk messuvers: Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Benedictus og Angus Dei. Stjórnandi og undirleikari í flutningi einsöngslaganna var Friðrik Vignir Stefánsson organisti í Seltjarnarneskirkju. Þessir tónleikar voru vandaðir og nærandi fyrir sálina. Kammerkórinn er skipaður kraftmiklu söngfólki og hæfileikaríku. Bestu þakkir fyrir þessa tónleika.