mánudagur, 8. nóvember 2010

Á fæðingardegi frumburðarins.

Byrjaði á samtali við Sirrý til Svíþjóðar til að óska okkur til hamingju með frumburðurinn okkar. Kappinn orðinn 37 ára gamall. Hvað tíminn flýgur áfram sem örskotsstund. Minningarbrot frá 8. nóvember 1973. Byrjaði daginn í skólanum. Kominn heim upp úr hádeginu. Barnið er að koma! Það fór sko ekkert milli mála þegar til kom. Hringdi í leigubíl. Engan sjúkrabíl mátti panta í þessa ökuferð. Lögðum af stað á Fæðingarheimilið í Reykjavík. Hríðarverkirnir jukust hrátt á leiðinni. Úff, ég hélt að ólin á leðurveskinu mundi fara í sundur milli tannanna, eftir því sem verkirnir urðu kröftugri. Leigubílstjóranum stóð ekki á sama. Miklabrautin ekin á ógnarhraða í vestur. Við náðum í tíma, en litlu munaði. Verðandi faðir kallaður nánast fyrirvaralaust inn á fæðingarstofuna til þess að vera til taks. Allt í einu var barnið fætt. Vá hvað gerðist eiginlega. Við fengum strák! Við fengum strák! Foreldrarnir hlustuðu á grátur barnsins og gott ef þau grétu ekki með honum. Móðir og sonur kvödd er komið var undir kvöldmat. Ekkert "Hreiður" á þessum stað eða aðstaða fyrir nýbakaða foreldra. Gengið út í síðdegið. Það hafði kólnað, hvít hálkuslikja yfir öllu. Farið í strætó heim. Raunveruleikinn heltist yfir hinn nýbakaðan föður. "Nú er að standa sig drengur minn," heyrðist frá innra sjálfinu er það kallaðist á við hugrenningar föðursins. Færð var farin að spillast og ekkert var úr kvöldheimsókn. Til hamingju með daginn Hjörtur okkar.

Engin ummæli: