sunnudagur, 27. júní 2010

Þýskaland versus England

Fjögur eitt Þjóðverjum í vil á HM 2010. Þetta verður eftirminnilegur leikur. Dæmt mark af Englendingum. Það var afar ósanngjarnt en þýskir kláruðu leikinn í seinni hálfleik. Þetta var "úrslitaleikur" okkar Evrópubúa það er ljóst. Nú er að sjá hvað Þjóðverjar komast langt þeir eru mjög góðir og spil þeirra yfirleitt til fyrirmyndar.

laugardagur, 26. júní 2010

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Fálkinn.
Ég var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær og í dag. Þetta var óvenju stuttur fundur en um margt skemmtilegur og fróðlegur. Eftir ræðu formanns hófst málefnastarf sem var með nýju sniði. Það fólst í því að skipað var í málefnanefndir og við hvert borð voru tíu félagar sem ræddu málefnin. Við hvert borð var borðstjóri sem stjórnaði umræðunni og í lok hvers áfanga skilaði hann niðurstöðu borðsins til formanns málefnanefndar sem síðan dró saman helstu niðurstöður í hópnum. Þetta var veruleg breyting frá umræðu síðustu áratuga og ágætis tilbreyting. Tilvalið að reyna þetta fundarform á þessum aukalandsfundi. Það er deginum ljósara að öflugt starf Sjálfstæðisflokksins, hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu er forsenda þess að hjól efnahagslífisins fari að snúast aftur. Flokkurinn er brimvörn og málsvari atvinnulífsins, fyrirtækjanna og hinna vinnandi stétta. Einmitt nú í miklu atvinnuleysi og óvissu á vinnumarkaði er nauðsynlegt að efla þennan þátt á vettvangi stjórnmálanna. Andstæðingar flokksins ásaka flokinn um einangrunarstefnu. Svona fullyrðing er út í hött. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur lagt jafn ríka áherslu á alþjóðlegt samstarf og Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum tíðina. Aðild að Evrópusambandinu er ekki leið Íslands út úr núverandi þrengingum heldur þvert á móti. Það er verið að eyða peningum og tíma í að sækja um aðild. Hvernær ætla Evrópusambandsinnar að skilja að þeir verða að afhenda yfirráð yfir helstu auðlind þjóðarinnar. Af hverju lesa þeir ekki stofnsáttmála sambandsins og hvað þar segir um fiskstofna. Ég ætla að spara frekari stóryrði um þá sem ætla að leggja upp í þessa vegferð.

miðvikudagur, 23. júní 2010

.. með lífið að láni - njóttu þess.

Skólabróðir minn Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur er látinn. Þótt vegir okkar hafi ekki legið saman að heita geti síðan í MR var alltaf gaman að hitta hann og gamla menntaskólatengingin okkar lifði vel. Með lífið að láni - njóttu þess er titillinn á bókinni hans Sæmundar, sem hann skrifaði ásamt kollega sínum Jóhanni Inga Gunnarssyni. Uppbyggileg lesning og einnar messu virði fyrir þá sem eru að leita leiða til þess að fóta sig betur í lífinu. Síðast áttum við góða kvöldstund saman fyrir fimm árum á þrjátíu ára stúdentsafmælinu okkar. Það reyndist vera í síðasta skiptið sem við fórum yfir þetta tímabil í lífinu. Við ræddum námsleiðir okkar og val í menntaskóla. Ég fór á náttúrufræðibraut en hann eðlisfræðibraut ásamt litlum harðskeyttum kjarna. "Sveinn þú varst alltaf einn af okkur." Þessi setning lifir í minningunni úr samtali okkar. Satt best að segja hef ég oft yljað mér við þessa setningu. Í henni fólst ákveðin viðurkenning skólafélaga sem fylgdist með baráttunni á menntaskólaárunum. Blessuð sé minning Sæmundar.

sunnudagur, 20. júní 2010

Úr Skaftárdal í Skál og Skálarheiði.

Gönguhópurinn 2010
Þann 18. júní var komið að fyrri dagleið Skálmhópsins. Göngu frá Skaftárdal að Skál meðfram Skaftá í hlíðum Skálarheiði. Endastaðurinn var bærinn Skál, þar sem við höfðum góða aðstöðu á bænum. Leiðin er seinfarin og æði erfið á köflum. Sérstaklega er hún seinfarin þegar komið er að kjarrsvæði ofan Skaftár í snarbröttum hlíðum heiðarinnar. Veðrið var og gott til göngu og mikill hugur í göngufélögum. Leiðsögumaður okkar var Eiríkur Jónsson frá Skaftárdal, mikill göngugarpur. Við áðum við Á, það eru bæjartóftir eyðibýlis ofarlega í bröttum hlíðum en bærinn fór í eyði 1935. Lambahagagil Áhugaverðir og fallegir fossar og skorningar urðu á leið okkar, Lambhagagil, Drífandi. Útsýni var yfir Skaftáreldahraun yfir í Svínadal og vel sást í Hemru - Stakk. Eldklerkurinn var ofarlega í hugum fólks og saga svæðisins. Með jöfnu millibili las félagi Gísli ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur til þess að næra hugann í bland við náttúrufegurðina. Alls vorum við níu tíma á leiðinni og var það nokkuð nærri þeirri áætlun sem við fylgdum. GPS mælirinn hann Péturs upplýsti okkur um að leiðin væri 16,2 km.
Rauðhóll Seinni daginn þann 19. júní var gengið upp á Skálarheiði sem er í allt að 500 metra hæð. Upp á heiðinni var fylgt gömlum slóða lengst af. Síðan var tekinn góður hringur um heiðinna og horft í höfðuðáttirnar þar sem gat að líta mörg frægustu fjöll Íslands: Mýrdalsjökul, Sveinstind, Vatnajökul og Pálstind og svo mætti áfram telja.
Á göngu. Eftirminnilegur er brennisteinsfnykurinn sem var fyrir vitum okkar á leiðinni upp Skálarheiði. Vísbending um að Skaftárhlaup væri í vændum, þótt ekki hefðum við gert okkur grein fyrir því þá. Í dag berast fréttir af því að hlaup í Skaftá sé hafið. Gangan var alls 15 km löng og mun þægilegri en fyrri daginn. Veður til göngu var hið besta og útsýni til allra átta. Við þetta tækifæri varð til þetta vísukorn: Hreykja sér á hæsta tindi, glæstir Skálmarar. Horfa vítt til allra átta, austur, vestur, norður og suður. Drekka í sig fegurð fjalla en í dalverpi bíður kjötsúpan ljúfa, hvílíkur friður. Þannig kvað lúinn hugur vísukorn við það eitt að teyga í sig fjallaloftið. Í lok ferðar var fararstjóra, skipuleggjendum og súpukokkum þökkuð sérstaklega þjónustan við Skálmara. Um kvöldið var sameiginleg kvöldvaka þar sem kjötsúpunni voru gerð góð skil. Kristinn Kjartansson lék á harmóníku, tekið var lagið og meira að segja nokkur létt dansspor stigin og svo sagði hann Broddi okkur sögur úr sveitinni bæði nýjar og gamlar. Þar með var þessari ferð Skálmara um Út - Síðu lokið og langþráðu takmarki. Ferðafélögum þakka ég samfylgdina og félagsskapinn.

Myndir: Pétur H.R. Sigurðsson.

fimmtudagur, 17. júní 2010

Gleðilega þjóðhátið

Óska öllum lesendum annálsins gleðilega þjóðhátið. Nú er ferðinni heitið austur á Síðu til að taka þátt í árlegri Skálmgöngu félaga í Skaftfellska gönguhópnum sem kalla sig Skálmara. Þetta er tveggja daga ganga. Í dag var útvarpað þætti um ljóðið Þótt þú langförull legðir og lögin 17 sem samin hafa verið við þetta merka ljóð Stephans G Stephanssonar. Efni þáttarins byggir m.a. á samantekt minni um lögin við þetta ljóð og tónskáldin sem samið hafa lag við ljóðið.

miðvikudagur, 16. júní 2010

Arkað um Eyrarbakka

Leiðsögumaðurinn. Í gær fór ég ásamt félögum í Söngfélagi Skaftfellinga í gönguferð um Eyrarbakka. Við slógumst í för með tveimur söngfélögum sem búa á Bakkanum. Gengið var um elsta hluta bæjarins og húsin skoðuð og saga Eyrarbakka rifjuð upp enda af mörgu að taka. Má þar nefna mikilvægi staðarins fyrir verslun á öldum áður, tónlistariðkun og fleira og fleira. Enduðum þetta skemmtilega rölt söngfélaganna á veitingarstaðnum Hafið bláa við Ölfusárósa og fengum okkur þar góða humarsúpu sem óhætt er að mæla með.

mánudagur, 14. júní 2010

Dottinn í "World cup"

Úr leik Ítala og Paragvæ. Já ég ætla að "detta" ærlega í boltann að þessu sinni. Mikið er gaman að keppnin er loksins hafin og maður getur einbeitt sér að því einu að fylgjast með. Ég ætla að njóta þess í botn á meðan hún varir. Þetta er ágætis aðferð til þess að gleyma veraldlegu amstri um sinn og huga að knattspyrnunni svona góð framlenging á Frakklandsfríinu. Mitt uppáhaldslið er að sjálfsögðu Brasilía eins og alltaf. Þar næst Argentína og Þýskaland. Það eina sem truflar mig svolítið er hversu lélegir sumir leiklýsendur eru í íslensku og tala vitlaust mál. Kveðja.

sunnudagur, 13. júní 2010

Vikan í Myllunni

Sveinn og Helgi
Dagana 4. til 11. júní áttum við Sirrý yndislega daga í Myllunni í Búrgúndý í Frakklandi með vinum okkar Helga og Ingunni. Veðrið framan af vikunni var mjög gott allt að þrjátíu stiga hiti, glaða sólskin og stillt veður. Dögunum var varið í slökun heima við í Myllunni og svo farið á markaðstorgin í bæjunum í kring. Á þessum mörkuðum er aðallega boðið upp á fjölbreytilegt úrval matvöru. Við fórum m.a. í basilíkuna í Vézeley, sem helguð er minningu Maríu Magdalenu og safn Gallanna í Alesíu á mikilli hæð í Burgúndý þar sem Rómverjar knúðu þá til uppgjafar árið 57 fyrir Krist. Hver man ekki eftir bókunum um Astrix og vin hans. Ferðin byrjaði reyndar ekki vel. Ég fékk sýkingu í fótinn daginn áður en lagt var af stað og því fylgdi hár hiti og svo blóðeitrun. Það var sem betur fer ekkert sem skammtur af pensilíni gat ekki lagað. Það er svo sannarlega hægt að mæla með dvöl á þessum frábæra stað vilji fólk njóta eins frægasta vínhéraðs Frakklands og njóta dvalar á rólegum stað í franskri sveitarsælu.

laugardagur, 12. júní 2010

Útskrift úr HÍ

Í dag útskrifaðist Valdimar Gunnar Hjartarson með mastersgráðu í lögum frá Háskóla Íslands. Annállinn óskar honum til hamingju með þennan áfanga. Það ætti að vera nóg að gera á næstu árum við að greiða úr lagaflækjum í samfélaginu. Annars lítið í fréttum nema helst það að heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst í gær og vonandi að maður geti horft á spyrnuna næstu vikur.

föstudagur, 11. júní 2010

Heim í heiðardalinn

Við Sirrý komum heim í dag eftir mikla ævintýraferð til Frakklands. Við vorum alls í sjö daga og áttum náðuga daga í Myllunni í Búrgúndí með vinum okkur milli þess sem við skoðuðum ýmis kennileiti Búrgúndi svæðisins. Veðrið var almennt mjög gott oftast sól og hiti en síðustu tvo dagana var regn.