miðvikudagur, 23. júní 2010

.. með lífið að láni - njóttu þess.

Skólabróðir minn Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur er látinn. Þótt vegir okkar hafi ekki legið saman að heita geti síðan í MR var alltaf gaman að hitta hann og gamla menntaskólatengingin okkar lifði vel. Með lífið að láni - njóttu þess er titillinn á bókinni hans Sæmundar, sem hann skrifaði ásamt kollega sínum Jóhanni Inga Gunnarssyni. Uppbyggileg lesning og einnar messu virði fyrir þá sem eru að leita leiða til þess að fóta sig betur í lífinu. Síðast áttum við góða kvöldstund saman fyrir fimm árum á þrjátíu ára stúdentsafmælinu okkar. Það reyndist vera í síðasta skiptið sem við fórum yfir þetta tímabil í lífinu. Við ræddum námsleiðir okkar og val í menntaskóla. Ég fór á náttúrufræðibraut en hann eðlisfræðibraut ásamt litlum harðskeyttum kjarna. "Sveinn þú varst alltaf einn af okkur." Þessi setning lifir í minningunni úr samtali okkar. Satt best að segja hef ég oft yljað mér við þessa setningu. Í henni fólst ákveðin viðurkenning skólafélaga sem fylgdist með baráttunni á menntaskólaárunum. Blessuð sé minning Sæmundar.

Engin ummæli: