sunnudagur, 20. júní 2010

Úr Skaftárdal í Skál og Skálarheiði.

Gönguhópurinn 2010
Þann 18. júní var komið að fyrri dagleið Skálmhópsins. Göngu frá Skaftárdal að Skál meðfram Skaftá í hlíðum Skálarheiði. Endastaðurinn var bærinn Skál, þar sem við höfðum góða aðstöðu á bænum. Leiðin er seinfarin og æði erfið á köflum. Sérstaklega er hún seinfarin þegar komið er að kjarrsvæði ofan Skaftár í snarbröttum hlíðum heiðarinnar. Veðrið var og gott til göngu og mikill hugur í göngufélögum. Leiðsögumaður okkar var Eiríkur Jónsson frá Skaftárdal, mikill göngugarpur. Við áðum við Á, það eru bæjartóftir eyðibýlis ofarlega í bröttum hlíðum en bærinn fór í eyði 1935. Lambahagagil Áhugaverðir og fallegir fossar og skorningar urðu á leið okkar, Lambhagagil, Drífandi. Útsýni var yfir Skaftáreldahraun yfir í Svínadal og vel sást í Hemru - Stakk. Eldklerkurinn var ofarlega í hugum fólks og saga svæðisins. Með jöfnu millibili las félagi Gísli ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur til þess að næra hugann í bland við náttúrufegurðina. Alls vorum við níu tíma á leiðinni og var það nokkuð nærri þeirri áætlun sem við fylgdum. GPS mælirinn hann Péturs upplýsti okkur um að leiðin væri 16,2 km.
Rauðhóll Seinni daginn þann 19. júní var gengið upp á Skálarheiði sem er í allt að 500 metra hæð. Upp á heiðinni var fylgt gömlum slóða lengst af. Síðan var tekinn góður hringur um heiðinna og horft í höfðuðáttirnar þar sem gat að líta mörg frægustu fjöll Íslands: Mýrdalsjökul, Sveinstind, Vatnajökul og Pálstind og svo mætti áfram telja.
Á göngu. Eftirminnilegur er brennisteinsfnykurinn sem var fyrir vitum okkar á leiðinni upp Skálarheiði. Vísbending um að Skaftárhlaup væri í vændum, þótt ekki hefðum við gert okkur grein fyrir því þá. Í dag berast fréttir af því að hlaup í Skaftá sé hafið. Gangan var alls 15 km löng og mun þægilegri en fyrri daginn. Veður til göngu var hið besta og útsýni til allra átta. Við þetta tækifæri varð til þetta vísukorn: Hreykja sér á hæsta tindi, glæstir Skálmarar. Horfa vítt til allra átta, austur, vestur, norður og suður. Drekka í sig fegurð fjalla en í dalverpi bíður kjötsúpan ljúfa, hvílíkur friður. Þannig kvað lúinn hugur vísukorn við það eitt að teyga í sig fjallaloftið. Í lok ferðar var fararstjóra, skipuleggjendum og súpukokkum þökkuð sérstaklega þjónustan við Skálmara. Um kvöldið var sameiginleg kvöldvaka þar sem kjötsúpunni voru gerð góð skil. Kristinn Kjartansson lék á harmóníku, tekið var lagið og meira að segja nokkur létt dansspor stigin og svo sagði hann Broddi okkur sögur úr sveitinni bæði nýjar og gamlar. Þar með var þessari ferð Skálmara um Út - Síðu lokið og langþráðu takmarki. Ferðafélögum þakka ég samfylgdina og félagsskapinn.

Myndir: Pétur H.R. Sigurðsson.

Engin ummæli: