föstudagur, 24. apríl 2015

Sunnukórinn á Ísafirði - Reykjavíkurför



Fyrir 70 árum eða árið 1945 kom Sunnukórinn á Ísafirði í söngferð til Reykjavíkur. Í minni fjölskyldu hefur þessi atburður verið í minnum hafður vegna þess að í þessari söngför tóku þátt bæði afi minn Jón Hjörtur Finnbjörnsson og systir hans Magrét Finnbjörnsdóttir. Þetta þótti hin mesta frægðarför á Ísafirði. Í Reykjavík var tekið á móti þeim við skipshlið af Dómkórnum og sungust kórarnir á þegar komið var til hafnar. Þrír tónleikar voru haldnir í Reykjavík í Gamla bíó við góðar undirtektir. Síðan var sungið í Hafnarfirði, Vífilsstöðum og á Selfossi. Þá var sungið inn á plötu fyrir Ríkisútvarpið. Nú er komið að því að endurgjalda þessa heimsókn með för Söngfélags Skaftfellinga til Ísafjarðar um mánaðarmótin. Allavega verður í hópnum afkomandi Jóns Hjartar sem er með þessa minningu í fartaskinu og hefur það að leiðarljósi að heiðra minningu afa síns með því að taka þátt í þessari söngferð. Margrét er önnur til vinstri í fremstu röð og afi annar frá vinstri í öftustu röð.

Vorferð Söngfélags Skaftfellinga til Ísafjarðar 1.til 3. maí 2015



Plakatið skýrir sig sjálft en ef einhverjir sem koma inn á þessa síðu verða á Ísafirði 2. maí eruð þið velkomin á þessa vortónleika Söngfélagsins í Ísafjarðarkirkju.

föstudagur, 17. apríl 2015

"Markaðir fylgjast með ykkur"

Göran Persson fyrrverrandi forsætisráðherra Svía og núna fyrirlesari og bóndi var gestur á aðalfundi SA í dag. Hann hældi okkur fyrir það sem áunnist hefur frá bankahruni en hvatti okkur til þess að fara varlega og vera á verði. Hættan væri sú að "markaðir," væntanlega fjármálamarkaðir mundu fylgjast náið með okkur og nýta sér það ef við erum ekki á verði. Hann sagði að við værum rík, ung þjóð með miklar auðlindir og með framtíðaráform sem fylgir ungu fólki. Hann varaði okkur við og sagði að erfiðleikarnir væru ekki yfirstignir. Við ættum eftir að vinna úr erfiðum málum í uppgjöri hrunsins og við ættum eftir að gera breytingar sem koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur. Vitnaði í því sambandi í reynslu Svía frá 10. áratug síðustu aldar. Sænskir stjórnmálamenn ákváðu að hætta að lofa fólki úrræðum án þess að segja hvaðan tekjurnar kæmu. Hann var ekkert að selja okkur evruna eða ESB aðild en nefndi að Þjóðverjar, Frakkar og fleiri Evrópuríki sem hann kallaði "gráhærðu" ríkin vegna þess hve aldursamsetning þjóðanna er óhagstæð ættu í miklum vandræðum. Þetta má túlka þannig að við eigum ekki samleið með þessum þjóðum sem ráða í ESB. Þá gerði hann að umtalsefni deilur þar sem ríki Evrópu væru að deila um óuppgerð mál eftir síðustu heimstyrjöld en Grikkir telja að Þjóðverjar skuldi þeim miklar fjárhæðir vegna síðari heimstyrjaldarinnar. Samandregið má segja að þetta hafi vel einnar messu virði hjá karli.



fimmtudagur, 9. apríl 2015

Saga af sjóveiki

 Það var um borð í Herjólfi til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum að ég fékk síðast sjóveiki. Við ætluðum að skjótast með ferjunni frá Landeyjarhöfn en Herjólfur gat ekki athafnað sig þar, þannig að við urðum að fara til Þorlákshafnar. Veður fór ört versnandi og ferðafélagi minn vissi af sjóveiki minni og af hreinni umhyggju keypti hann kojupláss fyrir mig. En það dugði ekki til. Þegar skipið er komið út fyrir hafnarkjaftinn varð ég veikur. Til að gera langa sögu stutta þá ældi ég eins og múkki alla leiðina til Eyja. Þegar komið var í land fór ég að lagast en ég var grár á litinn og með glóðaraugu á báðum augum eftir að kúgast við uppköstin. Mönnum leist satt best að segja ekkert á mig í Eyjum. Þegar ég hitti formann Útvegsbændafélagsins sagðist hann aldrei hafa séð nokkurn mann svona útlítandi eftir sjóferð með Herjólfi og spurði hvort það gæti verið að ég hefði fengið fyrir hjartað. Hann trúði ekki eigin augum. Nú ég lagðist fyrir og var tiltölulega fljótur að ná mér þótt ég væri með glóðaraugu og ælubrennd raddbönd. Næst þegar ég hitti formanninn á fundi í Reykjavík sagði hann mér að þeir hefðu rætt þessa sjóveiki mína í Útvegsbændafélaginu og væru helst á því að kalla þessa veiki mína "Hjartar-veiki" í ljósi þess að þeir hefðu aldrei kynnst öðru eins afbriðgi af sjóveiki.Þá voru þeir að hugsa til þess að sjúkdómar eru kenndir við lækna sem fyrstir greina sjúkdóma. En þeir voru á því að nefna sjúkdóminn eftir sjúklingnum í þetta skipti. Það er ekki laust við að þeim hafi þótt þetta svolítið skondið..... ekki mér þá. En ég get brosað núna.