fimmtudagur, 9. apríl 2015

Saga af sjóveiki

 Það var um borð í Herjólfi til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum að ég fékk síðast sjóveiki. Við ætluðum að skjótast með ferjunni frá Landeyjarhöfn en Herjólfur gat ekki athafnað sig þar, þannig að við urðum að fara til Þorlákshafnar. Veður fór ört versnandi og ferðafélagi minn vissi af sjóveiki minni og af hreinni umhyggju keypti hann kojupláss fyrir mig. En það dugði ekki til. Þegar skipið er komið út fyrir hafnarkjaftinn varð ég veikur. Til að gera langa sögu stutta þá ældi ég eins og múkki alla leiðina til Eyja. Þegar komið var í land fór ég að lagast en ég var grár á litinn og með glóðaraugu á báðum augum eftir að kúgast við uppköstin. Mönnum leist satt best að segja ekkert á mig í Eyjum. Þegar ég hitti formann Útvegsbændafélagsins sagðist hann aldrei hafa séð nokkurn mann svona útlítandi eftir sjóferð með Herjólfi og spurði hvort það gæti verið að ég hefði fengið fyrir hjartað. Hann trúði ekki eigin augum. Nú ég lagðist fyrir og var tiltölulega fljótur að ná mér þótt ég væri með glóðaraugu og ælubrennd raddbönd. Næst þegar ég hitti formanninn á fundi í Reykjavík sagði hann mér að þeir hefðu rætt þessa sjóveiki mína í Útvegsbændafélaginu og væru helst á því að kalla þessa veiki mína "Hjartar-veiki" í ljósi þess að þeir hefðu aldrei kynnst öðru eins afbriðgi af sjóveiki.Þá voru þeir að hugsa til þess að sjúkdómar eru kenndir við lækna sem fyrstir greina sjúkdóma. En þeir voru á því að nefna sjúkdóminn eftir sjúklingnum í þetta skipti. Það er ekki laust við að þeim hafi þótt þetta svolítið skondið..... ekki mér þá. En ég get brosað núna.

Engin ummæli: