sunnudagur, 26. nóvember 2017

Fyrsta útvarpsviðtalið

Fyrsta útvarpsviðtalið sem ég fór í var árið 1986. Ég var nýbyrjaður í starfi hjá LÍÚ. Undanfarin ár hafði sjávarútvegurinn gengið í gegnum mikið erfiðleikatimabil. Þorskveiði hafði aldrei verið meiri en samt var staða fyrirtækja mjög bágborin. Þá gerist það einn daginn að Gissur Sigurðsson fréttamaður hringir í mig og spyr hvort ég sé ekki tilbúinn að koma í viðtal vegna nýútkominnar skýrslu um sjávarútveg, frá Þjóðhagsstofnun. Það sem vakti athygli var að afkoma útgerðar hafði snúist til hins betra og hann vildi ræða þessi umskipti. Ég mætti í viðtalið og Gissur tók það upp á segulband og eftir nokkrar endurtekningar og klippingar var komið stutt viðtal við kappann. Alltaf var ég fréttamanninum þakklátur hversu mildilega hann fór með viðvaninginn og áttum við ágætis samskipti uppfrá því í áratugi. Velti því fyrir mér í dag hvort þetta sé enn svona þegar óvanir koma í viðtöl.

þriðjudagur, 7. nóvember 2017

Fjórða iðnbyltingin er hafin

Fjórða iðnbyltingin er hafin. Hún felur í sér að miklar breytingar hafa átt sér stað og munu eiga sér stað í samfélaginu. Í fyrsta lagi munu atvinnuhættir breytast, hefðbundin störf við framleiðslu og þjónustu hverfa og ný störf munu krefjast aðlögunar og nýrrar þekkingar, sem erfitt verður að brúa fyrir marga. Í sjávarútvegi sjáum við nú gríðarlegar breytingar. Ný kynslóð fiskiskipa hefur margfalda afkastagetu miðað við eldri skipakost og mun færri þarf í áhöfn skipanna. Fjöldi þeirra sem starfa í sjávarútvegi hefur fækkað mikið á liðnum árum. Næsta kynslóð fiskvinnsluhúsa reiðir sig ennfrekar á nýja tækni, sem felst í sjálfvirkni og tölvutækni sem mun gjörbreyta vinnslu. Markaðir sjávarafurða breytast og krafa um ferskleika afurða eykst. Hefðbundin vinnsla eins og við höfum þekkt hana um áratugi jafnvel aldir gengur einnig í gegnum breytingaferli. Við verðum að átta okkur á að heimsvæðingin í viðskiptum er ekki trygging fyrir því að okkur muni farnast betur. Til þess að svo verði verðum, við að vera á tánum og nýta tækifærin og aðlaga okkur að þessu mikla breytingaferli fjórðu iðnbyltingarinnar. Spurning mín er hvort við séum tilbúin í þennan slag?

sunnudagur, 5. nóvember 2017

Framfarir í knattspyrnu

Kom í Kórinn í fyrsta skipti í dag, glæsilegt íþróttahús okkar Kópavogsbúa í eftri byggðum. Lið Álftnesinga var að keppa við HK úr Kópavogi, það er hverfisliðið mitt. Minn maður var í fyrrnefnda liðinu á móti hverfisliðinu. Álftnesingar unnu stórt 11 - 2. Ég ákvað til málamiðlunar að ég mundi ekki klappa þótt Álftnesingar skoruðu. Í huganum var ég að bera saman breytingar frá því við strákarnir fyrir rúmum 50 árum fórum niður að læk til þess að spila á malarvellinum okkar, sem hann Kolbeinn hafði ýtt fyrir okkur. Völlurinn hefur verið svona 20 x 30 metrar. Svona eru nú framfarirnar stórstigar hér í borg/bæ. Við eigum meira að segja tvö svona hús. Það sem var eftirtektarvert í þessum leik var að í liði Álftnesinga voru líka stelpur, sem gáfu strákunum ekkert eftir. Svo tók ég eftir því að þegar líða tók á seinni helming var HKingum fjölgað inn á vellinum til að jafna leikinn. Á hliðarlínunni voru foreldrar að hvetja og fylgjast með og liðunum fylgdu alvöru þjálfarar, sem stýrðu leiknum. Ég sat undirbúning fyrir leik og hlustaði á þjálfarana útskýra leiktæknina. Hvað bæri að varast og hvernig leikmenn ættu að haga sér. Rifjaðist þá upp fyrir mér að líklega höfum við gert öll mistökin í bókinni fyrir 50 árum. Það er ekki að undra að við séum komin í heimsmeistarakeppnina í fótbolta og það þrátt fyrir höfðatölu

fimmtudagur, 2. nóvember 2017

Umgengi í nærumhverfi

Við vorum að ræða það í sundinu áðan að í Póllandi fari fólkið í kirkju eftir vinnu og Bretlandi á pöbbinn, áður en það fer til síns heima. Við vorum sammála um að viðkoma í heita pottinum væri samsvarandi afþreying í önn dagsins hér á landi. Yfirleitt er þetta þó sami hópurinn, sem kemur í heita pottinn, þannig að þetta er ekki jafn almennt og pöbbinn hjá Bretum. Þetta rifjaði upp árin í Engihjalla 25. Við vorum þrjátíu og sex fjölskyldur í húsinu, sem allar komu heim síðdegis eftir vinnu og skóla. Síðan hófst matargerð í öllum litlu þrjátíu og sex íbúðunum. Engum datt í hug að taka í notkun sameiginlegt eldhús fyrir íbúðirnar og skipta með sér eldhúsverkunum og auka umgengi nágrannanna, þótt einhverjir hefðu orð á því. Þessar pælingar okkar leiddu að þeirri ályktun okkar pottverja að mannskepnan er í raun hjarðdýr. Það er okkur eðlislegt að umgangast með óformlegum hætti í nærumhverfi og sækja beint eða óbeint í félagslegt umgengi hvert við annað. Við vorum sammála um að ef fólk mundi vinna að því að efla þetta umgengi í nærumhverfinu mundum við geta mildað og bætt íslenskt samfélag. Niðurstaða okkar var eins og áður segir að pottasamfélagið væri vísir að slíku, en þó ekki jafn öflugt og heimsóknin í kirkjuna í Póllandi eða á pöbbinn á Bretlandi, sem ku vera á við margar heimsóknir til sálfræðings. Allavega yrði samfélagið líflegra.