sunnudagur, 5. nóvember 2017

Framfarir í knattspyrnu

Kom í Kórinn í fyrsta skipti í dag, glæsilegt íþróttahús okkar Kópavogsbúa í eftri byggðum. Lið Álftnesinga var að keppa við HK úr Kópavogi, það er hverfisliðið mitt. Minn maður var í fyrrnefnda liðinu á móti hverfisliðinu. Álftnesingar unnu stórt 11 - 2. Ég ákvað til málamiðlunar að ég mundi ekki klappa þótt Álftnesingar skoruðu. Í huganum var ég að bera saman breytingar frá því við strákarnir fyrir rúmum 50 árum fórum niður að læk til þess að spila á malarvellinum okkar, sem hann Kolbeinn hafði ýtt fyrir okkur. Völlurinn hefur verið svona 20 x 30 metrar. Svona eru nú framfarirnar stórstigar hér í borg/bæ. Við eigum meira að segja tvö svona hús. Það sem var eftirtektarvert í þessum leik var að í liði Álftnesinga voru líka stelpur, sem gáfu strákunum ekkert eftir. Svo tók ég eftir því að þegar líða tók á seinni helming var HKingum fjölgað inn á vellinum til að jafna leikinn. Á hliðarlínunni voru foreldrar að hvetja og fylgjast með og liðunum fylgdu alvöru þjálfarar, sem stýrðu leiknum. Ég sat undirbúning fyrir leik og hlustaði á þjálfarana útskýra leiktæknina. Hvað bæri að varast og hvernig leikmenn ættu að haga sér. Rifjaðist þá upp fyrir mér að líklega höfum við gert öll mistökin í bókinni fyrir 50 árum. Það er ekki að undra að við séum komin í heimsmeistarakeppnina í fótbolta og það þrátt fyrir höfðatölu

Engin ummæli: