sunnudagur, 26. nóvember 2017

Fyrsta útvarpsviðtalið

Fyrsta útvarpsviðtalið sem ég fór í var árið 1986. Ég var nýbyrjaður í starfi hjá LÍÚ. Undanfarin ár hafði sjávarútvegurinn gengið í gegnum mikið erfiðleikatimabil. Þorskveiði hafði aldrei verið meiri en samt var staða fyrirtækja mjög bágborin. Þá gerist það einn daginn að Gissur Sigurðsson fréttamaður hringir í mig og spyr hvort ég sé ekki tilbúinn að koma í viðtal vegna nýútkominnar skýrslu um sjávarútveg, frá Þjóðhagsstofnun. Það sem vakti athygli var að afkoma útgerðar hafði snúist til hins betra og hann vildi ræða þessi umskipti. Ég mætti í viðtalið og Gissur tók það upp á segulband og eftir nokkrar endurtekningar og klippingar var komið stutt viðtal við kappann. Alltaf var ég fréttamanninum þakklátur hversu mildilega hann fór með viðvaninginn og áttum við ágætis samskipti uppfrá því í áratugi. Velti því fyrir mér í dag hvort þetta sé enn svona þegar óvanir koma í viðtöl.

Engin ummæli: