fimmtudagur, 2. nóvember 2017

Umgengi í nærumhverfi

Við vorum að ræða það í sundinu áðan að í Póllandi fari fólkið í kirkju eftir vinnu og Bretlandi á pöbbinn, áður en það fer til síns heima. Við vorum sammála um að viðkoma í heita pottinum væri samsvarandi afþreying í önn dagsins hér á landi. Yfirleitt er þetta þó sami hópurinn, sem kemur í heita pottinn, þannig að þetta er ekki jafn almennt og pöbbinn hjá Bretum. Þetta rifjaði upp árin í Engihjalla 25. Við vorum þrjátíu og sex fjölskyldur í húsinu, sem allar komu heim síðdegis eftir vinnu og skóla. Síðan hófst matargerð í öllum litlu þrjátíu og sex íbúðunum. Engum datt í hug að taka í notkun sameiginlegt eldhús fyrir íbúðirnar og skipta með sér eldhúsverkunum og auka umgengi nágrannanna, þótt einhverjir hefðu orð á því. Þessar pælingar okkar leiddu að þeirri ályktun okkar pottverja að mannskepnan er í raun hjarðdýr. Það er okkur eðlislegt að umgangast með óformlegum hætti í nærumhverfi og sækja beint eða óbeint í félagslegt umgengi hvert við annað. Við vorum sammála um að ef fólk mundi vinna að því að efla þetta umgengi í nærumhverfinu mundum við geta mildað og bætt íslenskt samfélag. Niðurstaða okkar var eins og áður segir að pottasamfélagið væri vísir að slíku, en þó ekki jafn öflugt og heimsóknin í kirkjuna í Póllandi eða á pöbbinn á Bretlandi, sem ku vera á við margar heimsóknir til sálfræðings. Allavega yrði samfélagið líflegra.

Engin ummæli: