fimmtudagur, 11. ágúst 2016

Þingeyrarþankar um þorsk

Þróun  sjávarútvegs á síðustu áratugum


Þorskurinn er okkar mikilvægasti nytjastofn. Hlutfall hans í útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur um árabil verið um 30%. Í ljósi nýjasta fjölrits Hafró um nytjastofna og aflahorfur er full ástæða til bjartsýni um áframhaldandi vægi þorskveiða. Þar kemur fram að þorskstofninn hefur verið að vaxa og langtímahorfur eru góðar. Hrygningarstofninn hefur ekki verið stærri í 40 ár. Segir í skýrslunni að meðalþyngd sé nálægt langtímameðaltali síðustu 60 ára og hann verði nú kynþroska síðar. Kynþroskahlutfall 6 ára þorsks hefur lækkað úr 50% á síðustu árum í 30%. Það þýðir að náttúran sjálf metur ástand stofnsins viðunandi og frestar kynþroska.
Hagkvæmari veiðar
Aflaráðgjöf Hafró á næsta fiskveiðiári nemur 244 þúsund tonnum og hefur sjávarútvegsráðherra farið að tillögum stofnunarinnar. Hægt og bítandi vaxa aflaheimildir að nýju sem staðfesting á því að uppbyggingarstarfið hafi tekist, þrátt fyrir svartsýnisspár margra. Það sem er einstakt í þessu uppbyggingarstarfi er að atvinnugreinin sjálf hefur borið þá gæfu að standa sjálf vörð um þetta starf.
Fjölrit Hafró er í góðu samræmi við fréttir af veiðum og vinnslu í helstu sjávarbyggðum landsins. Það er mun auðveldara að sækja þorskinn en áður og meðalþyngd landaðs afla hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum. Þetta þýðir að það eru færri fiskar í hverju tonni sem veitt er og það tekur styttri tíma að ná í aflann. Veiðarnar verða þar af leiðandi hagkvæmari og vinnslan sömuleiðis.
Togurum fækkar
Uppbyggingarstarfið hefur haft miklar breytingar í för með sér fyrir atvinnugreinina og sjávarbyggðir. Þess sér stað í mikilli fækkun aflamarksskipa á undanförnum árum með tilheyrandi raski fyrir mörg byggðarlög og starfsfólk. Árið 1985 voru skráðir um 106 ísfisktogarar í landinu (39 metrar og lengri). Á Vestfjörðum einum voru þeir 22 talsins. Nú eru þrír ísfisktogarar gerðir út frá Vestfjörðum og einn frystitogari. Alls eru ísfisktogarar (39 metrar og lengri) um 14 talsins. Töluverðum fjölda ísfisktogara var breytt í frystitogara, sem verka og vinna afla um borð. Í þessum flokki skipa eru um 15 skip í dag en þau voru um 35 þegar þau voru flest.
Togaravæðingin mikla
Stefna stjórnvalda í atvinnuuppbygginu sjávarbyggða, kölluð togaravæðingin mikla, sem hófst í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar fól í sér mikið ofmat á aðstæðum og gjaldþrot fyrir marga. Það voru í raun ekki forsendur til þess að minni byggðarlög gætu rekið einn til tvo togara og frystihús. Þessi stefna er skólabókardæmi um það hvernig ekki eigi að standa að atvinnuuppbyggingu. Hvergi var þetta augljósara en hér á Þingeyri, þar sem þessi pistill er skrifaður.
Þorskstofninn einn og sér þoldi ekki stóraukinn sóknarþunga og það á við um fleiri stofna. Þekking og kunnátta til þess að reka fyrirtæki vantaði í sumum þessara fyrirtækja. Við sjáum nú að rekstur stærri eininga er á þeim stöðum þar sem til staðar er mannafli og aðstæður til þess að sinna þessum rekstri með góðu móti. Minni sjávarþorp hafa sniðið sér stakk eftir vexti og stunda sjósókn sem tekur mið af aðstæðum.    
Hröð framþróun 
Það er athyglisvert að upplifa hversu hröð þróun í vinnslu á þorski hefur verið á undanförnum árum. Áherslan er í vaxandi mæli á unnar ferskar afurðir sem sendar eru beint héðan á markaði erlendis. Róbótar og fullvinnslulínur eru að ryðja sér til rúms, þar sem mannshöndum við flæðilínurnar fækkar ár frá ári. Um þetta vitnar ný framleiðslulína hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, en þar sinna róbótar  verkefnum til að létta og hraða vinnu.
Það sem skiptir sköpum við vinnslu og sölu á þorskafurðum í dag er gott aðgengi að flutningstækjum úr landi, hvort heldur er með flugi eða skipum. Framfarir í meðhöndlun og flutningatækni eru lykilþættir í því hversu vel hefur tekist í þessum efnum.

Aukið markaðsstarf
Næsta stig í viðleitni okkar til að auka verðmæti þorskafurða er að vinna aukið markaðsstarf. Þorskafurðir eru almennt mun lægri í verði en eldislax í verslunum erlendis. Það gefur tilefni til að ætla að verð á þorskafurðum hafi svigrúm til að hækka mikið á komandi árum a.m.k. til jafns við eldislax. Það verður ekki gert öðruvísi en með nýrri hugsun í markaðsstarfi, þar sem haft verður að leiðarljósi sú augljósa staðreynd að það eru til venjulegir strigaskór og það eru til Nike strigaskór.

Höfundur er hagfræðingur.
Greinin birtist í Fiskifréttum júlí 2016