miðvikudagur, 31. janúar 2007

Stórkostlegur leikur.

Leikurinn milli Dana og Íslendinga var frábær. Þvílík barátta milli liðanna. Það fór ekki milli mála að bæði liðin gáfu allt sem þau áttu í leikinn. Það er ekki hægt að biðja um meira. Það að Danir skyldu merja sigur með einu marki í framlengingu er ekki sigur í mínum huga. Það er í raun aðeins ótrúleg heppni þeirra, því okkar piltar áttu skilið að vinna leikinn miðað við framgang hans. Þetta hlýtur þeim Dönum sem horfðu á leikinn að vera einnig ljóst. Þá hlýtur það vera þeim einnig til umhugsunar hversu langt við Íslendingar höfum náð á öllum sviðum mannlífsins síðustu áratugi. Það endurspeglast best í þessum leik. Hver og einn gerði sitt besta og allir lögðu sitt af mörkum. Einhver leiklýsandi hafði að orði að það hefði verið hið "íslenska drenglyndi" sem gerði það að verkum að við töpuðum á lokasekúndu leiksins. Við hefðum átt að brjóta á þeim. Þetta þótti mér fáranleg athugasemd. Hvers virði væri slík leikniðurstaða fyrir okkur. Annars verð ég að segja að þessi móðursýki í lýsingum leikja gerir það að verkum að maður endist ekki til að horfa á leiki nema með því að skrúfa niður í lýsingunni. Ég tel að það þurfi að koma til nýjar aðferðir við að lýsa svona kappleikjum. Það þarf meiri yfirvegun í umfjöllun og fagmannlegri umfjöllun. Þessi móðursýkisóp ættu að heyra fortíðinni til. Í útlöndum gefst áheyrendum kostur á að velja um nokkra leiklýsendur sem hentar hverjum og einum. Ég stóð mig að því í leik Þjóðverja og okkar manna að hafa á þýsku stöðina því þar var hægt að fylgjast með leiknum án þessarar móðursýki.

sunnudagur, 28. janúar 2007

Átta liða úrslitin.

Ánægjulegt að íslenska handknattleiksliðið skyldi komast í átta liða úrlitin á HM í Þýskalandi. Virkilega gaman að horfa á liðið spila af mikilli gleði og standa sig svona vel þótt það hafi tapað fyrir Þýskalandi í dag. Vonandi að þetta haldi eitthvað áfram. Þetta lið er til alls líklegt í þessari keppni. Annars það helst í fréttum að við fórum á sögusýningu Landsbankans í dag. Vönduð yfirlitssýning um starfsemi bankans í 120 ár. Þetta er eins og að fá góðan fyrirlestur í íslenskri hagsögu.Óhætt að mæla með heimsókn á þessa sýningu. Á eftir fórum við í Kolaportið. Þangað hefur maður ekki komið lengi. Þetta er það helsta í fréttum héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Flott hjá strákunum okkar!

Sigur á Frökkum og svo sigur á Túnismönnum er hægt að biðja um meira. Hvaða máli skiptir smá tap gegn Úkraínumönnum og Pólverjum? En maður er alltaf tilbúinn að sjá sigurleiki. Vonandi eigum við eftir að sjá fleiri svoleiðis leiki áður en yfir líkur.
Kveðja.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Þrjár kynslóðir.


Þessi mynd var tekin á sunnudaginn var af afa í Kópavogi, Hirti langafa og Unni langömmu, daginn sem Sveinn Hjörtur og Jóhannes Ernir fóru til síns heima í Svearíki. Sveinn Hjörtur hefur svo gaman af að heyra gömlu klukkuna sem sjá má á myndinni slá. Hún var í eigu langalanga afa hans og ömmu. Þau munu hafa fengið hana í giftingargjöf árið 1928 þ.e. snemma á síðustu öld. Ég man það sjálfur þegar ég var barn og afi minn Axel létt klukkuna slá nokkur slög fyrir mig. Þessvegna var tilvalið að nafni fengi líka að heyra hljómfagrann sláttinn í henni. Hann hafði mikið gaman af því. Þegar maður verður sjálfur afi þá rifjast upp fyrir manni löngu gleymdar minningar í samskiptum við sína afa og ömmur sem barn. Það sem manni fannst gott og vakti hjá manni öryggiskennd byrjar maður ósjálfrátt að flytja yfir til eigin barnabarna. Er þetta ekki einmitt hinn verðmæti arfur kynslóðanna? Annars lítið í fréttum. Maður er í þessu sama. Kóræfing í gærkvöldi, Rótarý í dag. Ég ætla að færa til bókar frækið afrek handaboltastrákanna í landsliðinu í leiknum við Frakka í gær. Hvílíkt baráttuþrek sem þeir sýndu í erfiðri stöðu. Svona frammistaða verður lengi í hávegum höfð. Sýnir okkur hversu megnug við getum verið þótt staðan sé ekki alltaf eins og best verður á kosið. Til hamingju handboltastrákar. Kveðja.

laugardagur, 20. janúar 2007

Á þorranum.

Þetta er að verða ansi langt kuldakast sem við búum við þessa dagana. Þorrinn hófst í gær. Ég var boðinn í Múlakaffi í þorramat og er maturinn þar alltaf jafn góður. Hann er eitthvað svo lystilegur og "ferskur" ef hægt er að nota það orð um súrsaðan mat. Ég fór í dag á Reykjavíkurflugvöll og sótti Hjört Friðrik sem kom með 14.00 vél frá Akureyri. Hann hefur verið þar í afleysingum á FSA síðustu vikuna. Þau fara svo heim til Svíþjóðar á morgun. Frá Reykjavíkurflugvelli keyrðum við í beit suður í Keflavík til þess að sækja Sirrý sem lenti með IE vél frá Kaupmannahöfn kl.14.20. Ég er mikill stuðningsmaður þess að Reykjavíkurflugvöllur fái að þjóna landsbyggðinni áfram. Það hefði þó komið sér betur í þetta skipti ef bæði hefðu lent á sama flugvellinum. Hér komu í dag Vélaug og Sigurður brún og sælleg frá Kúbu. Þau ákváðu að slaufa jólunum og dvelja hjá Castró á Kúbu. Áttu þar góða daga í Havanna og á ströndinni. Björn átti 70 ára afmæli í gær 19. janúar og óskum við honum til hamingju með daginn. Hér komu í kvöld Stella og Valdimar. Þetta er það helsta í fréttum af okkur. Kveðja.

þriðjudagur, 16. janúar 2007

Vetrarríki í Fossvogsdal.

Hver var að tala um að "global warming". Hann ætti að vera hér í Fossvogsdal í kvöld. Það er mikill kuldi og snjór og ekkert veður til þess að vera úti. Ég sagði ykkur frá því í síðasta pistli að Sirrý hefði flýtt för sinni frá Jönköping í síðustu viku. Hún lagði af stað í hífandi roki klukkan þrjú um nótt og vægast sagt við hrollvekjandi aðstæður. Það er ekkert grín að vera ein á ferð með ferðatösku aðfaranótt laugardags í ókunnugum bæ. Maður hafði nú ekki vit á því að gera sér áhyggjur út af því svona fyrirfram. Nú hún komst heim á laugadaginn heil á húfi. Hefði hún hinsvegar haldið upprunalegu ferðaplani hefði hún að öllum líkindum orðið fyrir miklum töfum vegna óveðursins sem gékk yfir Svíþjóð um helgina. Á sunnudaginn brunuðum við upp í Borgarnes að hitta Ingibjörgu og drengina. Í gær vorum við í matarboði hjá Birni og Gunnhildi. Hann á stórafmæli núna í janúar. Þetta er það helsta sem hér hefur verið í gangi hjá okkur. Kveðja.

laugardagur, 13. janúar 2007

...á ferð og flugi.

Þetta er ein af þessum vikum sem allt er á ferð og flugi í kringum okkur hér í Brekkutúni. Sirrý kom frá Jönköping í dag. Hún fór þaðan með rútu kl. 3.00 sl. nótt og var komin til Kaupmannahafnar í morgunsárið. Vélin hennar lenti um kl. 15.00. Hjörtur Friðrik kom á miðnætti frá Kristianstad via Kph. á föstudagskvöldið og hélt svo til Akureyrar í dag með hádegisvélinni. Nú við fórum í eins árs afmæli Valgerðar Birnu í dag. Þann 9. fórum við í afmæli til Höllu. Á morgun á Axel Garðar jr. afmæli.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Sambýli okkar Hermanns.

Ég hef á þessari síðu í gegnum árin oft sagt frá ýmsum meðlimum fjölskyldunnar, enda mörg sjálf duglegir bloggarar. Ég hef líka sagt ykkur af ferðum Sunnu, labradorsins sem er hér stundum í heimsókn. Það sló mig áðan að ég hef aldrei sagt ykkur frá "flugmarskálkinum" Hermanni sem hér býr. Hann kom hér hálfgert í óþökk mína og svo þegar eigandinn flutti að heiman fyrir margt löngu þá skyldi hann marskálkinn eftir! Hér er ég að sjálfsögðu að tala um ljósbláa páfagaukinn Hermann Göring sem hér á heima. Dvalarstaður hans hefur lengst af verið í kjallaranum í sambýli við kanínuna Dúllu sem dó í fyrra vor. Um tíma dvöldu þau saman í bílskúrnum, en eftir lát Dúllu sá ég aumur á honum og tók hann aftur í kjallarann. Nú ég gaf honum spegil og það bætti lífsgæði hans margfallt. Hann er að vísu löngu búinn að komast að því að þetta er spegilmynd af honum sjálfum en ekki annar páfagaukur. Það tók hann töluverðan tíma og fyrirhöfn. Sambúð okkar Hermanns er þannig að okkur er eiginlega hvorugum um hinn gefið, erum í svona hlutlausri sambúð. Hann verður frekar taugaveiklaður þegar ég nálgast hann og vill ekki of náin kynni. Eitt eigum við þó sameiginlegt og það er tónlistin. Hann lætur mig alltaf vita þegar hann kann að meta lög sem ég er að spila. Nú í desember var Hermann fluttur af dótturinni upp í ris til mín án þess að ég væri spurður. Ég hef komist að öðru sameiginlegu áhugamáli okkar við þetta breytta sambúðarform. Við höfum gaman af því að horfa á sjónvarpið og "skrolla" milli rása. Það hefur samfært mig um að Hermann er karlmaður. Hann hefur mikinn áhuga á því sem fer fram á skjánum og tjáir sig um það með ýmsum hætti: blístrar, flýgur, yglir sig. Ég hef staðið hann að því að fylgjast með mér í tölvunni, annað sameiginlegt áhugamál? Nja varla og þó. Nú það er eins gott að láta sér líka við Hermann því við erum svo gott sem herbergisfélagar nú um stundir.

mánudagur, 8. janúar 2007

Koma sér í rútínu.

Byrjaði aftur í fyrsta leikfimi tímanum eftir áramót í dag. Það var vel mætt og hugur í félögunum. Leikfimisstjórinn vigtaði okkur. Ég þyngdist ekkert yfir jólin enda má maður illa við því(Léttist reyndar aðeins). Það er nú árangur út af fyrir sig. Miðað við allar þær freistingar sem maður þarf að passa sig á á jólum. Nú við vorum brýndir af leikfimistjóranum til dáða og að setja okkur verðug markmið í líkamsræktinni. Ég stefni ótrauður á - 5 kg. fyrir maílok eða þar um bil. Nú fyrsta kóræfingin var í kvöld. Það var frekar illa mætt og er það að verða svolítið vandamál hversu kórfélagar mæta illa. Að vísu mættu tvær nýjar í sópraninn og vonandi að þær endist með okkur. Það er varla nóg þegar mættir eru um 20 félagar en þeir þyrftu að vera 30 til þess að söngurinn verði góður. Byrjuðum þó að æfa nokkur lög sem ég hef ekki sungið áður. Að vísu eitt lag eftir Sigfús heitinn Halldórsson sem ég hef mikið fengist við í gegnum tíðina, Litlu fluguna. Þetta er svona það helsta sem er af þessu vettvangi að frétta þennan daginn. Kveðja.

sunnudagur, 7. janúar 2007

Basl og kyrrstaða - umskipti og endurmat.

Á netinu í dag hlustaði ég á Andrés Björnsson fyrrum útvarpsstjóra lesa ritgerð eftir Kristján Eldjárn heitinn, sem ber nafnið Íslands þúsund ár. Í þessari ritgerð rekur forsetinn söguþróun Íslandsbyggðar frá landnámi til vorra daga. Niðurstaða hans er að torfbærinn og búskaparhættir Íslendinga hafi staðið nánast óbreyttir frá fyrstu landsnámsbyggð og fram á miðja 20.öldina. Í raun hafi ríkt járnöld á Íslandi frá 9.öld og fram á þá 20. þegar véla- og tækniöld hefst. Landnámsbóndinn og síðustu torfbæja bændurinir á 20.öld hefðu skilið hvorir aðra vel varðandi búskaparhætti, mun betur en fólk mundi skilja þá síðasttöldu í dag. Veraldarauður kynslóðanna hafi verið lífsneisti nýrra kynslóða. Annars hefði líf allflestra verið linnulaust basl og kyrrstaða sem varði í 1000 ár - bjargræðin hin sömu, verkmenning og tækni hins sama. Almennt er talið að járnöld hafi hafist í Skandinavíu 400 f. Kr. Í ljósi þessarar niðurstöðu Kristjáns Eldjárns er auðskilið það umrót sem íslenskt samfélag býr við í dag. Enginn þarf að vera hissa á því að samfélagið eigi við vaxtarverki að stríða í ljósi stöðulýsingar forsetans og undrast skort á festu í samfélaginu. Ef litið er svo til þeirrar umbyltingar sem upplýsingabyltingin hefur haft í för með sér má ljóst vera að framundan eru ár enn frekari umskipta og endurmats á því sem við höfum jafnvel síðustu 100 ár talið sjálfsagða og sístæða hluti. Lítið dæmi. Þessi "blogg kúltúr" er að tengja saman ólíkt fólk jafnvel í fjarlægum heimshlutum sem er að bera saman bækur sínar og draga lærdóm hvert af öðru.

laugardagur, 6. janúar 2007

Á þrettándanum.

Við fórum á hátíðartónleika Rótarý í Salnum í gærkvöldi. Hlýddum þar á Kammerkór Langholtskirkju og Braga Bergþórsson tenór syngja við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Stjórnandi Kammerkórsins var Jón Stefánsson. Þetta var hátíðleg stund og vandað til söngsins. Á fyrri hluta efnisskrárinnar voru trúarleg verk eftir ýmsa þ.á.m. Bach og Hildigunni Rúnarsdóttur. Eftir hlé söng Bragi Bergþórsson styrkhafi Rótarý tónlistarsjóðsins nokkur lög. Efnilegur ungur söngvari sem gaman var að hlíða á og mun maður fylgjast með honum í framtíðnni. Eftir tónleikana héldum við smá boð með vinafólki sem var á tónleikunum. Annars mest lítið í fréttum. Nú er farið að snjóa hér á Reykjavíkursvæðinu og snjóar töluvert. Það er hlýtt úti þannig að það er spurning hvað snjórinn varir lengi. Heyrðum í Hirti í Svíþjóð og Valdimar og Stella kíktu hér við í kvöld. Sirrý fer til Svíþjóðar í fyrramálið. Við fórum í Borgarnes í dag og heimsóttum litlu drengina, Ingibjörgu og foreldara hennar. Það hafa verið miklar sprengingar hér í kvöld og er maður orðinn allþreyttur á þessum eilífu sprengingum. Þessir sprengigaurar hljóta að vera í vandræðum með aurana sína.

miðvikudagur, 3. janúar 2007

Flensuskítur.

Ahh, það er leiðinlegt að byrja nýtt ár á því að liggja eins og slytti í flensu. Þannig byrjuðu tveir fyrstu dagar ársins hjá mér. Ég er nú allur að ná mér en þetta var ekkert fljúgandi start á árinu hjá manni. Ég segi bara það sama og hr. Kristján Eldjárn forseti í Háskólabíó forðum daga þegar hann hrasaði á leið í pontuna á kosningarhátiðinni: Fall(flensa!) er sama og fararheill. Sirrý lagðist líka þannig að þetta er engin uppgerð í mér. Höfum verið í sambandi við Hjört í Svíþjóð. Hilda er komin suður eftir áramótin fyrir norðan. Ekkert heyrt í Valdimar og Stellu. Hér komu í kvöld í heimsókn foreldrar mínir og fengu að smakka hinn einstaka "Jensínu ömmuís". Það er stillt og heiðskýrt veður í dalnum okkar. Yfir miðjum Fossvogsdal dansa Norðurljósin í öllum sínum skrúða. Einstaka stjörnur má greina á himninum, þótt ekki kunni ég að greina frá nöfnum þeirra. Kórónan á Bogarspítalanum trjónar sínu fegursta vegna þess að það eru slökkt öll ljós í turninum. Flugvitinn á Perlunni lýsir upp himininn með hvítu og grænu ljósi. Efst á kúpli Perlunnar logar hinsvegar rautt ljós. Fossvogskapellan er upplýst í næturmyrkrinu. Útvarpshúsið einnig upplýst að vanda. Húsin kúra í dalnum og mest ber á lýsingu ljósastauranna. Það er orðin svo mikill gróður kringum húsin að hann deyfir birtuna í gluggum margra húsa jafnvel þótt laufin séu fallin. Held ég láti þessa lýsingu út um gluggan minn duga í dag. Kveðja.

mánudagur, 1. janúar 2007

Gleðilegt ár!

Árið kvatt. Aldrei man ég eftir öðru eins sprengjufári og þessi áramót.












Partýið. Valdi og Stella voru hjá okkur heimilisfólkinu í Brekkutúni.












Sprengjuregn. Reykurinn lá lengi yfir borginni í stillunni. Annars róleg áramót hjá okkur. Við komum víða víð. Fórum á brennur borgarinnar. Heimsóttum Þórunni systur og enduðum í stuttri heimsókn hjá Höllu og Erni. Kveðja.