miðvikudagur, 10. janúar 2007

Sambýli okkar Hermanns.

Ég hef á þessari síðu í gegnum árin oft sagt frá ýmsum meðlimum fjölskyldunnar, enda mörg sjálf duglegir bloggarar. Ég hef líka sagt ykkur af ferðum Sunnu, labradorsins sem er hér stundum í heimsókn. Það sló mig áðan að ég hef aldrei sagt ykkur frá "flugmarskálkinum" Hermanni sem hér býr. Hann kom hér hálfgert í óþökk mína og svo þegar eigandinn flutti að heiman fyrir margt löngu þá skyldi hann marskálkinn eftir! Hér er ég að sjálfsögðu að tala um ljósbláa páfagaukinn Hermann Göring sem hér á heima. Dvalarstaður hans hefur lengst af verið í kjallaranum í sambýli við kanínuna Dúllu sem dó í fyrra vor. Um tíma dvöldu þau saman í bílskúrnum, en eftir lát Dúllu sá ég aumur á honum og tók hann aftur í kjallarann. Nú ég gaf honum spegil og það bætti lífsgæði hans margfallt. Hann er að vísu löngu búinn að komast að því að þetta er spegilmynd af honum sjálfum en ekki annar páfagaukur. Það tók hann töluverðan tíma og fyrirhöfn. Sambúð okkar Hermanns er þannig að okkur er eiginlega hvorugum um hinn gefið, erum í svona hlutlausri sambúð. Hann verður frekar taugaveiklaður þegar ég nálgast hann og vill ekki of náin kynni. Eitt eigum við þó sameiginlegt og það er tónlistin. Hann lætur mig alltaf vita þegar hann kann að meta lög sem ég er að spila. Nú í desember var Hermann fluttur af dótturinni upp í ris til mín án þess að ég væri spurður. Ég hef komist að öðru sameiginlegu áhugamáli okkar við þetta breytta sambúðarform. Við höfum gaman af því að horfa á sjónvarpið og "skrolla" milli rása. Það hefur samfært mig um að Hermann er karlmaður. Hann hefur mikinn áhuga á því sem fer fram á skjánum og tjáir sig um það með ýmsum hætti: blístrar, flýgur, yglir sig. Ég hef staðið hann að því að fylgjast með mér í tölvunni, annað sameiginlegt áhugamál? Nja varla og þó. Nú það er eins gott að láta sér líka við Hermann því við erum svo gott sem herbergisfélagar nú um stundir.

Engin ummæli: