sunnudagur, 7. janúar 2007

Basl og kyrrstaða - umskipti og endurmat.

Á netinu í dag hlustaði ég á Andrés Björnsson fyrrum útvarpsstjóra lesa ritgerð eftir Kristján Eldjárn heitinn, sem ber nafnið Íslands þúsund ár. Í þessari ritgerð rekur forsetinn söguþróun Íslandsbyggðar frá landnámi til vorra daga. Niðurstaða hans er að torfbærinn og búskaparhættir Íslendinga hafi staðið nánast óbreyttir frá fyrstu landsnámsbyggð og fram á miðja 20.öldina. Í raun hafi ríkt járnöld á Íslandi frá 9.öld og fram á þá 20. þegar véla- og tækniöld hefst. Landnámsbóndinn og síðustu torfbæja bændurinir á 20.öld hefðu skilið hvorir aðra vel varðandi búskaparhætti, mun betur en fólk mundi skilja þá síðasttöldu í dag. Veraldarauður kynslóðanna hafi verið lífsneisti nýrra kynslóða. Annars hefði líf allflestra verið linnulaust basl og kyrrstaða sem varði í 1000 ár - bjargræðin hin sömu, verkmenning og tækni hins sama. Almennt er talið að járnöld hafi hafist í Skandinavíu 400 f. Kr. Í ljósi þessarar niðurstöðu Kristjáns Eldjárns er auðskilið það umrót sem íslenskt samfélag býr við í dag. Enginn þarf að vera hissa á því að samfélagið eigi við vaxtarverki að stríða í ljósi stöðulýsingar forsetans og undrast skort á festu í samfélaginu. Ef litið er svo til þeirrar umbyltingar sem upplýsingabyltingin hefur haft í för með sér má ljóst vera að framundan eru ár enn frekari umskipta og endurmats á því sem við höfum jafnvel síðustu 100 ár talið sjálfsagða og sístæða hluti. Lítið dæmi. Þessi "blogg kúltúr" er að tengja saman ólíkt fólk jafnvel í fjarlægum heimshlutum sem er að bera saman bækur sínar og draga lærdóm hvert af öðru.

Engin ummæli: