laugardagur, 31. maí 2008

Á ráðstefnu um dragnót.

Ráðstefnugestir. Ég hef verið á mjög fróðlegri ráðstefnu um dragnótaveiðar í Reykjanesbæ á vegum Samtaka dragnótamanna og Fjölbrautarskóla Suðurnesja sl.tvo daga. Flutt voru mörg áhugaverð erindi um dragnótaveiðar og ýmislegt tengt slíkum veiðum. Fyrirlesarar og ráðstefnugestirnir komu víða að m.a. frá Kanada, Noregi Setlandseyjum, Skotlandi, Hollandi, Frakklandi og Namibíu auk Íslands. Jarðskjálftinn skaut þeim skelk í bringu í gær og líklega mun þeim seint líða þessi atburður úr minni. Niðurstaðan ráðstefnunnar var að dragnótin væri til þess að gera vistvænt og orkugrannt veiðarfæri.
Ólafur Björnsson. Í gær heiðruðu dragnótamenn Ólaf Björnsson fyrrum útvegsmann frá Keflavík í Duushúsi fyrir framlag hans í til varnar dragnótaveiðum á árum áður. Hann er vel ern þótt hann sé tímabundið í hjólastól vegna fótbrots. Í kvöld endaði ráðstefnan á umræðu þátttakenda um efnið og síðan var haldið í Salthúsið í Grindavík þar sem snæddur var sameiginlegur kvöldverður. Menn lýstu yfir almennri ánægju sinni með þessa ráðstefnu. Kveðja.

sunnudagur, 25. maí 2008

Enn af Eurovision.

Fjórtánda sæti fyrir diskólagið það var ekki sem verst. Austur - Evrópuþjóðir koma gríðarlega sterkar inn í þessa keppni. Lögin og flytjendur eru mun betri en það sem Vestur - Evrópa er að bjóða upp á. Við Íslendingar erum staðnaðir í diskólögum sem heyra sögunni til. Við komum með einhverjar klisjur ár eftir ár sem skila litlum árangri. Samt vil ég ekki gera lítið úr söngparinu okkar þau voru ekki með nógu gott lag. Líklega kominn tími til að huga að nýjum lögum og nýrri ásýnd. Ég kaus norska lagið.´Kveðja.

föstudagur, 23. maí 2008

Formlegur lögskýrandi í fjölskyldunni.

Jæja, þar kom að því að við eignuðumst okkar eigin lögskýranda í fjölskyldunni. Annállinn óskar Valdimari til hamingju með lögfræðiprófið, en hann fékk niðurstöðu úr síðasta prófinu í gær og er þar með orðin BA í lögum frá HÍ. Aðrar fréttir eru þær helstar að Sigrún Huld hefur haldið á vit ævintýranna og hefur hún ráðið sig í sumar til Víkur í Mýrdal á dvalarheimilið Hlíðartún.

miðvikudagur, 21. maí 2008

Evrópumeistarar Manchester United 2008

Þetta var svakalega spennandi leikur milli M. United og Chelsea í Moskvu í kvöld. Var þó eiginlega sama hvort þeirra mundi vinna. Mikið grátið í báðum liðum í leikslok. Það var að vísu tilkomumikið að sjá gömlu kempuna Bobby Charlton ganga fyrir M.United við verðlaunaafhendinguna fimmtíu árum eftir flugslysið í Muchen þegar átta leikmenn liðsins létust. Kveðja.

laugardagur, 17. maí 2008

Á móti inngöngu.

Fór í Valhöll í morgun til að hlusta á forsætisráðherra fara yfir stöðu helstu mála. Hann sagði þar m.a. að hann væri ekki í vafa um að þegar vegnir væru kostir og gallar við aðild Íslands að Evrópusambandinu væru kostirnir léttvægari. „Þess vegna vil ég ekki ganga í Evrópusambandið," sagði forsætisráðherra. Þar er ég honum hjartanlega sammála. Í mínum huga er innganga ekki eftirsóknarverð í ESB og verða að gangast undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB - sem þýðir að fiskimiðin verði sameign aðildarþjóðanna og ákvarðanir um nýtingu fiskimiðanna verði í Brussel. Þær raddir heyrast stundum að við eigum að fara "norsku" leiðina að bandalaginu þ.e. athuga hvað við getum fengið í samningaviðræðum og fara svo með það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hafa Norðmenn gert í tvígang fyrst 1972 og aftur 1994 og í bæði skiptin var aðild í Noregi hafnað m.a. vegna þess að þjóðin var ekki tilbúin að afsala eignarhaldi á fiskimiðunum. Norðmenn gátu fengið tímabundinn frest frá sameiginlegu stefnunni en ekki varanlega undanþágu. ESB er ekki hrifið af svona "ef til vill" samningaviðræðum eins og Norðmenn hafa ástundað. Bandalagðið ætlast til þess að þjóðir séu búnar að gera upp hug sinn um hvort þær vilji verða hluti af "fjölskyldunni" eins og samningmenn þeirra kalla klúbbinn. Ég hef hlustað á einn af samningarmönnum þeirra lýsa því að slík nálgun á aðild hugnist þeim alls ekki. Minnistæð er umræðan í Noregi á aðalfundi Norges Fiskarlag árið 1994 sem ég sat, þegar þau tókust á um ESB inngöngu Noregs Einar Hepsö formaður Norges Fiskarlag og Gro Bruntland þáverandi forsætisráðherra. Maður upplifði þarna á þessari ögurstundu að gamli skipstjórinn hafði betur en forsætisráðherrann í málflutningi sínum. Bruntland gat ekki sannfært landa sína um að hagsmunir í sjávarútvegi Norðmanna væru tryggðir í þessum aðildaviðræðum. Tími Frú Bruntlands þess annars merka stjórnmálamanns var þar með á enda runninn.

miðvikudagur, 14. maí 2008

Það helsta.........

Hver hefði trúað því að harkalega hafi verið tekist um það þegar samþykkt var að koma á vatnsveitu í höfuðborginni árið 1909. Það er erfitt að ímynda sér það í dag. Þetta kom fram á Rótarýfundi sem ég sótti í gær. Svo var aðalfundur Skaftanna (Söngfélags Skaftfellinga) í gærkvöldi að loknu vetrarstarfi. Þetta hefur verið skemmtilegur vetur með nýjum stjórnanda og nýju lagavali. Mikið hefur verið sungið og farin ein góð ferð um Suðurland um heimaslóðir Skaftfellinga. Um helgina síðustu fórum við suður á Reykjanes og keyrðum um gamla hervöllinn. Miklu fleiri byggingar en ég hafði gert mér grein fyrir.Síðan fórum við þessa leið sem Stöð 2 benti á í fréttatíma sunnan við völlinn fram hjá Básenda og Stafnesi. Básendi hefur ekki verið aðgengilegur í áratugi.Það er mjög sérstakt landslag þarna, gróðursnautt og mikið af grjóti. Vel þess virði að kíkja á þetta sérstæða umhverfi. Kveðja.

laugardagur, 10. maí 2008

Deja Vu.

Faðir og dóttir Hér eru þau feðgin Valdimar og Lilja að fá sér lúr saman. Myndin minnti mig á aðra mynd sem hér fylgir einnig með.
Faðir og sonur Stóðst ekki mátið að birta þessar tvær myndir. Þessi mynd af okkur Valda var tekin sumarið 1984 þegar við lögðum okkur eftir að hafa verið að byggja "pabba Svenna húsið".

Á hvítasunnunni.

Poseidon í Gautaborg
Hinn heilagi andi kom yfir lærisveinana á hvítasunnunni og gaf þeim styrk til að hefja boðun fagnaðarerindisins. Maður hefur svona verið að bíða eftir því að andinn kæmi yfir mann líka. Allavega andagift til þess að geta skrifað eitthvað á þessa síðu sem nú fagnar fjögurra ára afmæli. Tékkneska tónskáldið Betrich Smetana hefur verið mér hugleikið undanfarna daga eftir að ég eignaðist disk með laginu Moldá í verkinu Föðurland mitt. Við Smetana eigum einn sameiginlegan snertiflöt. Báðir höfum átt heima í Gautaborg í Svíþjóð um tíma að vísu með 120 ára millibili. Hann við Gautakanal en ég á Krokslätt aðeins austar í borginni. Ég minnist þess að hafa heyrt það nefnt að lagið Moldá hefði hann samið í Gautaborg horfandi á kanalinn með heimþrá. Hvergi hef ég þó fengið það staðfest. Dvöl hans í Gautaborg skipti hann miklu máli og hjálpaði honum að ná fótfestu í tónlistarlífinu i Prag þegar hann fór heim til Tékklands að nýju. Við lestur Wikpediu á netinu er ekki að sjá að hann hafi samið þau sex eða sjö ár sem hann átti heima í Gautaborg! Aftur á móti segir í Wikpediu að finna megi tengsl milli frægustu laglínu hans í verkinu Moldá við sænska lagið Ack Värmland. Þannig að tónlistin tengir lagið Moldá við Svíþjóð, þótt dagatöl Tékka segi allt aðra sögu. Að vísu segir forstöðumaður Smetana safnsins í Prag að hann hafi lagt grunninn að þremur mikilvægum verkum sínum í Gautaborg. Hvað sem öðru líður reyndist dvölin Smetana heilladrjúg. Segja má að þar eigum við Smetana annan og mikilvægan snertiflöt sem er að báðir áttum við góða dvöl og fengum gott veganesti frá þessari fegurstu borg Norðurlanda. Hann á sviði tónlistarinnar og ég hagfræðinnar, þótt vissulega hafi ég orðið fyrir gríðarlegum tónlistaráhrifum í Gautaborg m.a. á tónleikum hjá Fred Åkerström og Johnny Cash. Að ég gleymi nú ekki þeirri staðreynd að hafa verið "leiddur til söngs" í Söngfélagi Skaftfellinga undanfarin fjögur ár af skaftfellskum Gautaborgurum.

fimmtudagur, 8. maí 2008

Sumarið kom með störrum og próflestri.

Það er komið sumar. Hér í Fossvogsdal er logn, heiðskírt og sól á lofti í dag. Sambýlisfólkið er ýmist að lesa undir próf eða lesa yfir próf. Maður verður að haga sér í samræmi við það. Meira að segja páfagaukurinn hann Hermann verður að láta farið lítið fyrir sér. Spilaði fyrir hann Föðurland mitt eftir tékkneska tónskáldið Smetana. Honum þótti það svo fallegt að hann söng hástöfum undir þar til nemandanum á heimilinu þótti nóg komið. Nú bíður hann í ofvæni eftir því hvort ég spili fyrir hann plötuna að nýju. Kveðja.

þriðjudagur, 6. maí 2008

Það helsta........

Í dag var í fyrsta sinn tekin inn kona sem félagi í Rótarýklúbb Kópavogs. Síðastliðin 47 ár hafa eingöngu verið karlmenn í klúbbnum. Þessi ákvörðun stjórnar er í samræmi við það sem almennt hefur verið að gerast innan hreyfingarinnar á undanförnum árum. Nú annars er frá litlu að segja héðan. Maður er svona rétt að jafna sig á tímamuninum eftir að hafa verið í Kanada. Kveðja.

mánudagur, 5. maí 2008

Heim í heiðardalinn.

Jæja þá er maður kominn til baka í heiðardalinn. Nú er sumarið örugglega komið. Ferðin heim frá Kanada gékk vel. Merkilegt að maður skuli geta tollafgreitt sig hjá bandarískum yfirvöldum á flugvellinum í Montreal. Við hefðum ef til vill átt að bjóða upp á þetta líka hér um árið. Það hefði einfaldað þessar endalausu gegnumlýsingar á hverjum áfangastað. Ég missti af lokatónleikum Skaftanna þann 1. maí síðastliðinn. Það hefði verið gaman að "mússisera" með flotta bandinu og kórnum. Ég held að síðasti mánuður toppi alla aðra mánuði í lífi mínu varðandi tónlistariðkun, upplifun og þekkingaröflun. Pistlar í apríl bera þess glöggt merki og er þó ekki allt talið með s.s. fyrirlestur hjá Jónasi Ingumundarsyni í Rótarý um tónlist. Nú verður pása hvað það varðar allavega fram á haustið nema eitthvað ófyrirséð dúkki upp. Kveðja.

föstudagur, 2. maí 2008

Kveðja frá Montreal

Næsta nágrenni. Svona er útsýnið yfir borgina af 36. hæðinni á hótelinu sem ég gisti. Er hér á NAFO fundi. Það er svolítið sérstakt að vera kominn hingað til Norður-Ameríku þar sem frönsk tunga er málið í samskiptum manna. Montreal er ein af stærstu borgum Kanada. Hér búa ríflega þrjár milljónir manna. Þetta er evrópsk borg, svona með amerísku ívafi. Athyglisvert að stór hluti af verslunargötum borgarinnar eru neðanjarðar. Gæti verið vegna mikilla vetrarkulda á þessum stað. Það er búið að vera ansi kallt hérna. Í morgun var hitinn við frostmark. Þeir sögðu að veðrið væri búið að vera gott í síðustu viku en það entist ekki lengi.




Notre-Dame Montreal. Þessi kirkja getur rakið sögu sína allt til þess að Montreal fór að byggjast upp árið 1642, þótt þessi steinkirkja sé töluvert yngri. Augljóslega helguð Maríu mey. Það eru víða tónleikar í kirkjum í dag uppstigningardag og verið að undirbúa kirkjurnar undir það. Það fer ekki mikið fyrir því að fyrsti maí sé í dag hér í borg. Frásagnir af mótmælagöngum hafa verið frá Bandaríkjunum, þar sem ólöglegir innflytjendur eru að mótmæla kjörum sínum. Efnahagsástandið í Kanada er talið nokkuð gott um þessar mundir. Þeir eiga miklar náttúruauðlindir eins og olíu og því streyma peningar inn í landið. Ég hef þó orðið fyrir því þrisvar hér á götu að vera stoppaður af betlurum, þannig að ekki hafa það nú allir gott. Læt þetta duga í bili. Kveðja.