laugardagur, 17. maí 2008

Á móti inngöngu.

Fór í Valhöll í morgun til að hlusta á forsætisráðherra fara yfir stöðu helstu mála. Hann sagði þar m.a. að hann væri ekki í vafa um að þegar vegnir væru kostir og gallar við aðild Íslands að Evrópusambandinu væru kostirnir léttvægari. „Þess vegna vil ég ekki ganga í Evrópusambandið," sagði forsætisráðherra. Þar er ég honum hjartanlega sammála. Í mínum huga er innganga ekki eftirsóknarverð í ESB og verða að gangast undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB - sem þýðir að fiskimiðin verði sameign aðildarþjóðanna og ákvarðanir um nýtingu fiskimiðanna verði í Brussel. Þær raddir heyrast stundum að við eigum að fara "norsku" leiðina að bandalaginu þ.e. athuga hvað við getum fengið í samningaviðræðum og fara svo með það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hafa Norðmenn gert í tvígang fyrst 1972 og aftur 1994 og í bæði skiptin var aðild í Noregi hafnað m.a. vegna þess að þjóðin var ekki tilbúin að afsala eignarhaldi á fiskimiðunum. Norðmenn gátu fengið tímabundinn frest frá sameiginlegu stefnunni en ekki varanlega undanþágu. ESB er ekki hrifið af svona "ef til vill" samningaviðræðum eins og Norðmenn hafa ástundað. Bandalagðið ætlast til þess að þjóðir séu búnar að gera upp hug sinn um hvort þær vilji verða hluti af "fjölskyldunni" eins og samningmenn þeirra kalla klúbbinn. Ég hef hlustað á einn af samningarmönnum þeirra lýsa því að slík nálgun á aðild hugnist þeim alls ekki. Minnistæð er umræðan í Noregi á aðalfundi Norges Fiskarlag árið 1994 sem ég sat, þegar þau tókust á um ESB inngöngu Noregs Einar Hepsö formaður Norges Fiskarlag og Gro Bruntland þáverandi forsætisráðherra. Maður upplifði þarna á þessari ögurstundu að gamli skipstjórinn hafði betur en forsætisráðherrann í málflutningi sínum. Bruntland gat ekki sannfært landa sína um að hagsmunir í sjávarútvegi Norðmanna væru tryggðir í þessum aðildaviðræðum. Tími Frú Bruntlands þess annars merka stjórnmálamanns var þar með á enda runninn.

Engin ummæli: