föstudagur, 2. maí 2008

Kveðja frá Montreal

Næsta nágrenni. Svona er útsýnið yfir borgina af 36. hæðinni á hótelinu sem ég gisti. Er hér á NAFO fundi. Það er svolítið sérstakt að vera kominn hingað til Norður-Ameríku þar sem frönsk tunga er málið í samskiptum manna. Montreal er ein af stærstu borgum Kanada. Hér búa ríflega þrjár milljónir manna. Þetta er evrópsk borg, svona með amerísku ívafi. Athyglisvert að stór hluti af verslunargötum borgarinnar eru neðanjarðar. Gæti verið vegna mikilla vetrarkulda á þessum stað. Það er búið að vera ansi kallt hérna. Í morgun var hitinn við frostmark. Þeir sögðu að veðrið væri búið að vera gott í síðustu viku en það entist ekki lengi.




Notre-Dame Montreal. Þessi kirkja getur rakið sögu sína allt til þess að Montreal fór að byggjast upp árið 1642, þótt þessi steinkirkja sé töluvert yngri. Augljóslega helguð Maríu mey. Það eru víða tónleikar í kirkjum í dag uppstigningardag og verið að undirbúa kirkjurnar undir það. Það fer ekki mikið fyrir því að fyrsti maí sé í dag hér í borg. Frásagnir af mótmælagöngum hafa verið frá Bandaríkjunum, þar sem ólöglegir innflytjendur eru að mótmæla kjörum sínum. Efnahagsástandið í Kanada er talið nokkuð gott um þessar mundir. Þeir eiga miklar náttúruauðlindir eins og olíu og því streyma peningar inn í landið. Ég hef þó orðið fyrir því þrisvar hér á götu að vera stoppaður af betlurum, þannig að ekki hafa það nú allir gott. Læt þetta duga í bili. Kveðja.

Engin ummæli: