laugardagur, 26. apríl 2008

Austur í Skaftártungu.

Hemra í Skaftártungu. Við skruppum austur í Tungu í dag. Á þessari mynd sést gamla ættaróðalið sem Valdimar Jónsson (1892-1948) afi Sirrýjar átti. Íbúðarhúsið var byggt árið 1930. Fyrir aftan íbúðarhúsið sést að hluta í eldra íbúðarhúsið sem faðir hans Jón Einarsson (1852-1922) hreppstjóri byggði og mun vera elsta bárujárnshúsið sem byggt var austan Mýrdalssands. Það stendur ekki uppi lengur. Næst því er gamalt hlóðaeldhús. Við hlið þess er gamla hlaðan og yst er fjósið. Tók þessa mynd af gamalli mynd sem er í bústað Höllu. Hemran stendur enn þótt lúin sé orðin og kvisturinn hvarf í einu óveðrinu hér um árið. Þessi mynd minnir á þann tíma sem var og vekjur hjá manni pínulitla fortíðarþrá, þótt aldrei hafi maður dvalið þarna. Það er ótvírætt að vora en það var hvasst í Tungunni að þessu sinni. Göggubústaður var í góðu lagi eftir veturinn þar sem hann stendur á bökkum Tungufljóts í Hlíðarlandi.
Sirrý og Halla. Þessi mynd er tekin í stofunni í sumarhúsi Höllu móðursystur Sirrýjar sem stendur í Hemrulandi. Að baki þeim er myndin góða af Hemru.

Austur af Vík. Þessi mynd er tekin upp í kirkjugarðinum í Vík í austurátt og sýnir vel miklu sandströndina. Ágangur hafsins er mikill og sjórinn grefur jafnt og þétt inn í ströndina. Sumir segja að einungis framburður úr Kötlu gömlu geti spornað við vaxandi ágangi hafsins. Kunnugir segja að þegar komi hlaup í Kötlu sem fari niður Mýrdalssand sé flóðaldan allt að 11 metrar að hæð. Þannig að það eru rosaleg náttúruöfl sem leysast úr læðingi þegar hún vaknar og betra að vera þá ekki strandaglópur á Mýrdalssandi.


Reynisdrangar. Þessi mynd er einnig tekin frá kirkjugarðinum af Reynisdröngum. Við höfum reglulega komið við í þessum kirkjugarði síðastliðin 35 ár. Þarna hvíla afi og amma Sirrýjar þau Valdimar Jónsson sem var skólastjóri í Vík og bóndi í Hemru og Sigurveig Guðbrandsdóttir (1898 - 1988). Sigurveigu kynntist ég að sjálfsögðu vel árin frá 1970 er við hittumst fyrst. Eftirminnileg er lýsing hennar á upplifun á Kötlugosinu 1918 þegar hún var útivið og skyndilega varð svarta myrkur. Segir ykkur hana kannski seinna.
Kveðja.


Engin ummæli: