laugardagur, 12. apríl 2008

Á löngum laugardegi.

Sungið við raust. (Mynd Kristinn Kjartansson) Við lengjum stundum helgarnar með því að gera eitthvað á föstudagskvöldum. Í þeirri viðleitni fórum við út á Seltjarnarnes að gá eftir farfuglum. Fundum aðeins soltnar hálftamdar endur sem voru á höttunum eftir brauði. Í morgun var ég aftur mættur á Nesinu nánar tiltekið í Seltjarnarneskirkju til að syngja með Sköftunum á það sem við köllum löngum laugardegi. Nú styttist í austurferð og eins gott að lögin séu vel slípuð. Æfingin var hin skemmtlegasta og góður hljómur í kirkjunni. Gaman að ryfja það upp að fyrsta haustið sem ég söng með kórnum mætti ég aldrei á þessar æfingar. Því ég hélt að þetta væri söngur á Laugarveginum og var ekki alveg tilbúinn í það - svona er hægt að misskilja hluti. Nú svo klukkan fimm var farið á Tíbrártónleika og hlutstað á einn fremsta og virtasta píanóleikara Tékka, Ivan Klánský spila sónötur eftir Beethoven, þar á meðal Tunglskinssónötuna og nocturnu, barcarollu og þrjá mazurka eftir Fryderyk Chopin. Þessi maður skipar sér í röð helstu snillinga í píanóleik. Hann spilaði í tvo tíma átta verk og tvö aukalög án þess að vera með eina nótu á blaði - og hvílík túlkun wow.
Á laugardagssíðdegi. Tónleikarnir stóðu til að verða sjö. Þá var brunað heim til að grilla matinn. Gestir okkar í dag voru Lilja og Valdimar, Hilda og Vala Birna og Erla Hlín vinkona. Ekki náðist almennileg mynd af ungfrú Lilju hún var of upptekin af að borða með Sigrúnu frænku. Mamma hennar er í París við skyldustörf þannig að hún hefur verið hjá okkur á daginn á meðan pabbi hennar er að lesa. Ekkert frétt af Svíunum okkar. Þetta er nú svona það helsta á þessum degi. Kveðja.

Engin ummæli: