sunnudagur, 20. apríl 2008

Söngferðalag um Suðurland.

Víkurkirkja, Vík í Mýrdal. Síðasta viðkoma Söngfélags Skaftfellinga á söngferðalagi þess um Skaftafellssýslurnar var að þessu sinni í dvalaheimili aldraðra í Vík í Mýrdal, Hjallatúni. Þar voru sungin nokkur lög fyrir heimilisfólkið. Þetta hefur verið stórkostleg ferð og veðrið lék við okkur allan tímann. Yndislegt vorveður, sól og blíða. Nýkomna farfugla gaf víða að líta og í austur sýslunni stórar hreindýrahjarðir.
Í faðmi fjalla. Við lögðum af stað í ferðalagið á föstudaginn var austur og gistum á Hótel Skaftafelli í Freysnesi í tvær næstur. Ljómandi gott hótel og vel staðstett niður af Vatnajökli. Við komum við á dvalarheimilinu á Klaustri og sungum þar nokkur lög fyrir heimilisfólkið á Klausturhólum. Hér er verið að teyga í sig fjallaloftið og komast í nánara samband við náttúruna og finna aflvakann í landinu.
Skaftafellsjökull. Tignarlegustu fjöll á Íslandi eru í Skaftafellssýslum. Það er svolítið skondið að sýslurnar skulu bera nafn eftir tiltölulega rislitlu felli. Þetta er til marks um margrómað lítillæti Skaftfellinga.
Söngfélag Skaftfellinga 2008. ,,Velkomin til söngs," sagði formaður Skaftfellingafélagsins í upphafi tónleikanna á Höfn. Aðaltónleikar Skaftanna að þessu sinni voru á Höfn í Hornafirði. Hér er kórinn búinn að stilla sér upp í kirkjunni. Tónleikarnir voru vel sóttir og vonandi enginn svikinn af þeim lögum sem flutt voru. Boðið var upp á fína hornfirska humarsúpu fyrir tónleikana. Nú auðvitað sungum við líka á dvalarheimili aldraðra á Höfn.
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Náttúruöflin á lóninu á Breiðamerkursandi eru hreint ótrúleg. Í hvert skipti sem komið er að því er eins og verið sé að koma að í fyrsta sinn. Jakarnir eru aldrei eins og mismikið af þeim hverju sinni. Að þesssu sinni var einnig mikið af sel í lóninu.
Við Hótel Skaftafell. Sirrý með rútuna okkar og hótelið í bakgrunni á föstudagskvöldið. Það er óhætt að mæla með þessu hóteli og útsýnið til allra átta skaðar ekki. Á laugardagskvöldið var hátíðarkvöldverður á hótelinu eftir vel heppnað söngferðalagið til Hafnar. Mikið var sungið og spilað á nikkuna undir borðum. Í ljós kom að sex ferðalangar kunnu á hljóðfærið þannig að það var lítið um pásur við spilamennskuna.
Sólsetur. Já svona var sólsetrið frá Freysnesi á föstudagskvöldið. Það eru mikil forréttindi að fá að ferðast um Suðurland og njóta náttúrunnar og hlýða á samferðarmenn segja sögur af fólki og lýsa staðháttum þaðan sem það er alið upp.

Engin ummæli: