þriðjudagur, 17. ágúst 2021

Af Afgönum

 Afganistan, Talibanar, villimenn, dópsalar og hyski? Nú er svo komið að þeir eru búnir að leggja að velli USA og NATO ríkin eins og Sovétríkin sálugu fyrir 30 árum. Það tók þá um 20 ár. Hvað segir það okkur? Það er ekki hægt að kúga þjóðir til hlíðni með aðstoð leppa. Hélt að heimsbyggðin hefði lært það 1975 í Víetnam! Nei, módelið varð að reyna aftur til að tjékka á því hvort það gengi örugglega ekki. Trump samþykkti að sleppa 5.000 vígamönnum Talibana, sem auðvitað tóku strax til vopna. Við lærðum snemma í sögubókum það ráð breska heimsveldisins fyrr á tímum að farsælast væri að sniðganga þetta fjallasvæði. Þarna væru snarbrjálaðir menn og valmúa bændur til framleiðslu á heróíni. Þeir virðast hafa ákveðna skoðun á jafnrétti kynjanna og menntun kvenna. Það sé eina leiðin í þeim efnum að kúga þær. Er það ásættanlegt 2021?

Stofnþjóð Sþ

 Við Íslendingar fengum að vera ein af stofnþjóðum Sameinuðu þjóðanna þó að við hefðum ekki lýst stríði á hendur Þjóðverjum. Þór Whitehead bendir á þessa staðreynd í umfjöllun um komu Churchill til Íslands fyrir 80 árum. Þetta er þörf ábending nú í ljósi umræðu um okkur sem NATO þjóð. Við fengum inngöngu í þann klúbb af því að þessi eyja var okkar. Það var ekki vegna þess að við værum stríðandi afl. Það er gott að hafa það í huga þegar rætt er um ábyrgð okkar við brotthvarf NATO frá Afganistan. Við höfum ekki farið með hervaldi þar, þótt einhverjir fáir einstaklingar hafi fengið skrifstofustörf gegnum NATO. Við höfum engar skyldur við Afgana umfram aðrar þjóðir í þessu tilliti. Það er mikilvægt að skerpa á friðelsku okkar með jöfnu millibili. Það er illa gert að vera stilla Katrínu forsætisráðherra upp og lýsa yfir einhverri ábyrgð í þessu máli, sjálfum hernámsandstæðingnum. Kommon!

þriðjudagur, 10. ágúst 2021

Ytri - Rauðamelskirkja


Gerðuberg og Ytri-Rauðamelskirkja. Maður þarf að keyra að Gerðubergi til þess að njóta þess. Þessi Stuðlabergshæð er afar sérstök. Sjón er sögu ríkari. Ég horfði til austurs og sá þessa litlu kirkju í kvos framan við háa vikurskál. Sá ekki ástæðu til þess að skoða hana nánar enda í tímaþröng. Viku síðar kom ég aftur á staðinn. Ég hafði aðeins rýmri tíma og ákvað að nota tækifærið og keyra að kirkjunni. Sá engin vegskilti eða nafnskilti til að átta mig á heiti hennar. Ég hugsaði með sjálfum mér: Það skal vera einhver ástæða fyrir því að ég er dreginn að þessari kirkju. Það tók mig nokkura leit að finna út úr því hvaða kirkja þetta væri eftir heimkomu. Rauðamelskirkja heitir hún. Næst var að finna einhverjar upplýsingar um kirkjuna. Í Mbl 16.9.1986 fann ég frásögn af 100 ára afmæli hennar. Hún var vígð 1886 af sr. Eiríki Kúld prófasti. Fyrsti sóknarpresturinn var sr. Árni Þórarinsson afi sr. Árna Pálssonar sóknarprests í Kópavogi sem þjónaði þarna líka um tíma. Svo kom nokkuð athyglisvert. Þarna þjónaði söngfélagi minn í Söngfélagi Skaftfellinga, sr. Einar Guðni Jónsson sóknarprestur um 10 ára tímabil. Hann vígðist til Söðulholts en kirkjan tilheyrði því sóknarkalli. Hann var síðar þjónandi prestur í Árnesi á Ströndum og á Kálfafellsstað í Austur - Skaftafellssýslu, þar sem faðir hans hafði þjónað áður. Í nýlegri minningargrein um sr. Einar í BB á Ísafirði segir um tengsl hans við Rauðamelskirkju: " Sjálfur lék hann oft á harmóníum Rauðamelskirkju þegar hann hafði þar guðsþjónustur um hönd og enginn var organistinn... Sr. Einar var drengur góður, þægilegur í viðkynningu og greiðvikinn. Um margt skemmtilega sérlundaður og sál sveitamannsins var sterkari í honum en borgarbarnsins. Í honum var að finna næma listræna taug sem kom einkar vel fram í tónlistargáfu hans. Hann var skrafhreifinn og glaður í viðkynningu, hafði sig lítt á oddi í fjölmenni en naut sín í litlum hópum, yfirlætislaus maður og spakmenni. Mildur í svörum og orðgætinn. Sr. Einar var fróður um gamla tíð og lét hversdagslegan eril nútímans ekki hreyfa svo mjög við sér. Hann var afar trygglyndur öllum sóknarbörnum sínum sem mátu hann enda mjög mikils." Ógleymanlegar eru stundirnar með kórfélögum þegar sr. Einar spilaði á píanóið eða harmóníkuna sína á góðum stundum. Hann var mjög góður píanisti og hrein unun að heyra hann taka jazz sessionir við ýmis tækifæri. Hann spurði mig oft um föður minn og móðir eftir að þau voru sest í helgan stein af umhyggju. Blessuð sé minning þessa mæta manns.