þriðjudagur, 28. febrúar 2006

Hvar varst þú?

28. febrúar 1986 dagurinn sem Olav Palme var myrtur er einn af þessum dögum sem maður man alltaf hvar maður var staddur þegar fréttin barst manni. Ég var heima um miðnættið að passa Valimar þegar Sirrý og Hjörtur sögðu mér fréttina. Þau voru að undirbúa sýningu með kennara Hjartar niður í Fossvogsskóla og voru seint á ferð. Eiginmaður kennarans var fréttamaður á útvarpinu. Hann hringdi í hana um leið og fréttin barst til landsins. Þetta var hræðilegur atburður. Mér er til efs að Svíar hafi enn jafnað sig á þessu ódæði. Palme er afar eftirminnilegur stjórnmálamaður. Hann var leiftrandi ræðumaður og hugsjónapólitíkus sem hreif mann með sér. Jafnrétti, frelsi og bræðralag. Þetta voru hugtökin sem var megininntakið í hugsjónum hans. Hann var alþjóðlegt nafn í stjórnmálum og eftir því tekið hvað hann sagði. Hann kallaði fasistana á Spáni "helvítis morðingja" líkti sprengjuárásum á Hanoi við helförina. Hann var oft hvatvís í skoðunum og umbúðarlaus í tali og eignaðist því vafalaust marga andstæðinga. Ég sá hann einu sinni halda ræðu í Avenyn í Gautaborg þar sem tugþúsundir voru saman komnar. Auðvitað hlustaði maður oft á hann í sjónvarpinu. Nú heyra þessar hugsjónir sósialista og sósialdemókrata fortíðinni til. Íslenskir kratarnir liðnir undir lok og sagt að sænskir kratar séu aðeins skugginn af sjálfum sér, valdaklíkubandalag sem hefur það eitt markmið að ylja sér við kjötkatlana. Margir heitustu fylgismenn þessarar stefnu hafa fyrir löngu kastað henni fyrir róða og gengið efnishyggjunni (þ.e.a.s. hinni alþýðlegu ekki díalekískri efnishyggju) og kapitalismanum grímulaust á hönd. Sumir hafa meira að segja náð langt á þeirri braut og eru árangursríkir verðbréfasalar í dag. Við Brekkutúnsbúar eigum Svíum mikið að þakka. Þeir menntuðu okkur ókeypis og bjuggu okkur frábærar aðstæður á námsárunum. Því miður höfum við ekki fengið tækifæri til þess að endurgreiða þeim almennilega fyrir. En eins og einn félagi minn sagði í dag: Þú átt í raun aðeins það sem þú gefur. Það er mikil speki í þessari þversögn. Svíar gáfu að vísu Palme og félögum frí frá stjórnarráðinu lengst af þeim tíma sem við vorum í Svíþjóð.. Þetta voru árin sem borgaralegu flokkarnir náðu völdum eftir margra áratuga fjarveru með bóndann Feldin í fararbroddi. En Palme og félagar náðu vopnum sínum að nýju eins og sagan kennir.

mánudagur, 27. febrúar 2006

Ólympíuleikunum á Ítalíu lokið.

Ég get varla sagt að ég hafi fylgst með vetarólympíuleikunum í Torino á Ítalíu síðustu tvær vikur. Svona með öðru auganu hefur maður þó fylgst með góðum árangri "frænda" okkar á Norðurlönum. Rétt á meðan maður hefur verið að flakka milli stöðva hefur maður einstaka sinnum fylgst með skautahlaupi, listdansi á skautum, skíðastökki, svigi og skíðagöngu. Þar til núna um helgina að ég fylgdist með úrslitaleiknum milli Finna og Svía í íshokki. Ég horfði á leikinn í beinni á sænska sjónvarpinu. Þá fékk maður svona alvöru spennu "fíling" á meðan á leiknum stóð. Loksins gat maður haldið með "sínu" liði og notið þess í botn þegar það vann leikinnn. HÚRRA fyrir Svíum. Þetta var hreint frábær leikur og eftirminnilegur. Þeir sýndu eins og oft áður gríðarlegan baráttuanda og sigurvilja. Það var sko ekkert gefið eftir í leiknum. Ég entist ekki til að fylgjast með upphafs serimóníunni né heldur lokahátíð leikanna. Tók þó eftir því að næstu leikar verða árið 2010 í Vancuver í Kanada. Annars lítið að frétta af okkur. Við erum bara í því sama. Var að koma af söngæfinu í kvöld. Það var léleg mæting rétt um 20 söngfélagar. Margir eru víst með flensu þessa dagana. Kveðja.

sunnudagur, 26. febrúar 2006

Leikfimihópurinn AGGF sautján ára.


Kaffisamsæti í Perlunni.

Ég skrapp í Perluna í gær til að taka þátt í 17 ára afmæli leikfimishópsins míns sem ég er búinn að vera félagi í í 16 ár. Þetta eru í raun tveir hópar og ég er í "sjávarútvegshópnum" sem byrjaði ári seinna. Eldri hópurinn er "arkitektahópurinn". Við æfum á mánudögum og föstudögum en þeir á þriðjudögum og fimmtudögum í hádeginu. Margir eiga kannski erfitt með að trúa því að ég sé búinn að vera svo lengi í leikfimihóp. Eigi að síður er það svo og ég hef oft á þessum árum þurft að takast á við sjálfan mig varðandi mætingu og fleira. Ég er sannfærður um að góða heilsu til þessa eigi ég meðal annars að þakka þessu puði. Enn sem sagt ég tók þátt í afmælishófinu í gærdag til þess að fagna með félögum mínum þessum áfanga.

Gauti fimleikastjóri.

Hér má sjá á miðri mynd Gauta fimleikastjóra AGGF (Afrekshópur Gauta Grétarssonar Fimleikastjóra) og til vinstri við hann eiginkonu hans Hildigunni aðstoðarfimleikastjóra. Í gær sagði hann við einn félaga sem er á sjúkralista að það væri mikilvægt að gæta meðalhófs í öllu. Sérstaklega væri mikilvægt að ætla sér ekki um of í líkamlegri áreynslu. Svo klykkti hann út með því að segja eins og "ég og Sveinn". Þetta hefur einmitt verið átakapunktur okkar öll árin. Hann hefur viljað meina að þessi meðalhófspunktur minn ætti að vera annar en ég hef sjálfur talið. Ég hef eindregið verið þeirrar skoðunar að það væri ég sjálfur sem vissi hvar "mitt" meðalhóf væri. Eftir afmælishófið held ég að hann hafi verið að viðurkenna mitt sjónarmið að hluta. Ég fæ svo að sannreyna í næsta tíma hvort hann hafi meint það. Þetta hefur semsagt verið indælt stríð. Báðir höldum við svo okkar striki.

laugardagur, 25. febrúar 2006

Stella útskrifast.

Það bar helst til tíðinda í dag að hún Stella útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Við óskum henni til hamingju með prófið. Hún bauð til veglegrar veislu í Skólabæ sem er húsnæði í eigu Háskólans við Suðurgötu. Við áttum ánægjulegt síðdegi með henni, Valda, fjölskyldu og vinum þeirra. Þetta var frábær veisla í notalegu umhverfi. Það eru mikil forréttindi að fá að vera með þessu unga glæsilega og vel gerða fólki sem geislar af þrótti og lífsgleði. Ég er ekki í vafa um að menntunin mun hjálpa henni til góðra verka í framtíðinni, hvar svo sem hún kýs að taka til hendinni. Kveðja.

föstudagur, 24. febrúar 2006

Er gamanið að kárna?

Já það er langt síðan ég skrifaði síðast enda lítið í fréttum af okkur. Af þjóðmálum beinist athygli flestra nú að hlutabréfum og því hvort að íslenska "efnahagsundrið" er alvöru eða bara bóla sem á eftir að springa í andlitið á okkur. Stundum hefur maður sagt að það eru blikur á lofti og því miður virðist sú staðan nú. Þenslan hér á landi er mikil og við vitum það af reynslunni að við ráðum ekki til lengdar við svona þenslu án þess að eitthvað fari úr böndum. Það sem ég held að skapi meiri óvissu en áður um framvinduna er að það hefur svo mikið breyst. Efnahagsleg umsvif eru svo miklu meiri og viðfemari og það er erfiðara að hafa góða yfirsýn. Gríðarlegar fjárfestingar aðila erlendis, mikil aukning í byggingu húsnæðis og umsvif í viðskiptalífinu, gríðarlegar lántökur einstaklinga og fyrirtækja bæði vegna neyslu og fjárfestinga, útgáfa skuldabréfa fyrir yfir 200 milljarða króna í íslenskum krónum og síðast en ekki síst miklar fjárfestingar og lántökur í tengslum við uppbyggingu virkjana. Það er mikil ástæða til þess að óttast að lendingin geti orðið ansi hörð. En svo er það líka í góðu partýi vill enginn vera "lyseslukkeren", þ.e. sá sem slekkur ljósin og segir að partíið sé búið.

sunnudagur, 19. febrúar 2006

Regnbogi yfir Öskjuhlíð.


Það er fallegt veður úti og við ættum að vera úti við í stað þess að vera í tölvunni. Það er stillilogn og himinmigan í Öskjuhlíð sprautar þráðbeint heitu vatninu í loft upp. Þetta er óvenjulegt veður úti, vorveður í febrúar. Rétt áðan var gríðarmikill regnbogi yfir Öskjuhlíðinni, Borgarspítalanum, Útvarpshúsinu. Ég rétt náði að fanga hluta hans á mynd áður en hann hvarf sjónum. Í vestri er rigningarlegt en hér í dalnum er heiðskýrt. Ég vona að regnboginn veiti á eitthvað gott á þessu fallega degi. Jæja ég hef þetta ekki lengra í bili.

föstudagur, 17. febrúar 2006

Í lok vinnuviku.

Jæja gott fólk þá er þessari vinnuviku lokið. Enn á ný komið föstudagskvöld. Dagarnir líða hver af öðrum á ógnarhraða. Maður er strax orðinn "poetískur" og rétt búinn að skrifa tvær línur. Það hefur hlýnað aðeins aftur. Annars er þetta búinn að vera góður dagur. Fór í leikfimi í hádeginu og tók aðeins á því eins og vera ber. Ræddum hvað væri besta þjálfun eldra fólks. Sjúkraþjálfarinn sagði okkur að nýleg könnun sýndi að það væru þeir sem færu reglulega í göngutúra sem fá bestu hreyfinguna. Þá vitið þið það. Komst ekki í píanótíma í kvöld vegna þess að ég var að taka á móti gestum í vinnunni. Þetta voru skipstjórnarefni framtíðarinnar, vörpulegir og geðugir piltar. Reyndar var ein stúlka í hópnum. Það er gefandi að hitta ungt fólk og ræða við það um framtíðaráform sín. Þetta eru upp til hópa vel gerðir og einlægir krakkar, glaðværir, velviljaðir og bjart yfir þeim. Veltum fyrir okkur stöðu sjávarútvegsins og framtíð hans. Spakmæli dagsins eru: Sá sem aldrei fremur heimskupör, er ekki eins vitur og hann sjálfur heldur.

fimmtudagur, 16. febrúar 2006

Yurí Gagarín og geimferðir.

Það hefur hægt vindinn. Búið að vera hífandi norðan rok í dag og kuldi. Útsýni til Öskjuhliðar gott. Var að horfa á þáttinn í RUV um geimferðir Bandaríkjamanna og Rússa á sjötta og sjöunda áratugnum. Merkilegt hvað þetta hafa verið miklir frumkvöðlar á sínu sviði. Ég er ekki í vafa um að stór hluti af nútímatækni byggir um margt á þeirri nýsköpun sem átti sér stað í tengslum geimferðaáætlanirnar. Það væri gaman að eiga myndskreytta diskinn sem pabbi kom með úr söngferðalaginu frá Sovétríkjunum af Yuri Gagarín. Hann er örugglega antík í dag. Það greiptist í barnsminnið þegar Rússar sendu fyrstir mannaða geimflaugið á sporbaug um jörðu 1961. Maður þekkti náttúrulega til Werners von Braun, Þjóðverjans sem var yfir NASA. Um rússneska hönnuðinn Sergey Koralyou vissi maður náttúrulega ekkert um fyrr en í þessum þáttum. Þessi mynd hér til hliðar er af Gagarin. Um hann má lesa frekar á Wikipedia. com Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

miðvikudagur, 15. febrúar 2006

Hann á afmæli í dag.

Nafni minn á afmæli í dag. Hann er eins árs blessaður litli maðurinn. Við óskum honum til hamingju með daginn. Fórum í bíó í kvöld í Regnbogann horfðum á hina frægu mynd Brokeback Mountain. Æ, ég veit ekki hvað ég á að segja "not my cup of tea". Myndin var vel leikin og umhverfi og umgjörð í amerískum kúrekastíl. Fórum með Helga og Ingunni og vorum heima hjá þeim smá stund eftir bíóið. Annars ekkert sérstakt að frétta. Spakmæli dagsins er þetta: Með því að treysta á sjálfan sig tvöfalda menn getu sína.

þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Ljóðalestur.

Fór á Rótrýfund í dag og hlýddi á ljóðalestur. Hjörtur Pálsson las fyrir okkur eigin ljóð og þýðingar sínar. Hjörtur hringdi í kvöld. Valdi og Stella eru komin aftur til Kristianstad til að taka þátt í afmæli nafna á morgun. Þá verður kappinn eins árs. Við sendum honum bestu kveðjur. Hingað kom í heimsókn í dag hún Vibba vinkona, æskuvinkona Sirrýjar. Annars er ekkert sérstakt í fréttum eins og sjá má af þessum samtíningi mínum.

mánudagur, 13. febrúar 2006

Hvað er þroski?

Ég var að koma af enn einni söngæfingunni með Söngfélagi Skaftfellinga. Þetta er orðið ansi mikill tími sem farið hefur í kórinn síðustu daga. Það er gefandi að syngja svona sérstaklega þegar réttur samhljómur er í lögunum. Annars lítið í fréttum. Heyrði aðeins í Þórunni systur. Allt gott að frétta af hennar fólki. Við erum hér í okkar verkum og höfum það ágætt. Veðrið er hreint út sagt ótrúlegt, það er vorveður úti. Man ekki eftir neinu sérstöku í bili. Málsháttur dagsins er: Þroski er hæfileikinn til að lifa í heimi annarra. Bið að heilsa ykkur öllum. Kveðja.

sunnudagur, 12. febrúar 2006

Í byrjun nýrrar viku.

Þetta er heldur betur búin að vera viðburðarrík helgi. Á föstudagskvöldið fórum við á mynd um ævi Johnny Cash og June Carter eiginkonu hans, Walk the Line. Mjög góð mynd um ævi og starf þessara miklu lónlistarmanna. Ég hef nú sagt ykkur áður frá tónleikunum sem við fórum á með honum í Scandinavium í Gautaborg í apríl 1976. (Sjá blogg 6. mars 2005). Ég þarf nú ekki að skrifa um gærdaginn þið hafið laugardagspistilinn. Við höfum aðallega verið heima við í dag. Seinnipartinn fórum við í heimsóknir. Kíktum til Sigurðar og Vélaugar í Hlíðarnar. Síðan fórum við á Hlíðarveginn í heimsókn til mömmu og pabba og litum við hjá Iu og Kolla. Þannig að maður hefur gert margt og komið víða við þessa dagana. Það er svo hressandi að hitta þá sem manni þykir vænt um þó ekki sé nema örstutta stund. Veganesti vikunnar eru þessi: Það sem drepur mig ekki gerir mig sterkari sagði sjálfur Nietzsche. Halltu í heiðri það sem þér finnst öllu æðra og fegurra eins og væru það lög sem ekki má brjóta. Kveðja.

laugardagur, 11. febrúar 2006

Langur laugardagur.

Langan laugardag kalla Skaptarnir söngæfingar á laugardögum sem eru tvöfaldar að lengd miðað við mánudagsæfingarnar þ.e. fjórir tímar. Við erum að æfa lög og sálma sem sungnir verða við messu Skaftfellinga 19. mars í Breiðholtskirkju, indjánatjaldinu svokallaða í Mjóddinni kl. 14.00. Allir Skaftfellingar og velunnarar þeirra eru hvattir til að mæta. Valdimar og Stella fóru til Svíþjóðar í morgun. Við fórum í matarboð til vinafólks í heimahús í gærkvöldi. Áttum þar góða kvöldstund með góðu fólki. Í aðalrétt var bryddað upp á óvenjulegum rétti. Já við fengum kengúrukjöt. Það var mjög sérstakt og smakkaðist ágætlega. Hef aðeins verið að horfa á vetrarólympíuleikana. Skemmtilegt að horfa á þá í NRK því að þeir eru svo áhugasamir. Kveðja.

fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Fram fram fylking.

Var á ráðstefnu í gær. Þar voru ýmsir uppar að pæla í framtíðinni. Ísland árið 2015 var yfirskrift fundarins. Fullyrt var að þeir sem setja enga stefnu kæmust ekki spönn frá rassi. Forsætisráðherrann var nokkuð klár á kúrsinum. Hann sér okkur í Evrópusambandinu árið 2015. Aðrir ræðumenn töluðu í klassískum frösum svona blámóðu framboðsstíl, ala "presedenten" í nýjársræðum: aukin menntun, þjónusta, alþjóðvæðing, alþjóðleg fjármálamiðstöð, skattaparadís, minnkun ríkisbáknsins. Framganga ræðumanna og panels einkenndist af öryggi í fasi og framsögn. Við þessir venjulegu þúfulallar sem rákumst þarna inn heyrðum ekki minnst á fisksporða eða lambaspörð. Við gengum með veggjum og furðuðum okkur á hvar þetta fólk hefði öðlast alla þessa visku, þetta öryggi og alla þessa löngu og miklu sýn. Ekki var nú hátt gengi að valda þeim áhyggjum, raunar þvert á móti. Þessar vangaveltur minna mig á þegar menn í "den" í gamla Sóvet voru að gera 5 ára áætlanir sínar, Gosplan, minnir mig að þær hafi verið kallaðar. Þá hlógu allir á vesturlöndum og sögðu að þetta væri nú meiri dellan að búa til áætlanir til svo langs tíma. Þar var meira segja lýst í þaula hvernig ætti að ná þessum áætlunum. Nú drafta menn 9 ára stefnu á svona ráðstefnu og lýsa í almennum orðum hvernig eigi að ná þeim og allir mæna í aðdáun og undrun yfir framsýninni. Tímarnir breytast og mennirnir með. Talandi um sovésku áætlunina minnist ég sögu þar sem lagt var á ráðin í einni áætluninni um að vegna skorts á pottum og pönnum ætti að vera búið að framleiða 17 000 tonn af slíkum tólum innan ákveðins tíma til þess að fullnægja miklum skorti heimilanna. Þegar farið var að kanna hvernig hafði gengið að fylgja áætluninni kom í ljós að enn var mikill skortur á pottum og pönnum á heimilum landsmanna. Hvernig mátti þetta vera, höfðu ekki verið framleidd umrædd tonn af pottum og pönnum eins og áætlunin gerði ráð fyrir? Jú jú, það hafði verið gert. En þegar framleiðendur sáu að þeir gátu aldrei framleitt þetta magn í tonnum af litlum pottum og pönnum til heimilanna framleiddu þeir bara í staðinn stóra potta og pönnur fyrir mötuneyti og hótel. Svona gátu nú áætlanirnar afvegaleitt menn í "sæluríkinu". En þetta á auðvitað ekkert skilt við svona ráðstefnu um stefnumótun til framtíðar eins og haldin var í gær.

mánudagur, 6. febrúar 2006

Danir möluðu Króata.

Ætlaði ekki að tala meira um handbolta en ég verð að nefna að það var upplífgandi að sjá "frændur" vora Dani taka Króatana í nefnið í baráttunni um þriðja sætið í Evrópukeppninni í gær sunnudag í danska sjónvarpinu. Nú voru Króatarnir ekki með neina stæla. Danir unnu þá einfaldlega með því að spila góðan handbolta. Upp úr fimm í dag sá ég yfir Öskjuhlíðinni eitt af þessum stórmerkilegu náttúrufyrirbærum tengt fuglum. Þúsundir fugla mynduðu alls konar myndstur í loftinu með því að dreifa og þétta hópflug sitt yfir Öskjuhlíðinni. Ég hef séð þetta einu sinni áður. Ætli þetta séu ekki starrar að koma til landsins núna í febrúar. Það var mjög mikið um fuglasöng alla helgina. Reyndi að ná af þessu mynd en tókst það ekki. Sigrún hafði orð á því að þarna kæmi fuglaflensan í þúsundavís. Vona að það sé nú ekki rétt hjá henni. Nú annars var ég að koma af söngæfingu í kvöld. Nú er verið að undirbúa messusöng sem kórinn mun taka þátt í mars næstkomandi. Þetta er sérstök skaftfelsk messa og allir Skaftfellingar hvattir til þess að mæta. Af dægurmálunum er enn efst á baugi "dönsku teiknimynda illindin." Nú var einn spekingurinn í sænska sjónvarpinu, múslimi, að segja að það væri nauðsynlegt að krítisera trúarbrögð þeirra. Vesturlandabúar mættu það bara ekki og allra síst mætti teikna grínmyndir sem tengdust trúarbrögðum múslíma. Jæja það verður spennandi að sjá hvernig þessari deilu líkur. Kveðja.

sunnudagur, 5. febrúar 2006

Oft veltur lítil þúfa þungu hlassi.

Mönnum er heitt í hamsi þessa dagana í arabalöndunum yfir grínmyndunum sem sýndar voru í JP af spámanninum Mohamed. Danir hafa reynt að lægja öldurnar en það hefur ekki dugað. Ég er með þá kenningu að áróðursmeistarar ofbeldissinnaðra múslima hafi skipulagt þessa árás á Dani til þess að skaða þá og refsa þeim fyrir að vera í Afganistan og Írak. Þetta ber öll einkenni múgæsingamanna. En þetta mál hefur snúist í höndum þeirra og beint sjónum almennings að því hversu mikinn hljómgrunn öfgaöfl eiga meðal múslíma. Málflutningur þeirra hefur ekki staðist gagnrýna hugsun. Þessar myndir réttlæta ekki svona öfgafull viðbrögð að mínu mati. Þessi dólgslæti þar sem brendir eru þjóðfánar og helgitákn skaða ímynd araba í heiminum. Jæja þessi pistill var miklu lengri um þetta mál en mér er runnin reiðin og ég ætla ekki að eyða meira púðri í þetta mál að sinni. Fór í sund í gær og hitti þá bræður Grétar og Helga héldum svo málþing hér í Brekkutúni á eftir. Ég var með kórnum á þorrablóti í gærkvöldi og sungum við nokkur lög fyrir gesti. Þetta er nú svona það helsta.

laugardagur, 4. febrúar 2006

Að sigra og tapa.

Þá er þessi handboltakeppni búin. Hún veitti bara nokkra skemmtan og eftirvæntingu um tíma. Ég skil ekki af hverju sumir eru svona súrir yfir því að við náðum ekki í úrslitin. Við áttum ekkert þangað að gera. Þetta var ekki handbolti sem Króatarnir léku heldur hrein villimennska. Þeir töpuðu leiknum þrátt fyrir fleiri mörk með ruddaskap og yfirgangi. Sá sem ætlar að verða fremstur í einhverju vinnur aldrei sigur ef hann ávinnur sér ekki virðingu andstæðinganna á leikvellinum. Við áttum aldrei möguleika gegn Norðmönnum eftir framkomu Króatanna þótt við að jafnaði séum betri í handbolta en þeir. Nóg um handbolta. Sirrý er í Stockholmi og kemur aftur á sunnudaginn. Mamma og pabbi eru komin frá Kanarí brún og sælleg. Sigrún er að vinna á Skógarbæ þessa helgi. Læt þetta duga.

miðvikudagur, 1. febrúar 2006

Handbolti.


Þetta er ótrúlegt vorveður sem hér hefur verið undanfarna daga. Þetta truflar náttúrulega árstíðaklukkuna að fá svona veður um hávetur. Svo kemur væntanlega vetrarveðrið núna í febrúar ef að líkum lætur. Hef aðeins haft annað augað á þessari Evrópumeistarakeppni í handbolta. Ég spáði því að Ísland mundi sigra Rússa með eins marka mun. "Við" unnum með tveggja marka mun. Það var ekki hægt að vera nærri úrslitunum. Þessu spáði ég í leikfiminni í vitna viðurvist. Við töpuðum fyrir Króötum eins og ég spáði því en ég lét markamun liggja milli hluta. Þeir eru svo grimmir þessir Króatar eins og sagan kennir okkur. Nú er bara að taka Norðmennina í bakaríið vonandi tekst okkur það en förum ekki á taugum á lokasprettinum eins og svo oft áður. Ég hef ekki fylgst með handbolta í mörg ár. Maður var orðinn svo svektur að horfa á þessi eilíflegu vandræði. Annars hef ég líka verið að hlusta á píanókonserta Mozarts undanfarna daga og svo var ágætur ævisöguþáttur um kappann í sjónvarpinu í kvöld. Maður er alltaf að leita að hinum sanna tón. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.