þriðjudagur, 28. febrúar 2006

Hvar varst þú?

28. febrúar 1986 dagurinn sem Olav Palme var myrtur er einn af þessum dögum sem maður man alltaf hvar maður var staddur þegar fréttin barst manni. Ég var heima um miðnættið að passa Valimar þegar Sirrý og Hjörtur sögðu mér fréttina. Þau voru að undirbúa sýningu með kennara Hjartar niður í Fossvogsskóla og voru seint á ferð. Eiginmaður kennarans var fréttamaður á útvarpinu. Hann hringdi í hana um leið og fréttin barst til landsins. Þetta var hræðilegur atburður. Mér er til efs að Svíar hafi enn jafnað sig á þessu ódæði. Palme er afar eftirminnilegur stjórnmálamaður. Hann var leiftrandi ræðumaður og hugsjónapólitíkus sem hreif mann með sér. Jafnrétti, frelsi og bræðralag. Þetta voru hugtökin sem var megininntakið í hugsjónum hans. Hann var alþjóðlegt nafn í stjórnmálum og eftir því tekið hvað hann sagði. Hann kallaði fasistana á Spáni "helvítis morðingja" líkti sprengjuárásum á Hanoi við helförina. Hann var oft hvatvís í skoðunum og umbúðarlaus í tali og eignaðist því vafalaust marga andstæðinga. Ég sá hann einu sinni halda ræðu í Avenyn í Gautaborg þar sem tugþúsundir voru saman komnar. Auðvitað hlustaði maður oft á hann í sjónvarpinu. Nú heyra þessar hugsjónir sósialista og sósialdemókrata fortíðinni til. Íslenskir kratarnir liðnir undir lok og sagt að sænskir kratar séu aðeins skugginn af sjálfum sér, valdaklíkubandalag sem hefur það eitt markmið að ylja sér við kjötkatlana. Margir heitustu fylgismenn þessarar stefnu hafa fyrir löngu kastað henni fyrir róða og gengið efnishyggjunni (þ.e.a.s. hinni alþýðlegu ekki díalekískri efnishyggju) og kapitalismanum grímulaust á hönd. Sumir hafa meira að segja náð langt á þeirri braut og eru árangursríkir verðbréfasalar í dag. Við Brekkutúnsbúar eigum Svíum mikið að þakka. Þeir menntuðu okkur ókeypis og bjuggu okkur frábærar aðstæður á námsárunum. Því miður höfum við ekki fengið tækifæri til þess að endurgreiða þeim almennilega fyrir. En eins og einn félagi minn sagði í dag: Þú átt í raun aðeins það sem þú gefur. Það er mikil speki í þessari þversögn. Svíar gáfu að vísu Palme og félögum frí frá stjórnarráðinu lengst af þeim tíma sem við vorum í Svíþjóð.. Þetta voru árin sem borgaralegu flokkarnir náðu völdum eftir margra áratuga fjarveru með bóndann Feldin í fararbroddi. En Palme og félagar náðu vopnum sínum að nýju eins og sagan kennir.

Engin ummæli: