föstudagur, 24. febrúar 2006

Er gamanið að kárna?

Já það er langt síðan ég skrifaði síðast enda lítið í fréttum af okkur. Af þjóðmálum beinist athygli flestra nú að hlutabréfum og því hvort að íslenska "efnahagsundrið" er alvöru eða bara bóla sem á eftir að springa í andlitið á okkur. Stundum hefur maður sagt að það eru blikur á lofti og því miður virðist sú staðan nú. Þenslan hér á landi er mikil og við vitum það af reynslunni að við ráðum ekki til lengdar við svona þenslu án þess að eitthvað fari úr böndum. Það sem ég held að skapi meiri óvissu en áður um framvinduna er að það hefur svo mikið breyst. Efnahagsleg umsvif eru svo miklu meiri og viðfemari og það er erfiðara að hafa góða yfirsýn. Gríðarlegar fjárfestingar aðila erlendis, mikil aukning í byggingu húsnæðis og umsvif í viðskiptalífinu, gríðarlegar lántökur einstaklinga og fyrirtækja bæði vegna neyslu og fjárfestinga, útgáfa skuldabréfa fyrir yfir 200 milljarða króna í íslenskum krónum og síðast en ekki síst miklar fjárfestingar og lántökur í tengslum við uppbyggingu virkjana. Það er mikil ástæða til þess að óttast að lendingin geti orðið ansi hörð. En svo er það líka í góðu partýi vill enginn vera "lyseslukkeren", þ.e. sá sem slekkur ljósin og segir að partíið sé búið.

Engin ummæli: