laugardagur, 31. mars 2007

Í heimsókn til Kristianstad.

Þetta er náttúrulega engin frammistaða hjá manni. Maður er alveg hættur að skrifa pistla. Afsökunin er alltaf sú sama. Maður hefur svo mikið að gera að maður má ekki vera að því að hripa niður nokkrar dagbókarfærslur. Ferðin til Svíþjóðar var góð og uppbyggileg afslöppun. Hún var aðeins of stutt. Maður nær ekki að hvíla sig á svo stuttum tíma. Það tekur alveg tvo daga að jafna sig eftir flugið. Maður verður að vakna um hánótt og svo tímamunurinn, sem nú er orðinn tveir tímar. Hér til hliðar má sjá afa- og ömmu strákana okkar tvo. Nú styttist í kosningarnar í maí. Það skiptir náttúrulega miklu hvernig niðurstaða þeirra verður. Skoðanakannanir gefa fyrirheit um spennandi kosningarslag. Hafnfirðingar kjósa í dag um stækkun álversins. Það er nú saga til næsta bæjar ef niðurstaða þeirra verður að afþakka frekari uppbyggingu þessa merka fyrirtækis í bæjarfélaginu. Manni þætti það nú svolítið sérstakt ef við Kópavogsbúar ættum að kjósa um það hvort BYKÓ verði áfram í bæjarfélaginu. Einhvernveginn finnst manni nú fyrirtækið hluti af tilveru bæjarins og ekki bæjarbúa að ákveða hvort það sé orðið of fyrirferðamikið í Breiddinni. Einhver kann að hugsa sem svo að þeir mengi nú ekki svo mikið, en þá verðum við að hafa í huga að að aukin umferð í BYKÓ mengar. Ég vil veg BYKÓ sem mestan í Kópavogi og er stoltur af því að fyrirtækið telst til Kópavogsfyrirtækja. Ég óska þeim alls hins besta í Hafnarfirðinum og vona að þeim beri gæfu til að standa vörð um álverið "okkar" allra. Það merkilegasta sem ég hef gert síðastliðna viku er að lesa Alkemistann eftir Poulo Coelho. Ef þið eruð í vandræðum með lestrarefni hvet ég ykkur eindregið til þess að lesa þessa ágætu bók. Jæja læt þetta duga í dag. Kveðja.

laugardagur, 24. mars 2007

Kveðja frá Kristianstad.

Sælt veri fólkið. Við skruppum yfir Pollinn til Svearíkis að heimsækja Hjört, Ingibjörgu, Svein og Jóhannes. Höfum verið hér í góðu yfirlæti í nýja húsinu þeirra í Hammar. Þetta er frábær staður og flott hús í góðu ásigkomulagi. Nafni er búinn að vera veikur og er allur að ná sér. Jóhannes Ernir er í góðum gír og blæs út. Það er óhætt að segja það. Annars höfum við bara tekið því rólega þessa daga. Veðrið er ágætt ca. 10°C. Meira síðar. Kveðja.

mánudagur, 19. mars 2007

Tónleikar og árshátíð.

Þegar dyggir lesendur eru farnir að ýta við manni vegna pistlaleysis á þessari síðu þá verður maður nú að reyna að taka sér tak og pára eitthvað til þess að seðja fréttahungrið. Við höfum nú öll verið upptekin í vinnu undanfarna daga og haft í mörgu að snúast. Af áhugamálum er það helst að frétta að í gær héldu Skaftarnir tónleika í Breiðholtskirkju. Við sungum við messuna og svo vorum við með stutta tónleika í kaffinu. Skrítið að kyrja undir þegar fólkið gékk til altaris. Kórinn kyrjar aftur og aftur sama ljóðið í síbylju. Með okkur söng kirkjukórinn á Höfn í Hornafirði, en þessi messa var helguð Skaftfellingum. Á laugardagskvöldið vorum við á árshátíð HÍ uppí Gullinhömrum í Grafarholti. Flott hátíð með úrvalsmat og hin besta skemmtan. Undir dansi lék hljómsveit sem ég þekki engin deili á nema að með henni söng Ragnar Bjarnason. Hann kann ekki neina texta, en alltaf gaman að heyra röddina hans. Nú í dag var maður í leikfimi og fékk að heyra af "pepp" fundi sem AGGF félagar héldu með sálfræðingi á fimmtudagskvöldið. Ég mætti nú ekki. En mér skilst að skilaboð hans hafi verið þau að maður ætti að setja sér markmið um flest það er lýtur að lífshlaupinu. Hér voru í gærkvöldi finnsk hjón en frúin er að kenna við HÍ. Áttum hér ánægjulega kvöldstund. Mikið spurt og spjallað um íslenskar og finnskar hefðir og venjur. Hér komu í gærkvöldi Stella og Valdimar. Kveðja.

föstudagur, 9. mars 2007

Akranes

Það var vinnufundur í gær á Akranesi. Eftir fundinn var farið í stutta skoðunarferð um bæinn. Borðaður var kvöldverður í Haraldarhúsi. Húsráðendur tóku á móti okkur og kynntu okkur sögu þessa merka húss. Við vorum einnig leidd í gegnum sögu HB og Co hf. nú HB Granda hf. Í alla staði hin skemmtilegasta ferð. Ég bloggaði í fyrra nánar tiltekið 29.4.2006 um Harald Böðvarsson og vísa til þess pistils. Annars allt gott af okkur að frétta. Kveðja.

sunnudagur, 4. mars 2007

Akureyri heimsótt.

Það hefur verið í ýmsu að snúast þessa helgina. Í gær fór ég norður á Akureyri á undirbúningsfund hjá Rótarý með morgun vél Flugfélags Íslands. Fundurinn var haldinn í Sólborg, sem er glæsileg háskólabygging norðan við Glerá. Þarna voru mættir ýmsir sem maður hefur átt samskipti við á lífsleiðinni sl. 30 ár eða svo, bæði gamlir vinnufélagar og kunningjar. Ánægjulegt var að hitta þetta fólk þarna og rifja upp gömul kynni. Ég var kominn aftur í bæinn um hálf átta með vélinni sem fer korter fyrir sjö frá Akureyri. Veðrið var nú ekkert sérstakt aðfaranótt laugardags þannig að maður gat átt von á leiðinlegu flugi eða töfum, en þetta var allt hið þægilegasta flug. Það var sunnan átt, þannig að veðrið var betra á Akureyri en í Reykjavík. Svona fjarðarstilla eins og Björn Dagbjartsson lýsti því, en hann var fylgdarmaður Gunnhildar, sem var á þessum sama fundi. Sérstakt var að flugvélin flaug í lágflugi yfir Reykjavíkurflugvelli áður en hún svo lenti. Skrítið að stunda slíkar æfingu með fulla vél af farþegum. Þetta mun hafa verið í gert í tilefni þess að Flugfélagið var með árshátíð á Hótel Loftleiðum. Nú í dag hefur maður að mestu verið heimavið. Skrapp aðeins í Smáralind og keypti mér DVD diska sem ég ætla að kíkja á í kvöld þ.a.m.l. gamall vestri með C.Eastwood, Hnefafylli af dollurum. Fór einn rúnt á bílasölur. Það fer nú að líða að því að maður verði að huga að endurnýjun á gamla jeppanum hann er orðinn ansi þreyttur. Kveðja.