laugardagur, 31. mars 2007

Í heimsókn til Kristianstad.

Þetta er náttúrulega engin frammistaða hjá manni. Maður er alveg hættur að skrifa pistla. Afsökunin er alltaf sú sama. Maður hefur svo mikið að gera að maður má ekki vera að því að hripa niður nokkrar dagbókarfærslur. Ferðin til Svíþjóðar var góð og uppbyggileg afslöppun. Hún var aðeins of stutt. Maður nær ekki að hvíla sig á svo stuttum tíma. Það tekur alveg tvo daga að jafna sig eftir flugið. Maður verður að vakna um hánótt og svo tímamunurinn, sem nú er orðinn tveir tímar. Hér til hliðar má sjá afa- og ömmu strákana okkar tvo. Nú styttist í kosningarnar í maí. Það skiptir náttúrulega miklu hvernig niðurstaða þeirra verður. Skoðanakannanir gefa fyrirheit um spennandi kosningarslag. Hafnfirðingar kjósa í dag um stækkun álversins. Það er nú saga til næsta bæjar ef niðurstaða þeirra verður að afþakka frekari uppbyggingu þessa merka fyrirtækis í bæjarfélaginu. Manni þætti það nú svolítið sérstakt ef við Kópavogsbúar ættum að kjósa um það hvort BYKÓ verði áfram í bæjarfélaginu. Einhvernveginn finnst manni nú fyrirtækið hluti af tilveru bæjarins og ekki bæjarbúa að ákveða hvort það sé orðið of fyrirferðamikið í Breiddinni. Einhver kann að hugsa sem svo að þeir mengi nú ekki svo mikið, en þá verðum við að hafa í huga að að aukin umferð í BYKÓ mengar. Ég vil veg BYKÓ sem mestan í Kópavogi og er stoltur af því að fyrirtækið telst til Kópavogsfyrirtækja. Ég óska þeim alls hins besta í Hafnarfirðinum og vona að þeim beri gæfu til að standa vörð um álverið "okkar" allra. Það merkilegasta sem ég hef gert síðastliðna viku er að lesa Alkemistann eftir Poulo Coelho. Ef þið eruð í vandræðum með lestrarefni hvet ég ykkur eindregið til þess að lesa þessa ágætu bók. Jæja læt þetta duga í dag. Kveðja.

Engin ummæli: