sunnudagur, 4. mars 2007

Akureyri heimsótt.

Það hefur verið í ýmsu að snúast þessa helgina. Í gær fór ég norður á Akureyri á undirbúningsfund hjá Rótarý með morgun vél Flugfélags Íslands. Fundurinn var haldinn í Sólborg, sem er glæsileg háskólabygging norðan við Glerá. Þarna voru mættir ýmsir sem maður hefur átt samskipti við á lífsleiðinni sl. 30 ár eða svo, bæði gamlir vinnufélagar og kunningjar. Ánægjulegt var að hitta þetta fólk þarna og rifja upp gömul kynni. Ég var kominn aftur í bæinn um hálf átta með vélinni sem fer korter fyrir sjö frá Akureyri. Veðrið var nú ekkert sérstakt aðfaranótt laugardags þannig að maður gat átt von á leiðinlegu flugi eða töfum, en þetta var allt hið þægilegasta flug. Það var sunnan átt, þannig að veðrið var betra á Akureyri en í Reykjavík. Svona fjarðarstilla eins og Björn Dagbjartsson lýsti því, en hann var fylgdarmaður Gunnhildar, sem var á þessum sama fundi. Sérstakt var að flugvélin flaug í lágflugi yfir Reykjavíkurflugvelli áður en hún svo lenti. Skrítið að stunda slíkar æfingu með fulla vél af farþegum. Þetta mun hafa verið í gert í tilefni þess að Flugfélagið var með árshátíð á Hótel Loftleiðum. Nú í dag hefur maður að mestu verið heimavið. Skrapp aðeins í Smáralind og keypti mér DVD diska sem ég ætla að kíkja á í kvöld þ.a.m.l. gamall vestri með C.Eastwood, Hnefafylli af dollurum. Fór einn rúnt á bílasölur. Það fer nú að líða að því að maður verði að huga að endurnýjun á gamla jeppanum hann er orðinn ansi þreyttur. Kveðja.

Engin ummæli: