mánudagur, 31. desember 2007

Áramótakveðja.

Lilja Vestmann Valdimarsdóttir. Við óskum ykkur gleðilegs árs og þökkum árið sem er að líða. Margs er að minnast og þakka. Árið hefur liðið sem örskotsstund enda hefur þetta verið viðburðarríkt og gott ár. Stærsti viðburður ársins er að sjálfsögðu fæðing þessarar fallegu stúlku, hennar Lilju okkar sem fæddist 4. júní á þessu ári. Annállinn stendur fyrir öðrum merkisatburðum. Bestu kveðjur.

sunnudagur, 30. desember 2007

Leiktjaldasmiðurinn tekur til sinna ráða.

Datt þessi fyrirsögn í hug þegar veðurguðinn tók til sinna ráða og svipti jólasnjónum í burtu á einni nóttu eða svo. Hér hefur verið mikið rok og rigning í nótt og dag. Þannig að nú er búið að bleyta vel í jarðveginum og óhætt að skjóta flugeldum í tilefni áramótanna. Er að lesa Minningarbók Sigurðar Pálssonar og er það mjög áhugaverð bók. Annars lítið að frétta héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 27. desember 2007

... af lífshlaupinu.

Þá er lokið síðasta vinnudegi ársins, en verkefnin fjölmörg sem teygja sig yfir áramótin. Þó tókst að gera skil á nauðsynlegustu verkefnum áður en þessi síðasta helgi ársins hefst. Eins og alltaf höfum við verið mikið á ferðinni þessa daga og hitt fjölskylduna. Minna hefur verið lesið en til stóð. Náði þó að lesa bók Hrafns Jökulssonar sem ber tiltilinn, Þar sem vegurinn endar. Snotur bók og fljótlesin og skaðar engan að lesa hana eins og frændi hans fornbókasalinn sagði eitt sinn við mig er ég spurði hann um bók sem fjallaði um sjálfshjálp og lífshlaupið. Nú er ég að byrja að lesa aðra bók um lífshlaup, bók Sigurðar Pálssonar, Minnisbókina um dvöl hans í Frakklandi á námsárunum. Það gefur manni alltaf eitthvað að spegla sig í reynslu annarra, þó ekki sé annað. Úr einu í annað. Lenti í því að keyra utan í vegg í dag og skemmdi bílinn minn. Þýðir víst lítið að ergja sig á því. Þakka fyrir að ekki fór allavega verr. Læt þetta duga. Kveðja.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Á jóladag.

Hvít jól.Það kyngir niður snjó í Fossvogsdal. Fórum í göngutúr í dalnum um hádegisbilið. Það var svolítið kalt og maður varð rjóður í kinnum. Annars hafa þessi jól verið með hefðbundnu sniði. Endaði kvöldið á því að fyljast með messuhaldi í Péturskirkjunni í Róm, sem var sýnd í beinni viða um heim.

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg jól

Jólatréð. Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Kveðja til allra nær og fjær.

Á Þorláksmessunótt.

Þetta hefur verið um margt líkt og áður. Fórum í skötu á Loftleiðum í hádeginu. Fór svo aftur um kvöldið á Múlakaffi með Hirti. Við hittum vin Sirrýjar hann Einar Þorsteinsson á laugarveginum eins og undanfarna áratugi. Hann sagði þegar hann loks hitti okkur: "Jæja þá er kvöldið fullkomnað. Ég búinn að hitta ykkur og get þá farið heim." Það er nú ekki hægt að fá hlýlegri jólakveðju. Í fyrra fór svo að leiðir okkar lágu ekki saman okkur öllum til leiðinda. Annars verið mest heimavið í dag. Nafni minn kvaddi mig í dag með því að segja: " Bless afi minn, en ég kem aftur." Hann var að fara í jólaheimsókn í Borgarnes og áttaði sig á því að hann mundi ekki vera með mér um tíma.
Kveðja.

fimmtudagur, 20. desember 2007

Unnur Sveinsdóttir stúdent.

Frænkurnar Sigrún og Unnur.
Við óskum Unni Sveinsdóttur til hamingju með stúdentsprófið. Sveini Larssyni til hamingju með meistaranámið og Sunnevu til hamingju með 25 ára afmælið. Með öðrum orðum við vorum í þrefaldri veislu í kvöld að fagna þessum áföngum. Annars allt á fullu við að haka við "to do" listann eins og venjulega á þessum tíma. Kveðja.

þriðjudagur, 18. desember 2007

Í aðdraganda Stóru Brandar jóla.

Við vorum í 25 ára afmæli Stellu í dag. Annállinn færir henni sérstakar hamingjuóskir í tilefni dagsins. Þá fórum við í jólatrésleiðangur með nafna. Það var mikið fjör og mikið gaman, þótt lítill maður væri orðinn þreyttur. Í dag var síðasti fundur í rótarý fyrir jól. Sýndar áhugaverðar myndir úr Frakklandsferð rótarý klúbbanna í október. Þar missti maður af áhugaverðri ferð um slóðir franskra duggusjómanna. Koma tímar koma ráð. Vonandi á maður eftir að heimsækja þessar slóðir. Nú á mánudaginn drattaðist maður loks í leifimitíma eftir nokkuð hlé. Fimleikastjórinn heilsaði manni með handabandi. Hann kann að koma athugasemdum um fjarveruna til skila með ýmsum hætti blessaður. Kveðja.

föstudagur, 14. desember 2007

Að hittast á "julefrukost".

Fór á Hótel Loftleiði í dag á jólahlaðborðið góða. Hitti gamla félaga úr Kópavogi. Við höfum haldið þeim sið að taka frá eitt hádegi í desember ár hvert til þess að koma og borða og spjalla saman. Við höfum gert þetta um fimm ára tímabil. Þetta eru einu formlegu samskiptin sem við höfum á árinu. Eftir þennan hádegisverð förum við hver okkar braut. Eigum það sameiginlegt að hafa þekkst og umgengist nokkuð sem unglingar. Við spjöllum um líf okkar og störf, fjölskyldur, börn og núna barnabörn og svo gamlan tíma frá unglingsárunum. Í dag ræddum við m.a. hvað tjáskipti eru mikilvæg í mannlegum samskiptum en jafnframt um gildi þess að þegja saman. Oft geti það verið góður kostur. Sá okkar sem er sálfræðingurinn minnti okkur á að stundum geti þögnin orðið þrúgandi þegar hún er búin að vara í svona fimmtán ár í sambúð. Við vorum sammála um að það væri ef til vill helst til langt þagnarbindindi.

miðvikudagur, 12. desember 2007

Bjarga heiminum á Balí.

Leiðarvísir á Norðurpólinn.
Fréttir dagsins hafa verið af umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí. Alls 120 umhverfisráðherrar voru mættir þar til þess að taka þátt í loftlagsráðstefnunni og þess er vænst að komist verði að samkomulagi um takmörkun á losun gróðurhúslofttegunda. Ein fullyrðingin sem flaut í fréttaflutningi af ráðstefnunni var að ef ekkert yrði að gert myndi ísinn á Norðurpólnum vera horfinn árið 2013. Það er ef til vill auðvelt að telja fólki trú um þetta í 30°C hita á Balí, en í mínum huga vaknaði bara ein spurning: Hvaða bull er þetta? Það er að koma árið 2008 og við höfum samkvæmt fréttinni 5 ár til stefnu til að bjarga Norðurpólnum frá bráðnun og mannkyninu frá glötun. Með jöfnu millibili koma upp svona dómsdagsspádómar. Úr einu í annað. Ég horfði á norsku rásina þegar þeir voru að veita Al Gore jr. friðarverðlauninn í Oslo. Ég skil ekki fyrir hvað hann fékk þessi verðlaun blessaður maðurinn. Nema ef vera kynni fyrir 30 sekunda ræðuna á Óskarshátíðinni í febrúar? Á síðasta ári hlustaði ég hinsvegar með athygli þegar Muhammad Yunus var heiðraður fyrir sitt merka starf í að berjast gegn fátækt í Bangladesh. Jæja læt þetta duga og vona að Balí fararnir eigi góða sólardaga og heimkomu. Þeir samþykki ekki eitthvað sem fækki sólardögum okkar hér norður undir heimskautsbaug. Sú hætta er ávallt til staðar á svona ráðstefnum að fólk sammþykki kvaðir og hömlur. Boðist sé til að greiða sig frá illa skilgreindum vandamálum með fjármunum skattgreiðenda. Það þýðir aftur aðeins beina skerðingu lífskjara. Vonandi hefur einhver vit á að varast slíkar niðurstöður á Balí. Kveðja. (mynd: af veraldarvefnum, höf.: ókunnur.)

þriðjudagur, 11. desember 2007

pom, pom, pom, pompom.

Í kjölfar Simfóníuhljómsveitarinnar. Þá er árlegum jólatónleikum Skaftanna á Landspítalanum lokið. Við sungum við góðar undirtektir á endurhæfingardeild og geðdeild spítalans. Gat ekki stillt mig um að taka þessa mynd af minnistöflu geðdeildarinnar með auglýsingu um tónleikana okkar í Sköftunum við hliðina á auglýsingu Sinfóníuhljómsveitarinnar. Maður spyr sig hvort hægt sé að komast hærra á tónlistarbrautinni en að vera auglýstur við hliðna á svo virðulegri hljómsveit. Söngurinn hreyfir við sálinni þegar samstilltur kór flytur jólalögin það fer ekki milli mála, hvort heldur er um flytjanda eða áheyranda að ræða. Vinsælasta lagið að þessu sinni var án efa Litli trommuleikarinn. Kveðja.

mánudagur, 10. desember 2007

Suðaustan rok og rigning.

Þetta er svona vont Kópavogsveður sagði móðir mín í kvöld þegar hún var að lýsa veðrinu sunnan megin við Kópavogshálsinn - suðaustan rok og rigning og það lemur og skekur húsið. Fyrir þá sem ekki vita það þá er hún Vesturbæingur þ.e. úr vesturbæ Reykjavíkur þótt hún hafi búið yfir 50 ár í Kópavogi. Ég hef aldrei heyrt hana tala um vont vesturbæjarveður. Nú má segja að þetta veður ríki hér á norðanverðum hálsinum einnig svona 25 hnútar. Þetta veðurfar undanfarnar vikur með eilífum lægðarlufsum er að verða þreytandi. Það hefur ekki verið alvöru vetur með drifhvítum snjó í mörg ár. Talaði við Hjört á Akureyri í kvöld hann sagði að kuldinn hefði farið niður í 13 stiga frost í dag. Jæja hef þessar veðurlýsingar ekki lengri. Kveðja.

sunnudagur, 9. desember 2007

Annar í aðventu.

Kaffihlaðborðið hjá Sköftunum.
Þá eru aðventutónleikar Skaftanna yfirstaðnir. Læt hér fylgja mynd af veglegu kaffihlaðborðinu.(Mynd:Kristinn Kjartansson) Sungum nokkur falleg jólalög. Það voru óvenju margir sem komu að þessu sinni á aðventuhátíðna. Þetta reyndist vera hin besta skemmtun og mikið af börnum sem komu og gengu kringum jólatréð. Síðan syngjum við á Landspítalanum í vikunni og svo erum við farin í jólafrí. Í gær vorum við í afmælisveislu hjá pabba. Hann átti 77 ára afmæli. Þau eru nýkomin frá Kanarí en þar dvöldu þau í tvær vikur. Í gærkvöldi vorum við boðin í jólahlaðborð. Þannig að það er mikið borðað þessa dagana. Hjörtur og Sveinn Hjörtur gistu hér nokkra daga í vikunni. Heimasætan er við próflestur þannig að heimilishaldið ber svolítinn keim af því eins og gefur að skilja.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Jólatónleikarnir Söngfélagsins.

Nú styttist í jólatónleika Söngfélags Skaftfellinga í Reykjavík. Þeir eru eins og áður hefur komið fram næsta laugardag kl. 15.00 í Skaftfellingabúð við Laugarveg 178 á fjórðu hæð. Hvet alla til þess að koma og njóta stundarinnar. Mörg falleg jólalög á dagskránni og boðið upp á kaffi og með því. Kostar 1000.- inn fyrir þá sem eru eldri en 17 ára. Kveðja.

sunnudagur, 2. desember 2007

Fjörug helgi - 1. í aðventu.

Þetta hefur verið fjörug helgi. Hingað til lands komu í gær Hjörtur og Ingibjörg með drengina sína tvo Svein Hjört og Jóhannes Erni frá Svearíki. Hér hafa ýmsir komið að heilsa upp á fólkið. Af yngri kynslóðinni eru það að sjálfsögðu Lilja og Valgerður Birna. Það var gaman að fyljgast með ungu kynslóðinni treysta frændsemina, þótt sá elsti væri aðeins á þriðja aldursári. Annars höfum við tekið því rólega sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Við afrekuðum að setja upp aðventuskrautið. Satt best að segja trúir maður varla að það sé kominn 2. desember. En dagatalið lýgur ekki. Þetta hefur ekki verið neinn vetur enn sem komið er. Enginn snjór og varla að það hafi komið frost. Einstaka rok kviður nokkra daga svo ekki söguna meir. Nú styttist í að prestshjónin komi frá Kanarí. Við vorum á sameiginlegum rótarýfundi klúbbanna í Kópavogi í gær í hádeginu. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Söngfélag Skaftfellinga. Hér má sjá kórfélaga á æfingu fyrir væntalega jólahátíð, sem hefst á aðventutónleikum í Skaftfellingabúð kl. 15.00 þann 9. desember. Þeir Skaftfellingar sem villast hingað inn eru nú hvattir til þess að láta sjá sig. Önnur verkefni eru eins og undanfarin ár söngur á Grensásdeildinni og Geðdeildinni.

mánudagur, 26. nóvember 2007

Í minningu Allans Rune.

Allan Rune. Í dag var til moldar borinn Allan Rune eiginmaður Elísabetar föðursystur minnar. Hann lést fyrir rúmri viku síðan eftir að hafa átt við mikil veikindi að stríða. Þegar við bjuggum í Gautaborg á námsárunum mynduðust góð tengsl milli okkar og Allans og Betu og barnanna þeirra. Þau heimsóttu okkur og við áttum athvarf hjá þeim þegar komið var til Kaupmannahafnar. Allan var einstaklega geðugur maður, rólegur í fasi og hafði góða nærveru. Hann var tæknimaður og vann við viðgerðir á tölvum alla sína starfsævi. Heimili Allans og Betu í Albertslund var glæsilegt í alla staði. Þangað lá leið margra í fjölskyldunni í gegnum tíðina. Minnisstæð eru áramótin 1975/1976 er við dvöldum hjá þeim yfir nýárið. Þetta voru fyrstu jólin sem við vorum ekki í foreldrahúsum. Minnisstæðast er þegar við stóðum öll upp í sófa og hoppuðum inn í nýja árið. Á þessari mynd má greina okkur Allan, Betu, Claus, Hinrik, Lindu og Hjört Friðrik. Myndina tók Sirrý í Gautaborg í nóvember 1977. Blessuð sé minning Allans.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

"Blackout" í Brekkutúni.

Spilað í myrkrinu.
Upp úr kl. 21.00 fór rafmagnið af Fossvoginum í Kópavogi en ekki Reykjavík. Þetta hefur gerst áður að þessi bæjarhluti einn og sér hafi orðið rafmagnslaus. Nú til að stytta manni stundina var gott að grípa í hljóðfærið. Þið megið geta ykkur til hvernig ég kom fyrir vasaljósinu. Það er helst í fréttum að Halla og co sitja föst í Halifax á leiðinni heim frá Kúbu. Það var keyrt á flugvélina á flugvellinum þar. Prestshjónin eru á Kanarí í góðu yfirlæti. Annars höfum við aðallega verið heimavið alla helgina. Heimasætan er við próflestur þessa dagana. Fórum aðeins í gærkvöldi og heimsóttum Stellu, Valda og Lilju. Hún dafnar vel og er farin að geta setið óstudd. Nú styttist í að Sveabúarnir kom til landsins. Þetta er svona það helsta héðan.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Í viðskiptum hjá Braga og Ara.

Ég hef mikla ánægju af að koma við og versla hjá þeim feðgum Braga og Ara á Klapparstígnum. Búinn að vera fastur kúnni hjá þeim í mörg ár og keypt töluvert af bókum í gegnum tíðina. Þar fær maður alltaf ríflegan afslátt á ýmsum grunnritum íslenskrar tónlistar- og bókmenntasögu. Hef dundað mér í gegnum tíðina að safna saman nótum eftir aðallega íslensk tónskáld. Á orðið þó nokkurt safn sem ég hef viðað að mér og þyrfti að fara flokka. Nú svo hef ég keypt allar ævisögur íslenskra tónskálda sem ég hef komist yfir. Það er fróðlegur lestur að lesa um íslenska tónlistarsögu og kynnast viðreisnarsögu hennar frá Pétri Guðjohnsen dómorganista á nítjándu öld og til vorra tíma. Vissulega eru margar þessar bækur góðar heimildir um tónsmíðar tónskáldanna. Auk þess lýsa þær sumar ágætlega þeim tíma sem tónskáldin lifðu. Bragi er viskubrunnur um menn og málefni og oft hefur hann gaukað að mér fróðleiksmolum um þetta áhugamál mitt í kaupbæti. Það sem tónlistarsagan skilur eftir er saga metnaðar, elju og hæfileika. Saga af fólki sem þrátt fyrir þrönga stöðu náði að leggja grunn að þeirri miklu og glæsilegu tónlistariðkun sem stunduð er á Íslandi í dag. Leiða má líkur að því þótt ekki verði það gert í stuttum pistli að tónlistariðkun Íslendinga hafi skipt lykilhlutverki í endurreisn íslensks samfélags eftir þúsund ára kyrrstöðu. Gaman væri að heyra í þeim sem deila þessum áhuga með mér.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Til rakarans - mikilvægi persónulegra viðskipta.

Eitt af því sem ég er búinn að haka við á "to do" listanum mínum þessa vikuna er að fara til rakarans míns. Ég er búinn að vera viðskiptamaður hjá honum í a.m.k. þrjá áratugi. Fyrir utan löng persónuleg kynni og það að hann er ágætis klippari þá er kostur við þjónustu hans að geta komið við hjá honum án þess að panta tíma. Svona hefur þetta verið frá upphafi og svona vil ég hafa það. Þetta hefur yfirleitt alltaf gengið upp í gegnum árin og því engin ástæða til að breyta. Hann er líka sanngjarn í verði. Því miður eru ekki öll viðskiptasambönd mín svona persónuleg. Ég þekki ekki aðra stærri viðskiptaaðila sem ég versla reglulega við. Þeir eru svo umsvifamiklir að þeir standa ekki vaktir í verslunum sínum. Þeir halda heldur engum starfsmönnum til lengri tíma þannig að maður kynnist þeim ekki. Þetta verða svona andlitslausir "Dúddar" oftast unglingar í íhlaupavinnu. Það er verið að segja í fjölmiðlum að kaupmennirnir sem ég versla við séu að plata mig þegar þeir verðleggja vöru sína. Ég vil helst ekki trúa því vegna þess að Bónusgrísinn er vinalegur og stofnandi Hagkaupa var vinur litla mannsins. En hvernig á maður að greina í orðaskaki síbyljunnar hver er að segja satt eða ósatt í þessari andlitslausu ópersónulegu umræðu? Það hafa persónulegu viðskiptin fram yfir hin ópersónulegu að þú ert í beinu sambandi og skynjar og bara veist hvort þjónustan er í lagi. Ýmsir þeir sem veita almenningi andlitslausa þjónustu reyna að sigta út trygga viðskiptavini með því að koma upp afsláttarkerfum. Safnað er punktum fyrir hinu og þessu allt eftir umfangi viðskiptanna. Reynsla mín af slíkum punktakerfum er ekki góð. Þessir punktar renna út eða gilda ekki um þá vöru eða þjónustu sem þú ætlar að nota þá í þegar leysa á punktana út. Þetta skilur eftir þá tilfinningu að verið sé að leika með mann og spurningin vaknar hversu hárri upphæð er smurt ofan á verð keyptrar vöru til þess standa undir punktakerfinu. Af hverju er ekki hægt að einfalda lífið aðeins og láta viðskiptavininn njóta þess í hagstæðu vöruverði ef hann vill kaupa ákveðna vöru? Hvernig væri nú að hætta þessum markaðsklækjum og verðleggja vöru og þjónustu þannig að neytandinn fái þá tilfinningu að hann sé að njóta góðra kjara, jafnvel þótt hann þekki ekki kaupmanninn.

laugardagur, 17. nóvember 2007

Skattamál.

Arthur B Laffer Fór á fyrirlestur bandaríska hagfræðingsins Arthur B Laffer sem haldinn var á vegum SA í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu á fimmtudaginn. Hann er einn af þessum frægu hagfræðingum sem koma frá USA. Það var frískandi og sannarlega einnar messu virði að hlusta á hann. Hann flutti mál sitt af sannfæringu, öryggi og innsæi þannig að maður fylgdist með því sem hann sagði frá upphafi til enda. Því miður eigum við enga svona ræðumenn meðal okkar hagfræðinga. Minnti mann á þegar sjálfur Milton Friedman kom hérna um árið. Laffer fjallaði um skattamál og tengdi umfjöllun sína við bandaríska hagsögu á tuttugustu öldinni. Hann hældi okkur Íslendingum fyrir framúrskarandi árangur í efnahagsmálum síðastliðinn hálfan annan áratug. Hann sagði að við hefðum sannað kenningu sína um gildi skattakúrfunnar, sem kennd er við hann.
Laffer kúrfan. Kúrfan er til að minna á að lækkun skattprósentu geti leitt til þess að skatttekjur aukist. Í máli hans kom einnig fram að skattahækkun um eina krónu geti í raun kostað ríkið tvær krónur til viðbótar þannig að tilætluð skattahækkun skili sér ekki til ríkisins í auknum skatttekjum. Arthur B Laffer er á því að lækka eigi alla skatta og helst hafa það að leiðarljósi að afnema þá ef þeir eru óþarfir, nema ef til vill "syndaskatta" sem notaðir eru til þess að draga úr neyslu á t.d. áfengi og tóbaki. Skattpíning hafi letjandi áhrif á vinnugleði fólks og það séu tekjur eftir skatta sem skipti fólk höfuð máli. Þetta álit hans snérist ekki um það hvar fólk væri í pólitík til hægri eða vinstri, heldur um almenna skynsemi. Hann gerði lítið úr miklum viðskiptahalla okkar Íslendinga, taldi hann gott dæmi um það lánstraust sem við hefðum á alþjóðlegum markaði. Aðrir væru tilbúnir að lána okkur fjármagn til uppbyggilegra verkefna. Að vísu held ég að við ættum nú ekki að leggja of mikið upp úr þessari staðhæfingu í ljósi þess að við erum að eyða of miklu í neysluvarning, sem ekki mun gefa af sér nauðsynlegan arð til þess að greiða skuldir. Laffer endaði á því að minna á að hagtölur væru ekki bara einhverjar tölur á blaði heldur segðu þær til um hlutskipti fólks. Atvinnuleysi væri grafalvarlegur vandi þeirra fjölskyldna sem lentu í slíku. Þessvegna væri það gott mál að atvinnuleysi væri lítið og stjórnvöld ættu ekki að beita sér í því að auka atvinnuleysi. Ég er sannfærður um að þessi fyrirlestur eigi eftir að hafa víðtæk áhrif í íslensku efnahagslífi á næstu misserum.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Ísland í augum gestanna.

Víðáttan. Við Sirrý fórum á laugardaginn í bíltúr austur að Geysi og Gullfossi með viðkomu á Þingvöllum og Laugarvatni með finnskan kollega hennar og maka. Það er alltaf svolítið frískandi að vera í för með útlendingum sem eru að upplifa Ísland í fyrsta skipti. Það sem vakti fyrst athygli Finnanna var að sjálfsögðu víðáttan og trjáaleysið. Heikki spurði mig hvort einhvertíma hafi orðið bílslys einhversstaðar á Íslandi vegna þess að bíll hafi keyrt á tré, en slík slys eru víst tíð í Finnlandi.


Ferðafélagarnir Terttu og Heikki. Eftir stutt stopp á Þingvöllum og stutt erindi um stofnun alþingis og kjarkaða víkinga var haldið áfram til Laugarvatns. Þar var áð og borðaðar flatkökur og hangikjöt og drukkið kaffi niður við vatnið. Veðrið var hreint ótrúlegt, heiðskýrt og blankalogn. En á Þingvöllum var frekar kallt. Heikki hafði mikinn áhuga á Laugarvatni vegna þess að hann var skólastjóri menntaskóla í Finnlandi. Nú stutt viðkoma við laugina þar sem lík Jóns Arasonar biskiups var laugað og að rómversk-katólskur biskup hefði átt syni vakti að sjálfsögðu athygli.

Hverasvæðið við Geysi. Við sáum Strokk gjósa tvisvar ásamt hópi túrista og gengum upp að gamla Geysi sem má muna fífil sinni fegurri. Frá Geysi héldum við að Gullfossi og stoppuðum örstutta stund. Þar var ískalt og vatnsúði sem mætti okkur en við Geysi var blankalogn. Gamli brandarinn um margbreytileika íslensks veðurfars vekur alltaf kátínu við svona aðstæður.

Altaristaflan. Við komum við í Skálholti og skoðuðum kirkjuna. Altaristaflan vekur jafnan mikla hrifiningu endar er hún afar fögur, svo og gamli predikunarstóllinn. Það var mikil framsýni að endurvekja Skálholt og reisa þar þessa glæsilegu kirkju á sínum tíma.

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Til hamingju með afmælið.

Hringdum í dag til Kristianstad í Svearíki og óskuðum Hirti til hamingju með afmælið. Frumburðurinn orðinn 34 ára, svona líður nú tíminn hratt. Nú svo verður Jóhannes Ernir eins árs þann 11. nóvember n.k. þannig að það eru nægar ástæður til að gera sér dagamun á Gladiolavägen. Annars lítið í fréttum héðan úr Fossvogi. Kveðja.

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Í rútínu dagsins.

Þessi flensuskítur sem nú herjar hefur verið að ergja mann síðustu daga. Annars erum við í þessari venjulegu rútínu og frá litlu að segja á þessu miðvikudagskvöldi. Rífum okkur upp á morgnana, blaðalestur,vinna og svo heim. Þess á milli reynir maður að rýma fyrir öðrum hugðarefnum. Við erum að taka á móti finnsku fólki um helgina sem hingað er að koma í stutta vinnuferð. Kórinn er að fara í æfingarbúðir um helgina svo að maður missir af því. Það er ekki hægt að vera mörgum stöðum í einu því miður. Var á rástefnu VÍ í gærmorgun að hlusta á seðlbankamenn réttlæta háa stýrivexti. Ég held þeir séu komnir á ansi þunnan ís í þessari baráttu við verðbólguna. Það þýðir lítið að slökkva verðbólgubálið, ef slökkvistarfið felst í aðgerð sem aftur leiðir til styrkingar krónunnar og hvetur þar með til gengdarlausra kaupa á vörum erlendis frá og viðhalda þannig þenslunni í þjóðfélaginu. Svolítið eins og elta skottið á sjálfum sér.

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Söngfélagið kveður Violetu.

Violeta Smid.
Í gær var Violeta Smid fyrrum söngstjóri Söngfélags Skaftfellinga í Reykjavík kvödd af kórfélögum og henni þökkuð kórstjórnin í aldarfjórðung. Kórinn söng nokkur lög undir stjórn Violetu og einnig undir stjórn nýja stjórnandans, Friðriks Vignis Stefánssonar. Auk þess sungu tvær glæsilegar söngkonur Jóna Kolbrúnardóttir og Unnur Sigmarsdóttir nokkur lög. Sýndar voru myndir frá æfingum og ferðalögum sem kórinn hefur farið í gegnum tíðina. Þetta var hin besta skemmtun og margt rifjað upp frá liðnum árum. Ég tel mig heppinn að hafa fengið tækifæri að taka þátt í kórstarfi Skaftanna þótt aðeins hafi það samstarf varað í fjóra vetur. Þrátt fyrir að flestir söngfélagar eigi það sameiginlegt að vera skaftfellskrar ættar er þetta fólk sem kemur úr ólíkum áttum héðan úr Reykjavík. Það sem tengir það saman er söngæfingin í viku hverri. Það er gefandi stund að stilla saman fjórraddaðan blandaðan kór í fallegu lagi og verðlaunin í lokin er ómælanleg. Violeta færði inn í þennan hóp áhugafólks hámenningu Mið-evrópskrar tónlistarhefðar og blandaði henni saman við okkar tónlistararf, sem er nú býsna drjúgur. Við Íslendingar höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hingað hafa sótt miklir tónlistarmenn aðallega frá Evrópu sem hafa lyft okkar tónlistariðkun. Í þessum hópi er Violeta Smid en hún á ættir sínar að rekja til Búlgaríu. Það sem er einkennandi fyrir Violetu er hárfínn húmor og glettni. Hún var kosinn heiðursfélagi í Sköftunum og vonandi eiga leiðir okkar eftir að liggja aftur saman á komandi árum.

föstudagur, 2. nóvember 2007

Í vikunni eftir.

Það er svona spennufall hjá manni vikuna eftir aðalfund. Margar vikur í undirbúning og svo allt í einu er allt yfirstaðið. Lokahofið búið og lífið heldur áfram sinn vanagang. Hundurinn Sunna er farin til síns heima en hann var hjá okkur rúmar tvær vikur meðan Björn var að ferðast í Afríku. Nú maður er í sömu rútínunni þannig að er frá litlu nýju að segja. Valdimar og Stella komu með litlu Lilju í heimsókn í gær og við pössuðum hana smá stund. Annars var ég að velta því fyrir mér í gær þegar ég kvaddi gamlan nágranna að þrátt fyrir nafn annálsins væri lítið sem ekkert fjallað um lífið í götunni. Við erum búin að búa hér yfir 22 ár og höfum kynnst fullt af góðu fólki í gegnum árin. Fyrstu árin grillaði fólkið í götunni saman, en það er löngu liðið. Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar í nágrannahópnum. Margir hafa selt og flutt annað. Flestir eru væntanlega að minnka við sig. Börnin farin að heiman og lítil ástæða til að búa áfram í stórum húsum. Í sumum húsum hafa verið tíðari breytingar en öðrum. Það hafa búið allt að fjórar fjölskyldur í þeim á þessum rúmum tuttugu árum sem við höfum búið hér. Ég minnist þess ekki að hafa átt í nokkrum erjum við nágranna mína. Þvert á móti höfum við átt góð samskipti við marga þeirra og óskandi að það haldist áfram. Að vísu hefur maður heyrt af nágrannaerjum, en sem betur fer hafa þær ekki verið í kringum okkur. Einstaka sinnum hefur maður þurft að róa sig niður yfir skellinöðruakstri og háværum bílskúrsböndum. Hverfið er að yngjast upp að nýju og hingað flytur ungt fólk með börn inn í hverfið. Gaman að fylgjast með því. Kveðja.

laugardagur, 27. október 2007

Jæja.

Þetta er búin að vera viðburðarrík vika og lítill tími til að hanga í tölvunni. Á fimmtudaginn hófst aðalfundur LíÚ og stóð til þrjú í gærdag. Við fórum á lokahófið og var það glæsilegt að vanda. Þema fundarins var fyrst og fremst hafrannsóknir. Einnig var fjallað um efnahagsmálin og umhverfismerki. Þetta má allt nálgast á heimasíðu samtakanna. Það er alltaf viss eftirvænting í loftinu á svona stórum fundi. Maður hittir fullt af fólki víða af landinu sem maður er í símasambandi við en sér sjaldan. Annars er lítið í fréttum. Kveðja.

laugardagur, 20. október 2007

,,Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar"

Við sátum á bekk í almenningsgarði í nágrenni við heimili hans. Þögðum báðir og nutum sólskinsins þennan sumardag. Í fjarska gat að líta drungalega rauðbrúna byggingu. Þetta var pappírsverksmiðjan sem hann sagðist hafa unnið við alla sína starfsævi við eftirlit með valsavél. Umhverfis bygginguna var há steingirðing. Til þess að komast að henni þurfti að ganga um hlið á miðri girðingunni. Fyrir því var gríðastórt og þunglamalegt járnhlið. Ég ákvað að rjúfa þögnina þarna á bekknum og athuga hvort gamli maðurinn vildi ekki tjá sig um vinnustaðinn og snéri mér að honum. Ég sá að það runnu tár niður kinnar hans. Auðvitað varð mér nokkuð við. Ég spurði hann svona til þess að rjúfa þögnina hvort eitthvað amaði að.
Eftir nokkra stund rauf hann þögnina og sagði:

"Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar." eða "Hversu oft hef ég ekki gengið í gegnum þetta hlið."

"Saknarðu vinnunar?" spurði ég til að segja eitthvað.

"Nei",svaraði hann eftir stutta þögn.

"Ég vildi aldrei vinna þarna. Ætlaði í siglingar."

Hann náði sér fljótt og tárin hættu að renna.

"Af hverju fórstu ekki í siglingar Gunnar? Var ekki nóg af skipsrúmum í Gautaborg?"

"Jú, jú það var hægt að fá skipsrúm, en faðir minn réði mér frá því. Hann taldi betra fyrir mig að fara til starfa í verksmiðjunni og ég fylgdi þessum ráðum."

"En hugur minn stóð til siglinga um öll heimsins höf, en það átti ekki að verða."

Gat það verið að hann hafi eytt allri starfsævi sinni í vinnu við eitthvað, sem hann gat ekki hugsað sér? Það hafði ekki hvarflað að mér áður að maður gæti átt það fyrir höndum. Allt mitt líf fram til þessa hafði farið í undirbúning undir þátttöku á vinnumarkaðnum. Hvað ef ég myndi svo lenda í sömu aðstöðu og Gunnar?
Þetta samtal okkar átti sér stað þegar við vorum búnir að þekkjast nokkrar vikur. Uppgjör gamla mannsins við lífið þarna á bekknum hafði gríðarleg áhrif á mig. Þessi eina setning: "Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar." Það hafði aldrei fram til þessa hvarflað að mér fyrr að fólk starfaði heila mannsævi við eitthvað sem það hafði aldrei viljað. Þetta er gömul reynslusaga frá starfi við heimilishjálpina í Möndal í Svíþjóð 1979. Gunnar var einn af skjólstæðingunum mínum.

þriðjudagur, 16. október 2007

Mýs og menn.

Mýs og menn. Það er vinsælt að spyrja fólk við ýmis tækifæri hvað sé eftirminnilegasta bókin sem það hafi lesið. Ég velti þessari spurningu fyrir mér í dag og komst að þeirri niðurstöðu að eftirminnilegasta sagan sem ég hef heyrt væri saga John Steinbecks, Mýs og menn. Ég hef aldrei lesið hana sjálfur en hlustað á hana í upplestri fyrrum kennara míns í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Þetta hefur líklega verið veturinn 1966 og 1967 og lesturinn átti sér stað þegar við áttum nestistíma. Upplesarinn var Einar Bragi(1921-2005)rithöfundur. Hann las bókina með þvílíkum tilþrifum að sagan hefur alla tíð setið föst í minni mínu. Sagan gerist í Kreppunni miklu í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar. Hún segir í stuttu máli frá tveimur félögum George og Lennie. George er lítill,kvikk og hæðinn en Lennie er stór og vitgrannur. Þá dreymir um eigið býli og George reynir að halda Lennie frá vandræðum með því að minna hann á að hann fái ekki að hafa kanínur, ef hann haldi sig ekki frá vandræðum. Þetta er sorgarsaga en jafnframt er í henni húmor sem Einar Bragi kom frábærlega til skila í upplestri sínum. Túlkun hans á þeim félögum tveimur er ógleymanleg, sérstaklega hvernig hann gerði Lennie lifandi í upplestri sínum. Ég hélt lengi vel að Einar hefði þýtt bókina en við eftirgrennslan í Gegni, gagnasafni Landsbókasafnsins kemur fram að Ólafur Jóhann Sigurðsson (1918-1998) hafi þýtt þessa bók. Vel má vera að þessi saga hafi beint sjónum mínum að framtíðar starfsvettvangi mínum, hagfræðinni. Allavega hefur áhugi minni á því efnahagslega umhverfi sem Kreppan mikla skapaði fólki verið mikill. Svona geta áhrif kennara verið mikil á nemendur. Einar Bragi réðst í það stórvirki á 9.áratug síðustu aldar að þýða leikrit Henriks Ibsens og August Strindbergs. Ég keypti bæði þessi verk af honum ekki síst í þakklætisskyni fyrir upplesturinn þarna um árið í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Nú að sjálfsögðu líka vegna þess að það er hverju heimili nauðsynlegt að eiga helstu bókmenntaperlur Norðurlanda. Nóg í bili. Kveðja.

sunnudagur, 14. október 2007

Heimsókn í höfuðstað Norðurlands.

Veitingahúsið Bláa kannan. Þesssi mynd er tekin fyrir Ingibjörgu og Hjört í Svearíki í von um að þau geti yljað sér við minninguna um kaffiilminn á þessu uppáhalds kaffihúsi þeirra. Nú er bara að hella uppá og njóta stundarinnar. Annars var tilefnið ráðstefna um sjávarútvegsmál á KEA. Þrátt fyrir slæma veðurspá slapp ég við óveðrið og komst fram og til baka á réttum tíma.










Horft inn að Eyrinni. Á Akureyri er líka verið að byggja. Eins og myndirnar gefa til kynna var hið besta veður þennan fimmtudag. Þarna má sjá stefnið á Súlunni EA, því fornfræga skipi.











Horft "fram" fjörðinn. Mig minnir að þeir tali um að fara út fjörðinn þegar þeir eru að fara innar í fjörðinn. Það var víst fram fjörðinn sbr. komment frá Hirti.













Kirkjan. Þegar litið var út um gluggan á hótelherbeginu blasti þessi sýn af kirkjunni við. Annars lýsa þeir upp nokkrar eldri byggingar og er það tilkomumikil sýn eins og sjá má.

laugardagur, 13. október 2007

Í vikulok.

Þetta hafa verið annasamir dagar síðustu daga. Fór norður á Akureyri á miðvikudag. Þar var fjallað um hagfræðileg og líffræðileg málefni tengdum hafinu á fimmtudeginum. Þannig að ég missti af þessum sviptingum í borginni í "live". Ég ætla ekki að þykjast skilja þetta mál til hlítar. Ljóst mátti vera af atburðarás vikunnar að til tíðinda mundi draga. Þannig að það kom í raun ekki á óvart að meirihluti borgarstjórnar mundi springa. Í pólitíkinni og skákinni er það þannig að sá sem vinnur endataflið endar sem sigurvegarinn. Læt nú þessi fáu orð duga um þetta mál. Orkuútrásin er spennandi verkefni og vonandi að það verkefni haldi áfram að þróast og blómstra og við sem kaupum orku af OR berum ekki skaða af því.

sunnudagur, 7. október 2007

Gautaborgargengið í heimsókn.

Gautagellurnar. Sirrý var með "saumaklúbb" sem í eru stelpurnar sem voru á sama tíma og við í Gautaborg. Við bjuggum í nágrenni við þær og við vorum heimagangar hvert hjá öðru. Svo liðu námsárin og við fluttum öll heim. Þær ákváðu svo að halda tengslum með því að hittast, en án maka. Alinn upp í anda jafnréttis og allt það hefur mér alltaf þótt þetta skrítið ráðslag. Nú héldu þær klúbbinn heima hjá okkur þannig að ég fékk að sitja með þeim til borðs smá stund og rifja upp gamla tíma. Að því loknu var manni uppálagt að láta sig vinsamlegast hverfa svo lítið bæri á. Svo stóð "saumaklúbburinn" langt fram á kvöld en enga sá ég prjónana og hef ekki vitað til þess að til þeirra væri nokkurn tíma gripið á þessum klúbbfundum. Hópurinn á myndinni er að vísu ekki allur hópurinn því a.m.k. vantaði tvær til þrjár í hópinn í þetta skipti. Annars hef maður bara verið að leika sér þessa helgi. Byrjuðum á því að fara í gær í afmæli Alexanders hjá Axel bróður og Rannveigu. Fór á kínverska menningarhátið í Gerðarsafni og bókamarkað í Jóns Loftssonar húsinu. Kveðja.

sunnudagur, 30. september 2007

Hauststemmning í laufsins litum.

Nærmynd. Hún er svo skáldleg fyrirsögnin að annað hvort er ég að stela henni óafvitandi nú eða maður er orðinn svona skáldlegur í hugsun. Við tókum þessar myndir í morgungöngu. Sirrý er "hönnuður" víðmyndarinnar sem á að sýna haustlitina og regndropana. Nú ég tók svo nærmyndina svo ekki færi á milli mála að dropar og litir myndu skila sér á myndinni.








Víðmynd. Afrek helgarinnar eru engin því miður.Fórum á grænmetismarkaðinn í Mosfellsdal í gær og keyptum þetta fína grænmeti. Þar gafst kostur á að bragða á grænmetissúpu og smakka á frönsku víni. Ég hringdi í Helga vin minn sem er nú í Frakklandi við vínsmökkun. Honum þótti ekki mikið til um þessa vínsmökkun mína í samanburði við Búrgúndí "smakkið" hans með Michelin bókina við hönd. Fingurbjörg í Mosfellsdalnum var alveg nóg fyrir mig. Hvernig væri nú að lögleiða bruggið í sveitum landsins og fá þetta vínsmökkunarfólk í heimsókn til okkar til að smakka afraksturinn. Einhver kann að fitja upp á nefið, en er það ekki í raun svo þegar kafað er ofaní tilganginn með þessari vínsmökkun að þá er það alkohólið sem fólk er að sækjast eftir? Það má örugglega finna einhvern fínt yfirskin með bruggsmökkun í sveitum landsins.

föstudagur, 28. september 2007

Gefur þú blóð?

Blóðgjafinn. Eitt af því sem ég hef mikla ánægju af er fara í Blóðbankann og gefa blóð. Þetta er einn af þessum stöðum sem maður heimsækir nokkuð reglulega og fær alltaf hlýjar og ánægjulegar móttökur. Maður finnur það að blóðgjöfin skiptir máli og sé líka svolítið "spes". Eftir blóðtökuna er svo boðið upp á kaffihlaðborð og síðan heldur maður glaður og reifur út í lífið að nýju í þeirri trú að hafa lagt eitthvað gott af mörkum. Í dag gaf ég blóð í 48 skipti. Ég hef lengi haft það sem markmið að gefa blóð a.m.k. 50 sinnum. Nú er að sjá hvort það takist, en hægt er að gefa blóð svona á þriggja mánuða fresti. Ég byrjaði blóðgjöfina fyrst í menntaskóla svo duttu út allmörg ár af ýmsum ástæðum. Blóðgjöf er samfélagsþjónusta í sinni björtustu mynd. Fólk gefur hluta af sjálfu sér til þeirra sem eru hjálparþurfi. Hvort sem það er nýfætt barn, sjúklingur eða slasaður einstaklingur. Enn er ekki búið að finna neinn vökva sem kemur í stað fyrir blóðið. Hvet að lokum alla til að leggja sitt að mörkum. Kveðja.

laugardagur, 22. september 2007

Aftur á laugardegi.

Það er í nógu að snúast þessa dagana þannig að lítið hefur verið párað á þessa síðu. Því má kenna um önnum og að lítill tími gefst til að leika sér í tölvunni. Ég var víst búinn að segja að það væri komið haust svo ég ætla að hlífa ykkur við löngum pistli um þennan árstíma. Ég komst ekki í að veiða lax í eldi í vikunni norður í Laxá í Refasveit en það var skemmtileg reynsla, sem ég upplifði á síðasta ári. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með fréttum þessa vikuna af þessum piltum sem voru teknir viða að smygla eiturlyfjum til landsins. Það verður ekki annað sagt en lögreglunni hafi tekist vel í þessu máli. Magnið sem þessir menn voru að smygla er hreint með ólíkindum og vekur spurningar um það hver sé í raun eftirspurnin eftir dópi hér á landi. Ef eftirspurnin er svona mikil má það ljóst vera að þeir sem nota þetta dóp eru mun fleiri en þeir ógæfu einstaklingar sem gista Vog og aðra staði sem afeitra dópista. Grein eftir Illuga Jökulsson í Blaðinu í dag vekur einmitt máls á þessu. Er það virkilega svo að "venjulegt" fólk í þjóðfélaginu ungt, miðaldra og gamalt notist við svo gríðarlegt magn eiturlyfja. Venjulega þegar maður heyrir af svona smyglmálum og heyrir í talsmönnum Vogs þá leiðir maður hugann að fíklunum sem eru ofurseldir þessum efnum, en að það væri líka Jón og Gunna það hafði ekki hvaflað að mér. Það vekur svo aftur upp þá spurningu á hvaða leið við erum sem þjóð. Erum við að tortýma sjálfum okkur í dópneyslu? Hefur okkur mistekist svona hrapalega í að byggja hér upp gott mannlíf, þrátt fyrir alla efnislegu velmegunina.

laugardagur, 15. september 2007

Kringludagur

Heimsókn í Kringluna. Þegar við vorum á leið inn í Kringluna hittum við Hildu og Valgerði Birnu. Tilefnið var að sjálfsögðu fest á mynd. Það er hrollkallt í borginni þessa dagana. Í dag hefði amma Sirrýjar hún Friðrikka Sigurðardóttir frá Krossi í Mjóafirði orðið 110 ára gömul. Blessuð sé minning hennar.











Baldur og fjölskylda. Þetta var eiginlega fjölskyldufundur hjá okkur. Inni í Kringlu hittum við Baldur og Fjólu bróður Sirrýjar með börnin sín þrjú Emil Draupni, Maríu Glóð og Katrínu Emblu.










Á kaffihúsi. Valgerður Birna er afkvæmi kaffihúsakynslóðarinnar. Hún nýtur þess að skrafa á slíkum stöðum og fá smá bita.












Víðátta veraldarinnar. Vá hvað væri gaman að prufa þessa hringekju.













á hringekjunni.
Draumurinn rættist áður en Valgerður Birna vissi var hún búin að fá eina ferð.













Stígvélin. Auðvitað verður maður að skoða eitthvað spennandi í verslunarferðum.













Mátun. Jú, jú maður verður að máta líka.














Sögustund. Það munar um það að eiga mömmu sem kann að lesa fyrir mann með tilþrifum, enda menntuð leikkona m.m.

miðvikudagur, 12. september 2007

Haustdagar.

Það er víst að haustrigningarnar eru hafnar. Ég átti að vera vestur á Ísafirði í dag og á morgun en það varð ekkert úr því þar sem flugið var fellt niður. Eins gott að ákvörðunin var tekin áður en lagt var af stað. Það er ekkert grín að hanga í flugvél yfir Djúpinu í von og óvon um að það verði lent. Byrjaði vetraræfingar með kórnum í gær. Þessi fyrsta æfing lofar góðu um framhaldið. Við erum búin að fá nýjan stjórnanda. Hann heitir Friðrik Vignir Stefánsson og er hann með annað æfingaprógram og ný lög. Nú svo er maður byrjaður í leikfimi með Gautunu. Þannig að vetraráhugamálin eru hafin að fullu. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

laugardagur, 8. september 2007

Smekklaus auglýsing.

Hún hefur verið fyrirferðamikil umræðan um auglýsingu Símans á þriðju kynslóð farsíma. Eins og alltaf skiptist fólk í tvo hópa, þá sem finnst þetta í lagi og þá sem telja þetta ekki í lagi. Í stuttu máli finnst mér þessi auglýsing skrumskæling og vanvirða á heilagri athöfn, sakramenti Krists sjálfs. Athöfn sem Leonardo da Vinci lýsti svo eftirminnilega í frægu málverki, mynd sem í aldir hefur verið ein þekktasta helgimynd kristindómsins. Auðvitað er auglýsingin meiðandi skrumskæling á helgum atburði. Hvað gengur Símanum til að ryðjast inn á þetta svið í þeim eina tilgangi að auglýsa símtæki? Getur það verið að þeir sem fara með markaðsmál Símans telji þetta enn við hæfi í ljósi umræðunnar? Auglýsingin muni leiða til mikillar sölu á þessum símum? Ég á erfitt með að trúa því. Líklegra er að þeir sem fara með markaðsmál fyrirtækisins hafi verið sofandi á verðinum þegar hugmyndin var kynnt og því hafi farið sem fór. Nú er aðeins spurningin hvað Síminn þarf langan tíma til þess að átta sig á þessum mistökum í gerð auglýsingar. Hversu lengi þeir telji sig þurfa að kosta birtingu hennar áfram til þess að geta gengið uppréttir frá þessu máli. Ég hef vissa samúð með hugmyndasmið auglýsingarinnar. Við lestur pistla hans m.a. í Fréttablaðinu hefur ekki farið á milli mála að þar fer leitandi maður. Hann hlýtur að sjá mistök sín, þótt málið sé ekki lengur í höndum hans. Skilin milli fyndni og smekkleysu hefur honum að mínu mati yfirsést að þessu sinni.

sunnudagur, 2. september 2007

Helgarbíltúrinn

Við Hvaleyrarvatn. Þetta var svo flott mótív að ég stóðst ekki mátið. Flott hvernig skýin speglast í rennisléttu vatninu. Gengum í kringum vatnið það tekur svo hálftíma. Annars er það helst í fréttum að Sirrý og Unnur Sveinsdóttir áttu afmæli í gær.








Krýsuvíkurkirkja. Síðan lá leiðin fram með Krýsuvíkurvatni, goshverasvæðinu þar rétt hjá, framhjá Grænavatni og við áðum hjá Krýsuvíkurkirkju. Krýsuvík með "y" eins og stóð á nafnskilti hjá kirkjunni. Þetta er notanleg kirkja og segir að hún sé eins og dæmigerð sveitarkirkja frá ofanverðri 19.öld. Við skoðuðum inn í kirkjuna. Þar er altaristafla eftir Svein Björnsson listmálara og hvílir hann í kirkjugarðinum. Annars er þetta er mjög skemmtilegur aksturshringur og margt skemmtileg að sjá. Örugglega áhugavert fyrir erlenda ferðamenn að fara þennan rúnt. Fjölda fólks sáum við í berjum á leiðinni.


Við Grindavíkurhöfn. Við komum við í Grindavík og tókum einn hafnarrúnt. Það fer ekki milli mála að Grindavík er höfuðútgerðarstaður Suðurnesja. Hér má sjá Hrafn Sveinbjarnarson GK í höfninni áður Snæfell EA frá Hrísey. Kveðja.

föstudagur, 31. ágúst 2007

Eftir vinnu á föstudegi.

Lokaspölurinn á Nýbýlavegi. Það er alltaf eins á heimleiðinni í föstudagstraffíkinni sem byrjar svona upp úr þrjú og stendur fram undir sex. Dundaði við að taka nokkrar myndir fyrir þá lesendur sem hugsanlega sjá stórborgarlífið í hillingum og lausn allra sinna mála. Það þýðir víst ekki annað en hafa góðan skammt af þolinmæði í borgartraffíkinni. Hér er komið að lok heimferðinnar sem er alls um 6 km og tekur um 30 til 40 mínútur eftir vinnu. Var á ráðstefnu í gær á vegum RSE Rannsóknarstofu í efnahagsmálum þar sem menn voru m.a. að velta fyrir sér af hverju fólkið flyktist til höfuðborgarsvæðisins. Það er að stórum hluta til út af fjölbreyttara atvinnuframboði og breyttum atvinnuháttum þ.e. færri starfa við sjávarútveg og landbúnað. Umferðaröngþveiti er allavega nokkuð sem fólkið í minni byggarlögum þarf ekki að búa við.

Leiðinlegustu gatnamót í Reykjavík. Jæja, jæja loksins er maður kominn að þessum leiðinlegustu gatnamótum í Reykjavík. Pólitíkusarnir hafa þann sið að benda á hvorn annan þegar það hefur komið upp í umræðunni af hverju sé ekki löngu búið að brúa á þessum gatnamótum. Viðkvæðið er alltaf hið sama: "Ekki benda á mig......" Bíll við bíl og ég er á verri akreininni þar sem umferðin er miklu hægari. Af hverju skyldu öll vegaskilti í Reykjavík vera svona pínulítil að það þarf stækkunargler til þess að geta lesið á þau. Er það vegna þess að við höfum svo góðan tíma að rýna í þau í umferðaröngþveitinu?


Einn trektur í föstudagstaffíkinni. "Rólegur, rólegur nú gildir að halda ró sinni þetta hlýtur að fara greiðast úr þessu....... " Maður reynir að halda ró sinni. En það er ekki laust við að það sé kominn einhver geðveikisglampi í blikið.










Úff hægt mjakast það. Á ég að velja vinstri eða hægri akrein. Auðvitað átti ég að velja vinstri akreinina. Gengur erfiðlega að muna það að búið er að fjölga afreinum á leiðinlegu gatamótunum fyrir þá sem eru vinstra meginn.









Hægt gengur það. Kominn fram hjá ljósum númer þrjú. Engin ástæða til að kvarta. Nú eru bara þrjú ljós og leiðinleg gatnamót eftir. Hver skyldi vera með umboð fyrir uferðarljós í Reykjavík? Það hlýtur að vera auðugur maður miðað við fjölda þeirra. Ætti kannski að hringja í einhvern til að stytta mér stundina. Nja, best að taka aðra mynd. Rigning er nú ekki til að létta manni lundina í þessari vélhesta röð á 5 km á klukkustund með tíðum stoppum inn á milli. Hvert voru það nú aftur sem aurarnir í Miklubrautargatnamótin leiðinlegu fóru? Best að vera ekki með neikvæðar hugsanir af þessu taki svona í upphafi biðraðarinnar.

Best að vera rólegur. Jæja nú gildir það að vera sallarólegur á þessum kafla og láta ekki umferðarteppuna fara í taugarnar á sér. Þetta "bara" er svona á föstudagseftirmiðdögum. Best að taka nokkrar myndir til þess að deila með sér upplifuninni af því að vera á leiðinni heim til sín í föstudagsumferðinni. Hvaða ráð skyldi nú Umferðarstofa hafa á takteinum fyrir mann á þessari stundu? Best að slökkva á útvarpinu. Ég þoli ekki hlátrasköll og aulabrandara síbyljunnar akkúrat núna.

mánudagur, 27. ágúst 2007

Gengið á Strandarkirkju.

Gönguhópur og aðstoðarfólk við Strandarkirkju. Við lögðum að stað frá Bláfjallaafleggjaranum rúmlega 12.00 og vorum komin niður af skaganum kl. 17.15. Ég man ekki hversu oft ég hef gengið með Helga og fjölskyldu á Strandarkirkju en þau skipti eru örugglega farin að nálgast tuttugu.








Útsýni til Strandarkirkju. Veðrið alla leið var mjög gott og útsýni til allra átta. Maður fyltist léttleika þegar maður sá fyrir endalok ferðarinnar. Erfiðasti hluti leiðarinnar er leiðin upp Grindarskörð og svo er náttúrulega farið að taka í þegar maður gengur niður af skaganum.










Þreyttur göngumaður.
Þessi mynd var tekin upp á skaganum þegar kappinn var búinn að ganga í fjóra tíma. Þegar þarna er komið er maður búinn að ganga í gegnum þó nokkuð hraunsvæði. Þá tekur við þetta mosavaxna svæði, sem er betra að fara yfir.









Höfuðborgarsvæðið séð frá Grindarskörðum. Stórkostlegt útsýni þegar komið er upp skarðið. Það tekur rúman klukkutíma að ganga frá Bláfjallaveginum og upp á skarðsbrúnina.



laugardagur, 25. ágúst 2007

Á laugardegi.

Valgerður Birna. Hér er hún að kveðja Höllu ömmusystur sína sem kom í heimsókn gagngert til þess að heilsa upp á frænku sína. Hingað komu líka í heimsókn Björn og hundurinn Sunna, Í för með Valgerði var Magnús faðir hennar. Síðar litu hér við Sigurður og Vélaug og í för með þeim var önnur stórfrænka, Bryndís dóttir Gunnars Arnar bróður Sirrýjar. Því miður var myndavélin batteríislaus þannig að ekki náðist að mynda Bryndísi. Við höfum verið heimavið í dag. Sló blettinn og týndi svolítið af rifsberjum og svo vorum við í sultugerð. Á morgun stendur til að ganga á Strandakirkju. Farið verður upp hjá Grindarskörðum og komið niður hjá Hlíðarvatni. Síðasti spölurinn verður farin í bílum að kirkjunni eins og jafnan áður. Þeir sem vilja slást í för með okkur eru velkomnir og eiga þá að mæta við vörðurnar sem liggja upp frá Bláfjallaveginum. Áætlað er að leggja af stað kl. 12.00. Gangan er um 18 km og tekur á milli 4 og 5 tíma eftir veðri. Það svona sló mig þegar ég hripaði niður þessar línur að heimsóknir mínar í kirkjur það sem af er þessu ári eru orðnar margar. Ætli þær séu ekki farnar að nálagst tuttugu kirkjurnar sem ég hef heimsótt á síðastliðnum mánuðum bæði hér innanlands og erlendis. Þessar heimsóknir voru af ýmsu tilefni s.s. vegna helgiathafna og skírna barnabarna, útskriftar dóttur, forvitni s.s. á Mallorka og í Pétursborg í Rússlandi, heimsóknir í kirkjur helgaðar Maríu Magdalenu bæði í Frakklandi og Majorka. Nú síðsast til að vera viðstaddur biskupsvísitasíu í Grafarkirkju og á morgun ganga á Strandakirkju. Það er uppbyggilegt og holt að eiga helgistundir í kirkjum hvert svo sem ferðinni er heitið. Kveðja.

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Vísitasía biskups í Grafarkirkju.

Biskup í predikunarstól. Fór sem bílstjóri og fylgdarmaður sr. Hjartar og Unnar í Grafarkirkju í Skaftártungu til þess að taka þátt í Vísitasíumessu biskups Íslands í kirkjunni. Tilgangurinn var að hitta fyrrum sóknarbörn og kirkjustarfsmenn í sókn sr. Hjartar, en hann þjónaði í þessari kirkju frá 1990 til 1996. Hér má sjá biskup í predikunarstól Grafarkirkju og til hægri er altaristaflan. Það fer vel að hafa hana á myndinni því hann lagði m.a. út af henni. Biskup gat þess m.a. um hversu vel kirkjunni og kirkjugarðinum væri við haldið og velti upp ýmsum spurningum varðandi trúarlíf kristinna manna.

Biskup, prófastur, sóknarprestur og sóknarnefndin. Tók þessa mynd af embættismönnum kirkjunnar eftir messuna þar sem þeir stilltu sér upp fyrir ljósmyndara. Sóknarnefndarformanninum Halldóri í Ytri Ásum er sýnilega létt eftir góða athöfn í kirkjunni. Eftir messu var boðið upp á kirkjukaffi í félagsheimili Skaftártungumanna, Tunguseli. Það var gaman að hitta fólk í sókninni sem maður hafði ekki séð í mörg ár.






Sóknarnefndarformaðurinn og sr. Hjörtur. Hér stinga þeir saman nefjum félagarnir sr. Hjörtur og Halldór stórbóndi og sóknarnefndar-formaður. Það gékk erfiðlega að fá þá til þess að stilla sér upp fyrir hefðbundna myndatöku, þannig að þessi mynd verður að duga. Það er alltaf sami galsinn í þessum þjónum kirkjunnar þegar þeir hittast. Samband sem myndast milli manna sem unnið hafa mikið og vel saman. Þar að auki góðir grannar á árum áður.





Flaggað í fulla. Gaman að sjá að flaggstöngin góða sem þær systur Halla og Sigrún, dætur Valdimars í Hemru gáfu kirkjunni í minningu Jóns Einarssonar hreppstjóra, dannebrogmanns og afa þeirra kemur að góðum notum. Sól og mjög gott veður í Tungunni þennan dag. Veðrið á leiðinni var hinsvegar fremur leiðinlegt rok og rigning.








Foreldrarnir. Áður en haldið var til messu var komið við í Göggubústað sem er nálægt kirkjunni. Þar var helt upp á könnuna og snæddur hádegisverður áður en haldið var til messu. Allt var í stakasta lagi í bústaðnum.