laugardagur, 20. október 2007

,,Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar"

Við sátum á bekk í almenningsgarði í nágrenni við heimili hans. Þögðum báðir og nutum sólskinsins þennan sumardag. Í fjarska gat að líta drungalega rauðbrúna byggingu. Þetta var pappírsverksmiðjan sem hann sagðist hafa unnið við alla sína starfsævi við eftirlit með valsavél. Umhverfis bygginguna var há steingirðing. Til þess að komast að henni þurfti að ganga um hlið á miðri girðingunni. Fyrir því var gríðastórt og þunglamalegt járnhlið. Ég ákvað að rjúfa þögnina þarna á bekknum og athuga hvort gamli maðurinn vildi ekki tjá sig um vinnustaðinn og snéri mér að honum. Ég sá að það runnu tár niður kinnar hans. Auðvitað varð mér nokkuð við. Ég spurði hann svona til þess að rjúfa þögnina hvort eitthvað amaði að.
Eftir nokkra stund rauf hann þögnina og sagði:

"Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar." eða "Hversu oft hef ég ekki gengið í gegnum þetta hlið."

"Saknarðu vinnunar?" spurði ég til að segja eitthvað.

"Nei",svaraði hann eftir stutta þögn.

"Ég vildi aldrei vinna þarna. Ætlaði í siglingar."

Hann náði sér fljótt og tárin hættu að renna.

"Af hverju fórstu ekki í siglingar Gunnar? Var ekki nóg af skipsrúmum í Gautaborg?"

"Jú, jú það var hægt að fá skipsrúm, en faðir minn réði mér frá því. Hann taldi betra fyrir mig að fara til starfa í verksmiðjunni og ég fylgdi þessum ráðum."

"En hugur minn stóð til siglinga um öll heimsins höf, en það átti ekki að verða."

Gat það verið að hann hafi eytt allri starfsævi sinni í vinnu við eitthvað, sem hann gat ekki hugsað sér? Það hafði ekki hvarflað að mér áður að maður gæti átt það fyrir höndum. Allt mitt líf fram til þessa hafði farið í undirbúning undir þátttöku á vinnumarkaðnum. Hvað ef ég myndi svo lenda í sömu aðstöðu og Gunnar?
Þetta samtal okkar átti sér stað þegar við vorum búnir að þekkjast nokkrar vikur. Uppgjör gamla mannsins við lífið þarna á bekknum hafði gríðarleg áhrif á mig. Þessi eina setning: "Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar." Það hafði aldrei fram til þessa hvarflað að mér fyrr að fólk starfaði heila mannsævi við eitthvað sem það hafði aldrei viljað. Þetta er gömul reynslusaga frá starfi við heimilishjálpina í Möndal í Svíþjóð 1979. Gunnar var einn af skjólstæðingunum mínum.

Engin ummæli: