þriðjudagur, 16. október 2007

Mýs og menn.

Mýs og menn. Það er vinsælt að spyrja fólk við ýmis tækifæri hvað sé eftirminnilegasta bókin sem það hafi lesið. Ég velti þessari spurningu fyrir mér í dag og komst að þeirri niðurstöðu að eftirminnilegasta sagan sem ég hef heyrt væri saga John Steinbecks, Mýs og menn. Ég hef aldrei lesið hana sjálfur en hlustað á hana í upplestri fyrrum kennara míns í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Þetta hefur líklega verið veturinn 1966 og 1967 og lesturinn átti sér stað þegar við áttum nestistíma. Upplesarinn var Einar Bragi(1921-2005)rithöfundur. Hann las bókina með þvílíkum tilþrifum að sagan hefur alla tíð setið föst í minni mínu. Sagan gerist í Kreppunni miklu í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar. Hún segir í stuttu máli frá tveimur félögum George og Lennie. George er lítill,kvikk og hæðinn en Lennie er stór og vitgrannur. Þá dreymir um eigið býli og George reynir að halda Lennie frá vandræðum með því að minna hann á að hann fái ekki að hafa kanínur, ef hann haldi sig ekki frá vandræðum. Þetta er sorgarsaga en jafnframt er í henni húmor sem Einar Bragi kom frábærlega til skila í upplestri sínum. Túlkun hans á þeim félögum tveimur er ógleymanleg, sérstaklega hvernig hann gerði Lennie lifandi í upplestri sínum. Ég hélt lengi vel að Einar hefði þýtt bókina en við eftirgrennslan í Gegni, gagnasafni Landsbókasafnsins kemur fram að Ólafur Jóhann Sigurðsson (1918-1998) hafi þýtt þessa bók. Vel má vera að þessi saga hafi beint sjónum mínum að framtíðar starfsvettvangi mínum, hagfræðinni. Allavega hefur áhugi minni á því efnahagslega umhverfi sem Kreppan mikla skapaði fólki verið mikill. Svona geta áhrif kennara verið mikil á nemendur. Einar Bragi réðst í það stórvirki á 9.áratug síðustu aldar að þýða leikrit Henriks Ibsens og August Strindbergs. Ég keypti bæði þessi verk af honum ekki síst í þakklætisskyni fyrir upplesturinn þarna um árið í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Nú að sjálfsögðu líka vegna þess að það er hverju heimili nauðsynlegt að eiga helstu bókmenntaperlur Norðurlanda. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: