laugardagur, 31. desember 2011

Gleðilegt ár!

Rétt til að segja gleðilegt ár. Takk fyrir gömlu árin. Höfum það fínt hér í Kristianstad.
Kveðja.

föstudagur, 30. desember 2011

Köbenhavn - Hässleholm

Í dag fórum við til Kaupmannahafnar í dagsferð. Áttum góðan eftirmiðdag í höfuðborginni og röltum Strikið í mannmergðinni. Enduðum í Magazin og borðuðum þar. Ótrúlegur fjöldi var í miðbænum og heyrði í Dana sem undraðist mjög hvaðan allt þetta fólk væri komið. Þessi næstsíðasti dagur ársins hefur runnið ljúflega og engu við það að bæta.

fimmtudagur, 29. desember 2011

Hässleholm og nágrenni.

Við flugum utan með Iceland Express í gærmorgun. Þeir voru á tíma og eru nú með í leigu nýjar Airbus vélar. Kristian, Linda og Wilma voru með okkur suður á Keflavíkurflugvöll og voru í sömu vél út. Þau höfðu klukkutíma til að koma sér í vélina til Gautaborgar þ.e. tékka sig út og inn á Kastrup. Það tókst allt saman en mátti ekki tæpara standa. Við vorum komin til Hässleholm kl. 15.00. Lestarferðin tók innan við klukkutíma. Eftir viðkomu á Vallgatan fórum við til Kristianstad og vorum þar fram eftir kvöldi í góðu yfirlæti hjá Hirti og Ingibjörgu. Tókum "Pågatoget" fram og til baka en það tekur um 18 mínútur að fara á milli þessara tveggja bæja. Hér í Hässleholm er öll þjónusta við hendina. Bæði sérvöruverslanir, stórmarkaðir, veitingahús og kaffihús. Þannig að það þarf ekki að sækja þá þjónustu annað. Það tekur rúman klukkutíma í lest til Kaupmannahafnar og kostar ferðin ca 150 SEK. Svo eru hér bæir eins og Lundur, Kristianstad og Malmö. Við höfum verið að setja upp ljós og passa strákana þá Svein Hjört og Jóhannes Erni í dag. Þeir gista hjá okkur í nótt. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem kappparnir eru ekki yfir nótt með mömmu og pabba.Við höfum átt hér glaða stund með þessum fjörugu piltum.

mánudagur, 26. desember 2011

Á jólum.

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár.

mánudagur, 14. nóvember 2011

Æfingabúðir í Borgarnesi

Við í Söngfélagi Skaftfellinga fórum í æfingabúðir í Borgarnes um síðustu helgi. Æft var á laugardeginum frá því kl. 13.00 til 17.00 í Tónlistarskólanum í Borgarnesi, sem áður var apótekið á staðnum. Borðað var á "Bed and breakfast" í fyrrum kaupfélagsstjórahúsinu, glæsilegu húsi frá stórveldistíma Kaupfélags Borgnesinga. Við vorum flest sem gistum þar sem áður voru bæjarskrifstofurnar. Á sunnudeginum var æfingum framhaldið til hádegis og nú í kaupfélagsstjórahúsinu. Af framansögðu má ráða að margar byggingar í bænum hafa fengið nýtt hlutverk í ferðamannaþjónustu vegna breyttra áherslna í atvinnumálum. Borgarnes er hægt og bítandi að verða sannkallaður ferðamannastaður. Enda er bæjarstæðið og umhverfið eitt það fegursta og tilkomumesta á landinu. Á laugardagskvöldinu var efnt til kvöldverðarhófs og tókst það eins og best verður á kostið.

föstudagur, 21. október 2011

Bernskuminningar úr Kópavogi.

Kópavogsblaðið 20.10.2011
,,Fyrsti kennarinn minn var fallegasta kennslukonan á öllu landinu!”
Haustið er tími eftirvæntingar ekki síður en sumarið. Það er breyting í loftinu, þriðju árstíðarskiptin. Leikfélagar bernskuáranna sem fóru í sveitina komnir til baka. Endurfundir voru ánægjulegir og síðkvöldin úti við á haustin eftirminnileg í leikjum og einstaka prakkarastrikum. Skólinn hóf göngu sína að nýju um þetta leyti. Við vorum spennt að sjá hvort eða hvaða breytingar yrðu í bekknum, hvort sömu bekkjafélagar yrðu áfram, nýir kæmu í bekkinn eða hvort við yrðum með sama kennara.
Stundum voru breytingar. Góðir skólafélagar fluttu í önnur byggðalög og jafnvel til útlanda. Eftirminnilegasta breytingin var þegar fyrsti kennarinn minn og sú sem kenndi okkur lengst af í E – bekknum í Barnaskóla Kópavogs fór í barneignafrí. Hún hét Helga Sigurjónsdóttir, fallegasta kennslukona á öllu landinu, það fannst mér allavega. Helga varð síðar kunn sem stjórnmálamaður, baráttukona fyrir kvenréttindum og mikilsmetinn skólamaður. Hún lést í byrjun þessa árs. Það var erfitt að sjá að baki Helgu í barneignafríum. Á bekkjarmyndinni er yfirkennari skólans Óli Kr. Jónsson í stað hennar en hann var umsjónarkennari okkar í 12 – E síðasta veturinn.


12 ára bekkur E.
12 ára E í Barnaskóla Kópavogs 1965. Fremsta röð frá vinstri: Guðný Björgvinsdóttir, Halldóra Guðmundsdóttir, Una Elefsen (látin), Helga Austmann Jóhannsdóttir, Sigrún Hilmarsdóttir, Kristbjörg Sigurnýjasdóttir, Ástríður Kristinsdóttir, Ingibjörg Garðarsdóttir, Ingibjörg S Karlsdóttir. Önnur röð frá vinstri: Björgvin Vilhjálmsson, Lárus Már Björnsson (látinn), Hrafnhildur Jósefsdóttir, Gerður Einarsdóttir, Heiðrún Hansdóttir, Ragnheiður Lára Guðjónsdóttir, Jóna Ingvarsdóttir, Gerður Elín Hjámarsdóttir, Helgi Sigurðsson, Húgó Rasmus og umsjónarkennarinn, Óli Kr. Jónsson í tólf ára bekk. Þriðja röð frá vinstri: Páll Einarsson, Gylfi Norðdahl, Páll Ragnar Sveinsson, Þorsteinn Baldursson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Hjörtur Pálsson, Yngvi Þór Loftsson, Jón Halldór Hannesson (látinn), Atli Sigurðsson og Óli Jóhann Pálmason (látinn).
Við Esju rætur.
Við rætur Esju sumarið 1965, mynd tekin af föðurbróður mínum Finnbirni Hjartarsyni prentsmiðjustjóra, en hann og eiginkona hans Helga Guðmundsdóttir bjuggu fyrstu búskaparár sín í Kópavogi. Fyrst í húsi foreldra minna við Víðihvamm og síðar í Austurgerði í vesturbæ Kópavogs. Á myndinni erum við þrjú frændsystkinin af fimm börnum Finnbjörns og Helgu og þrjú af fjórum systkinum frá vinstri til hægri: Guðmundur Helgi Finnbjarnarson, Guðrún Finnbjarnardóttir, Þórunn Ingibjörg Hjartardóttir, Oddur Kristján Finnbjarnarson, Axel Garðar Hjartarson og ég, Sveinn Hjörtur. Tilefni ferðarinnar var bíltúr í nýja (gamla) Willis-jeppanum sem Finnbjörn hafði keypt. Bíltúrinn var upp að Esju þar sem við áttum góðan dagpart við klifur í klettabelti Esjunnar. Slíkar ferðir út fyrir Kópavoginn voru ekki tíðar á þessum árum og því afar eftirminnilegar.
Útskrift Valdimars.

Við brautskráningu sonarins sem lögfræðings frá Háskóla Íslands 16. júní 2007. Við foreldrarnir Sigurveig H. Sigurðardóttir, Sveinn Hjörtur Hjartarson og sonurinn Valdimar Gunnar Hjartarson.


Færðum kennaranum jólagjöf
Í bók sinni ,,Sveitin mín - Kópavogur” minnist Helga þess með hlýhug þegar við fjögur sem skipuð voru af bekknum til þess að heimsækja hana komum og færðum henni jólagjöf árið 1962. Við gáfum henni ljóðabókina ,,Heiðnuvötn” eftir Þorstein Valdimarsson skáld. Helga segir svo frá: „Ég var afskaplega upp með mér þegar fjórir nemendur mínir í Kópavogsskóla færðu mér bókina að gjöf um jólin 1962. Eftirfarandi skráði Þorsteinn í bókina:
,,Kverinu þykir heldur heiður
að hýsa jólagleðina;
Yngvi, Hjörtur, Húgó, Eiður
og Helga rekur lestina.
Yngvi er að sjálfsögðu sonur Guðrúnar [Þorsteinn Valdimarsson skáld var náfrændi Guðrúnar móður Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts], Sveinn Hjörtur er Hjartarson og hann er hagfræðingur. Húgó Rasmus er kennari í Kópavogi. Eiður heitir fullu nafni Eiður Örn og er Eiðsson. Hann er matreiðslumaður og rekur ásamt konu sinni Hótel Framnes í Grundarfirði.“ (Helga Sigurjónsdóttir, 2002 bls. 86). Í minningu minni vorum við hinsvegar fimm og Helga sem rekur lestina muni vera bekkjasystir okkar Helga Austmann Jóhannsdóttir.

Við fengum aðra Helgu kennslukonu en hún var ekki Helga mín. Það átti eftir að skila sér í heimsókn til skólastjórans Frímanns Jónassonar, sem leiddi þó ekki til tiltals. Sr. Gunnar Árnason, sem síðar fermdi okkur mörg hver var í heimsókn hjá honum og enginn tími til að hirta unga skólasveina. Þetta stirða samband okkar batnaði ekki við það að hún rak okkur tvo félagana síðar heim. Að vísu höfðum við Hjörtur Árnason, nú hótelhaldari í Borgarnesi, líklega unnið til þess. Hentum skólatöskum í hvor annan og ein þeirra lenti óvart á skólasystur okkar.

Endurfundir á Facebook
Margir voru í bekknum allt frá fyrstu tíð þar til við fórum yfir í Gagnfræðaskóla Kópavogs, bygging sem nú hýsir Menntaskólann í Kópavogi. Að loknu barnaskólanámi skildu leiðir en nokkrum hefur maður fylgst með gegnum lífið, mismikið þó. Það hefur auðveldað upprifjun þessara endurminninga að á Facebook-síðunni höfum við nokkur hist og rifjað upp minningar og nöfn fyrrum skólafélaga. Þannig auðveldar ný samskiptatækni t.d. endurfundi gamalla bekkjasystkina. Skólaferðalagið í lok tólf ára bekkjar var austur að Skógum og þótti mikið ferðalag á þessum árum.

fimmtudagur, 20. október 2011

Umhverfið mótar manninn.

Finnbjörn Hjartarson. Föðurbróðir minn hefði orðið 74 ára í gær.

Umhverfið mótar manninn, sagði Finnbjörn föðurbróðir minn síðast þegar við hittumst. Það var rétt viku fyrir andlátið. Hann bauð okkur í hádegisverð á sunnudegi enda orðið of langt síðan við höfðum hist. Við vorum meðal annars að ræða um land og þjóð, náttúruna, lífsbaráttuna og síðast en ekki síst Vestfirði og Ísafjörð. Þá barst talið að mynd sem hann hafði fengið listmálara til þess að mála af föður sínum í vestfirsku umhverfi. Framansögð ummæli frænda míns voru einmitt þema málverksins og eiga svo vel við hann.

Fyrir mér er þetta vestfirska umhverfi frekar framandi, þótt ættir eigi að rekja til þessa fjarlæga landshluta, en í sálu hans var þetta sá staður, þar sem ræturnar lágu og hann fékk aukna lífsfyllingu við það eitt að tala um.

Ferðirnar vestur voru margar á ári oft með litlum fyrirvara. Æskustöðvarnar toguðu og ekki spillti fyrir að hann hafði nú eignast jörð í Mjóafirði, sem hann og Helga höfðu áform um reisa sumarbústað á. Ég hafði fært honum litla ljósmynd af nýjasta skipi þeirra Vestfirðinga, Guðbjörgu ÍS, sem nú hangir uppi á vegg í stækkuðu formi.

Bubbi safnaði ýmsum nýjum og gömlum munum sem minntu á sögu þjóðarinnar, svo sem líkönum af gömlum árabátum. Hann hafði ánægju af málverkum og keypti gjarnan verk listamanna, sem með verkum sínum höfðuðu til hans þótt þeir færu lítt troðnar slóðir og fáum væru kunnar. Ég hef grun um að þessi áhugi hans hafi ekki síður verið vegna ánægjunnar af að umgangast listamenn.

Ræktarsemin við gömlu átthagana, frændfólk og vini var honum í blóð borin. Hann hafði gaman af að hitta fólkið sitt og lagði mikið upp úr því að rækta frændsemina og hafði frumkvæði að heimsóknum í þeim tilgangi ­ nokkuð sem fleiri mættu taka til eftirbreytni. Hann hafði yndi af að gleðja aðra með sínum sérstæða hætti og var mikið í mun að hjálpa. Það var gert af hispursleysi, velvilja og hlýju og það voru ekki höfð um það mörg orð ­ verkin látin tala. Stutt var í brosið og glensið, en undir niðri bjó alvara hins leitandi manns að æðri gildum lífsins í trú, leik og starfi.

Ég veit að leit hans hafði borið ríkulegan ávöxt. Bubbi og Helga voru ávallt mjög samrýnd hjón og miklir félagar. Þau störfuðu saman við fjölskyldufyrirtækið Hagprent hf. ásamt tveimur af fimm börnum sínum og tengdadóttur. Brátt og ótímabært fráfall hans er sársaukafullt og setur mikil spor á líf fjölskyldunnar svo og ættingja og vina, en eigi má sköpum renna.

Í minningunni geymum við svipmót Bubba frænda. Æskuminningar, mörg gamlárskvöld í Víðihvamminum þegar brugðið var á leik með eftirminnilegum hætti. Þúsundkallinn í tyggjóbréfinu til þess að létta dapra stund í lífi unglingsins og dýrmætar samverustundir á seinni árum með svipuðum hætti og hér hefur verið lýst.

Við þökkum honum fyrir allt og biðjum Guð að blessa hann og veita Helgu og frændsystkinum, Jensínu ömmu, systkinum hans og fjölskyldunni allri styrk til þess að horfa ótrauð fram á veginn. Blessuð sé minning hans.

Mbl. Miðvikudaginn 23. nóvember, 1994 - Minning


Sveinn Hjörtur Hjartarson.

föstudagur, 7. október 2011

Ferð til Frakklands og Svíþjóðar

Auxerre
Síðustu viku höfum við Sirrý verið á ferð í Frakklandi og Svíþjóð. Í Frakklandi gistum við nokkrar nætur hjá vinum okkar, Helga og Ingunni í Commessey í Búrgundí. Þetta litla þorp er rétt hjá bænum Tonnerre og ekki langt frá Chablis, sem er þekkt fyrir hvítvínsframleiðslu. Miðvikudaginn 5. október fórum við til Kristianstad í Svíþjóð og höfum átt hér góða daga. Tíðin hefur verið afar góð bæði í Frakklandi og Svíþjóð. En í Frakklandi fór hitinn upp í 30°C á daginn og var heiðskírt alla dagana. Veðrið hér í Svíþjóð hefur verið sæmilegt, enda komið fram í október og ekki við örðu að búast. Í gær fórum við til Hässlehólm og vorum aðeins að ganga frá í íbúðinni og gera hana klára. Þetta er snotur íbúð, gömul en það er búið að taka hana mikið í gegn. Íbúðin er steinsnar frá brautarstöðinni og í rólegu hverfi og snyrtilegu. Það ætti að vera hægt að skrifa lærðar ritgerðir á þessum stað, ef vel tekst til. Meira um það síðar... Kveðja.

sunnudagur, 11. september 2011

Ferð um Reykjanes

Fjörupollur. Á laugardaginn fórum við félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs í dagsferð um Suðurnes. Farið var frá Smáralind kl. 10.00 og keyrt í kapellu heilagrar Barböru við álverið. Þaðan var keyrt í Krísuvík og keyrður vegaslóði að Vigdísarvöllum. Þar var áð og borðað áður en lengra var haldið. Keyrt var í Grindavík og Sandgerði og snæddur kvöldverður í Duushúsi í Reykjanesbæ. Oft var stoppað á leiðinni og skoðuð ýmis kennileyti enda höfðum við með okkur leiðsögumann sem þekkti svæðið eins og lófann á sér. Ferðin tókst í alla staði vel og var hin skemmtilegasta.

sunnudagur, 28. ágúst 2011

Gengið á Strandarkirkju

Við gengum fjórtán á Strandarkirkju í gær. Gangan hófst upp úr níu úr Bláfjöllum. Þaðan gengum við í stefnu á göngugötuna sem liggur úr Grindarskörðum. Veður til göngu var gott þótt hitastigið væri aðeins 4°C þegar við hófum gönguna. Fremur svalt var alla leiðina, þar sem lengst af var fremur skýað. Við vorum komin niður að Hlíðarvatni upp úr klukkan tvö en þar beið okkar rúta sem skutlaði okkur aftur í Bláfjöll með viðkomu í Strandarkirkju. Þar var stutt minningarstund afkomenda Sigurðar Helgasonar hrl. og sýslumanns en hann hefði orðið áttatíu ára gamall þennan dag. Blessuð sé minning hans. Um kvöldið var okkur svo boðið í veislu í tilefni dagsins. Ég hef ekki tölu á þeim fjölda ganga sem ég hef gengið undanfarna áratugi á Strandarkirkju. Þær telja örugglega á annan tuginn jafnvel fleiri.

sunnudagur, 21. ágúst 2011

Menningarnótt 2011

Borgarstjórinn og índíanarnir. Menningarnótt 2011 eða menningardagurinn 2011 tókst með ágætum. Tugir þúsunda röltu um miðborgina frá morgni til kvölds í leit að menningu. Veðrið var aldeilis til þess fallið. Brakandi sólskin allan liðlangan daginn. Reykjavíkurmarathonið setti svip sinn á borgina fyrri part dagsins. Um kvöldið voru það útitónleikar og ljósasýning Hörpunnar sem flestir fylgdust með. Þessi síðsumardagur er orðin n.k. þjóðhátíðardagur þar sem fjöldinn röltir um og sýnir sig og skoðar aðra. Maður er manns gaman ætli það lýsi ekki best þessum degi. Við kíktum aðeins á Latabæjarhlaupið og svo litum við inn í Ráðhúsið og horfðum á úlfadans indíanahóps frá Seattle í USA. Um kvöldið hittum við vini okkar Helga, Ingunni og Ingibjörgu og röltum með þeim um bæinn fram undir miðnætti. Eftir flotta flugeldasýningu var svo haldi heim á leið.

sunnudagur, 14. ágúst 2011

Góð helgi að baki.

Við Sirrý fórum austur í Skaftártungu um helgina ásamt Lilju, dóttur Valdimars, Valdimar og Sigrúnu Huld. Við keyrðum austur um Þjórsárdal og fórum inn á Landmannaafrétt hjá Hrauneyjarfossvirkjun. Þangað er olíuborinn vegur og aðeins 26 km í Landmannalaugar á malarslóða. Í Landmannalaugum heimsóttum við Geimskutluna og Olgeir eiganda hennar. Keyptum okkur kaffi og klatta og nutum stundarinnar. Mikið var þarna af erlendum gestum eins og oftast áður á þessum tíma. Mikið moldryk var á afréttinum sem náði niður í byggðir. Síðan lá leiðin í Skaftártungu en þangað eru 56 km á malarslóða. Komin í Tunguna var grillað og Halla móðursystir Sirrýjar og Örn maður hennar komu í heimsókn. Í dag heimsóttu vinir okkar Ella og Júlli okkur ásamt Kristjáni syni þeirra og barnabörnunum Elinóru og Reginu sem eru lifandi eftirmyndir mæðra sinna. Síðdegis var haldið af stað í bæinn eftir frábæra helgarferð.

fimmtudagur, 28. júlí 2011

Í aðdraganda Verslunarmannahelgar.

Og svo kom Verslunarmannahelgin. Fjölmiðlar, bæði blöð og útvarp æsa upp útilegugenin í fólki. Hvert skal haldið? Maður finnur spennuna vaxa. Hva, á ekki að fara neitt spurningum rignir yfir mann úr öllum áttum. Á vegunum er ekki keyrandi fyrir fólki sem er með fellihýsi, hjólhýsi, tjaldvagna nú eða bara kerrur á leiðinni í sumarbústaðinn. Þetta er síðasta sumarhelgin sem fjöldinn hefur til að njóta sumarsins og leika sér. Sitja í tjaldstól úr Rúmfatalagernum á tjaldsvæðinu með bjórkippu, sitja upp í brekku og kyrja söng, rorra í sumarhúsinu með rauðvínsglas og velta því fyrir sér hvað nágrannarnir eru að gera akkúrat þá stundina. Grilla á kolum lambakjöt nú eða SS grillpulsur ef verið er að spara. Spara! Ætli olían á bílinn kosti ekki fjörtíu þúsund krónur ef farinn er hringurinn. Hafið þið farið inn á Okurvefinn og séð hvað kaffipakkinn kostar í Freysnesi? Nei líklega er skynsamlegast að vera heima og halda fast utan um budduna sína og láta grannanum eftir fjörið um Verslunarmannahelgina. Góða ferð - sjáumst!

miðvikudagur, 6. júlí 2011

Aðalvík og Hesteyri

Gönguhópurinn fyrir framan Hjálmfríðarból Í gær lauk fimm daga ferð í frábærum hópi Skálmara um Hornstrandir. Dugnaður og æðruleysi þessa samstillta hóps verður lengi í minnum hafður. Ferðin hófst á föstudaginn sl. með því að siglt var frá Bolungavík til Aðalvíkur. Við gistum á Hjálmfríðarbóli í landi Sæbóls. Þaðan var svo farið í gönguferðir og til veiða í Staðarvatni. Auk þess tók hópurinn til hendinni með húsráðendum við ýmis útiverk. Síðasta daginn var gengið frá Aðalvík til Hesteyrar í mjög góðu veðri. Þaðan var svo siglt aftur til Bolungavíkur. Þetta hafa verið frábærir dagar í eins góðu veðri og hugsast getur til útiveru. Náttúra þessa svæðis er stórkostleg. Maður getur átt von á hverju sem er. Hvítabjörnum? Nei við sáum bara álftir. Meira síðar.....

föstudagur, 24. júní 2011

Á miðsumarsnóttu.

Í kvöld er einn mesti hátíðardagur Svía. Það sem þeir kalla "midsommarfesten." Þeir fagna miðsumri ávallt helgina eftir lengstan sólargang þ.e. 21. júní ár hvert. Þetta er almennur frídagur í landinu. Fjölskyldur og vinir eiga samverustund. Setið er í kvöldsólinni og á borðum sænskir sumarréttir, síld, nýjar kartöflur, dill, hrökkbrauð og öl og vín. Þetta er stóra sumarhátíðin. Dansað er í kringum maístöngina og yndislegasta tíma ársins fangað. Værð og friður leggst yfir sumarlandið og það hvílir ró og friður yfir borg og bí. Marga yndislega stundina hefur maður átt á þessum árstíma í Svíþjóð, bæði á námsárunum og svo í heimsóknum síðustu áratugi. Æ, nú langar mig yfir hafið. Sendi því bestu kveðjur.

þriðjudagur, 21. júní 2011

Til hvurs?

Ég var eiginlega búinn að ákveða að hætta með þessa heimasíðu. Lokaði henni í sólarhing en svo opnaði ég hana aftur allavega í bili. En til hvurs að vera pára þetta og senda á vefinn. Í rauninni er tilgangurinn frekar óljós. Ef til vill að minna á sig? Æfa sig í textagerð? Geyma eftirminnilega atburði? Deila fréttum? Í dag var félagi minn að grínast með það að annállinn yrði frægur þegar ég væri dauður. En hver segir að þetta pár verði tiltækt á vefslóðinni um alla framtíð. Það þarf aðeins að ýta á einn takka og þá er það farið í gleymskunnar dá. Ég hef svo sem enga brennandi þrá að vera pára þetta lengur. Það sést best á því hvað innslögum hefur fækkað. En til að gera langa sögu stutta er framtíð annálsins til skoðunar. Þetta samskiptaform er í rauninni stórmerkilegt. Maður getur skrifað hugleiðingar sínar og skilaboð og sent út í umhverfið án þess að tala við kong eða prest. En auðvitað bera orð ábyrgð. Þessvegna er líklega best að segja sem minnst. En svo er í því ögrun að tjá sig svona. Það sem eiginlega stoppaði mig í að hætta var að vefurinn upplýsti mig um að 100 manns lesi reglulega annálinn. Svo má ekki gleyma því að síðan er orðin útrásarsíða. Langflestir sem heimsækja þessa síðu eru í USA. Líklega að lesa þetta með Google translator. En spurningunni sem kastað var fram í upphafi er enn ósvarð: Til hvurs? eins og Skaftfellingar mundu segja það.

föstudagur, 17. júní 2011

Gleðilega þjóðhátið

Í Bankastræti. Við fórum að venju á bæjarröltið í gærkvöldi í tilefni dagsins. Það vakti athygli okkar hversu fáir voru á ferli í miðbænum. Man bara ekki eftir jafn fáum í bænum á 17. júni. Nú er minnst 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar forseta, sem fæddist 17. júní 1811. Sjálfstæðisbaráttan er verkefni sem líkur aldrei. Varðstaða um fullveldið er eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég er sannfærður um að Íslandi farnist best meðan við höldum sjálf um stjórnartauma í landinu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Það er einmitt viðbraðsflyti og snerpa smáþjóðar til að bregðast við aðsteðjandi aðstæðum sem veitir okkur eitt mikilvægasta samkeppnisforskotið gagnvart öðrum stærri þjóðum. Vonandi tekst okkur að halda frelsinu inn í framtíðina. Ef einhver er að velta fyrir sér þeim sem eru með okkur á myndinni þá eru þetta Hjálmar og Anna Gauja börn Hannesar Hjálmarssonar og Höllu Sigrúnar. Hann var að taka mynd af þeim og við smygluðum okkur inn á myndina. Gleðilega þjóðhátíð.

sunnudagur, 12. júní 2011

Eagles tónleikar í Reykjavík.

Frey og Henley. Við Hjörtur Friðrik fórum á Eagles tónleikana í Laugardalshöll á fimmtudaginn var. Þetta var mikil upplifun að loks kynnast þessari stórkostlegu rokkhljómsveit. Það fór ekki milli mála að hér voru músíkjöfrar á ferð. Hver smellurinn á fætur öðrum var leikinn við mikinn fögnuð áheyranda. Áberandi var að karlmenn voru í þó nokkrum meirihluta á þessum tónleikum. Talið er að 10 000 manns hafi verið á tónleikunum. Hljómurinn í nýju höllinni var góður en húsnæðið ræður illa við slíkan fjölda áheyrenda. Loftleysið og hitinn var þrúgandi. Þetta var samt tónlistarveisla sem var hverrar krónu virði.

Sigrún Huld hjúkrunarfræðingur.

Dóttir okkar Sigrún Huld útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands í gær. Það eru viss tímamót þegar yngsta barnaið líkur háskólanámi. Minnir mann á að tíminn flýgur áfram. Við Sirrý mættum á útskriftarhátíð háskólans í Laugardalshöll. Það voru alls 1816 prófskírteini afhent þennan dag. Hákólinn er 100 ára á þessu ári og markaði afmælishátíðin athöfnina. Fyrsta árið voru 45 nemendur í skólanum en í ár voru yfir 14 000 nemendur. Það var gaman að sjá þennan fríða flok útskriftarnema ganga fyrir kennara sína og taka við skírteinum sínum. Hér var svo smá teiti í gær eftir athöfnina. Annállinn óskar Sigrúnu til hamingju með áfangann.

sunnudagur, 5. júní 2011

Á sjómannadaginn

Smáey VE
Óska sjómönnum til hamingju með daginn. Það var ekkert í líkingu við veðurhaminn á þessari mynd veðrið í Skaftártungunni í dag. Við Valdimar Gunnar eyddum deginum við ýmis verkefni við Göggukot í dag ásamt Birni, sem leiddi verkið. Veðrið var yndislegt 15°C hiti og sól lengst af. Allt austur að Hellu var ýmist rigningarsuddi eða skýjað. Við lögðum af stað kl. 8.30 og vorum komnir í bæinn aftur kl. 19.00. Hlustuðum á ræður sem fluttar voru á hafnarbakkanum í útvarpinu og nutum veðurblíðunnar. Umferð var róleg austur í morgun en var þung eftir að komið var að Selfossi á bakaleiðinni.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Húsin voru full af börnum

Á æskuslóðum. (Viðtal á finnur.is/mbl)Rætur mínar liggja í Hvömmunum í Kópavogi en þangað fluttist ég aðeins níu mánaða gamall árið 1953. Kópavogur var á þeim tíma að byggjast upp mjög hratt og í bæinn flykktist fólk víða frá, aðallega sakir þess að í bænum fékkst nóg af ódýrum lóðum. Ekki er ofmælt að dæmigerðir Kópavogsbúar þessara tíma hafi verið dugleg ung hjón með fullt hús af börnum,« segir Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ.

Ævintýri við hvert fótmál

Hvammarnir í Kópavogi afmarkast af Reykjanesbraut í vestri og bænum Hlíð í austri, þar sem nú er Digraneskirkja. Að ofan er markalínan við Hlíðaveg og að neðan við Fífuhvamm - sem áður fyrr var reyndar nefndur Fífuhvammsvegur sem lá inn í heiðina þar sem nú eru Smára- og Lindahverfi. Vestast í þessu hverfi eru göturnar Lindarhvammur og Hlíðarhvammur; en við þær standa hús sem á sínum tíma voru mörg byggð af starfsmönnum Sambands íslenskra samvinnufélaga. Fengu þeir þar úthlutaðar lóðir og höfðu með sér ýmsa samvinnu um framkvæmdir. »Milli þessara tveggja gatna er þríhyrndur reitur, Hlíðargarðurinn, sem er fyrsti skrúðgarðurinn í Kópavogi. Þegar ég man fyrst eftir mér voru allar helstu samkomur í bænum, til dæmis 17. júní, haldnar þarna. Og svona var þetta; ævintýrin við hvert fótmál í rauninni. Móinn fyrir neðan Fífuhvammsveginn þar sem nú er íþróttasvæði Breiðbliks var skemmtilegt leiksvæði þar sem við krakkarnir vorum mikið,« segir Sveinn sem ólst upp í Víðihvammi 17. Reyndar hét staðurinn einhverju allt öðru nafni - ef þá nokkru - þegar afi Sveins, Axel Gunnarsson, reisti þar sumarhús á eftirstríðsárunum. Þar fengu foreldrar Sveins, þau Hjörtur Hjartarson prentari og síðar sóknarprestur og Unnur Axelsdóttir inni - og ekki leið á löngu áður en þau hófu þar byggingu myndarlegs íbúðarhúss.

Sungið með Sigfúsi

»Ég hef verið um fjögurra ára þegar við fjölskyldan fluttum inn í húsið, sem er um það bil 60 fermetrar að grunnfleti og er þrjár hæðir, kjallari, hæð og ris. Algengt var að hver hjón væru með fjögur eða fleiri börn og einhverju sinni var því víst fleygt að á þessum uppbyggingarárum hefði meðalaldur í Kópavogi verið um þrettán ár,« segir Sveinn Hjörtur sem minnist margra karla og kvenna sem mótuðu bæjarbraginn á þessum tíma. Nefnir þar Guðmund Benediktsson prentsmiðjustjóra og móðurbróður sinn Gunnar Axelsson, kennara og píanóleikara sem lengi lék fyrir gesti á Hótel Sögu. »Ég kem af miklu tónlistarheimili. Faðir minn söng og móðir mín er góður píanóleikari og milli foreldra minna og Sigfúsar Halldórssonar sem bjó í nálægu húsi var góð vinátta. Sigfús kom oft í heimsókn og spilaði og söng á góðum stundum. Reyndar heyrði ég hann segja að enginn spilaði lögin sín betur en móðir mín. Sigfúsi var margt gott gefið því auk tónlistargáfunnar var hann góður listmálari og einhverju sinni fékk ég mynd að launum frá honum eftir að hafa málað fyrir hann glugga á húsinu, sem hann treysti sér ekki til að mála sakir lofthræðslu. Það þóttu mér fín vinnuskipti. Svo eignaðist ég á þessum tíma góða vini sem hafa fylgt mér í fimmtíu ár, þar á meðal besta vin minn Helga Sigurðsson, krabbameinslækni við Landspítalann og prófessor við Háskóla Íslands. Foreldrar hans eru Sigurður Helgason lögfræðingur sem nú er látinn og Gyða Stefánsdóttir sem bjuggu við um tíma við Hlíðarveginn.«

Í Fossvogsdalinn

Sveinn Hjörtur bjó í Víðihvammi fram yfir tvítugt. Þá höfðu þau eiginkona hans, Sigurveig H. Sigurðardóttir, nú dósent við Háskóla Íslands, nokkurra ára viðkomu hjá foreldrum hennar við Kúrland í Fossvogi. Fluttu svo á Kambsveg í Reykjavík eftir fjögurra ára námsdvöl í Gautaborg. Fjölskyldan flutti aftur í Kópavog árið 1981 í Engihjalla og tók sig til og reisti sér einbýlishús við Brekkutún árið 1985. »Hvammarnir snúa mót suðri, þar hefur fólk morgunsólina enda vorar þar allt að tveimur vikum fyrr en gerist austan megin við Kópavogshálsinn þar sem ég hef búið sl. tuttugu og sex ár. En ég myndi samt ekki vilja skipta enda höfum við margt gott í staðinn í Brekkutúni, svo sem kvöldsólina og aðgengi að frábæru útivistarsvæði í Fossvoginum,« segir Sveinn Hjörtur sem jafnan kveðst líta á sig sem Kópavogsbúa og kynna sig sem slíkan - enda þótt hann eigi rætur víða; t.d. vestur á Ísafirði, á Hornströndum, Borgarfirði og austur á Eyrarbakka. sbs@mbl.is Viðtal í Finnur.is 2. júní 2011.

þriðjudagur, 24. maí 2011

Sölumaðurinn Sveinn.

Ég rakst á viðtalsbók við Margréti Jónsdóttur eiginkonu Þorbergs Þórðarsonar. Þar sem ég opnaði bókina sá ég frásögn af Ásbirni Ólafssyni heildsala og hversu bóngóður hann var þegar hún leitaði aðstoðar hans fyrir ýmsa skjólstæðinga sína. Þessi frásögn hennar rifjaði upp þetta eina skipti sem fundum okkar Ásbjörns bar saman. Þetta gæti hafa verið í kringum 1972. Ég var fátækur námsmaður að afla mér tekna og tók að mér að fara á vegum Menningarsjóðs og kynna viðskiptamönnum sjóðsins nýjustu bækur hans til kaups. Bækurnar voru í stórri hvítri ferðatösku sem ég rogaðist með milli manna. Undirtekir voru misjafnar en eitthvað fór af bókum. Ásbjörn Ólafsson heildsali var á þessum lista og þar kom að ég ákvað að heimsækja hann og bjóða honum bækur til kaups. Ásbjörn sem þá var nokkuð við aldur tók mér ljúfmannlega á skrifstofu sinni í Borgartúni. Ég opnaði töskuna og sýndi honum það sem í boði var. Þegar hann hafði skoðað úrvalið sagðist hann ætla að kaupa allt það sem í töskunni væri. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þetta kom mér þægilega á óvart. Það skyggði aðeins á söluna að ritari hans kom að okkur og benti honum á að nokkrar af bókunum ætti hann þegar og því væri óþarfi að kaupa þær aftur. Síðar heyrði ég margar skemmtilegar sögur af honum í hlutverki sölumannsins. Hvernig hann snéri á samkeppnisaðila sína og náði að landa góðum sölusamningum. Alltaf gladdist ég yfir þessum sögum og minntist samskipta okkar. Ég gladdist líka þegar Margrét lýsti Ásbirni Ólafssyni í bók sinni sem einstöku ljúfmenni. Það var sú hlið á honum sem ég kynntist og geymi ávallt síðan. Sölulaununum gleymi ég aldrei. Eftir að hafa rogast með þessa tösku nokkra daga milli manna fékk ég í laun sem dugði fyrir kaupum á Íslenskri orðbók Menningarsjóðs, sem átti eftir að koma sér vel. Nóg í bili.

sunnudagur, 22. maí 2011

Gos í Grímsvötnum.

Gögn frá Veðurstofu Íslands Aftur er hafið gos á Surðurlandi. Núna í Grímsvötum sem eru norðvestanvert í Vatnajökli. Þarna gaus síðast árið 2004. Gosið hófst rúmlega sjö í görkvöldi og sást mökkurinn viða að. Vísindamenn segja að þetta sé tíu sinnum stærra gos en síðasta gos í Grímsvötunum. Veðrið hér í Reykjavík var fallegt í gær, heiðskírt, en kallt. Við fórum einnig á Austurvöll til þess að horfa þar á loftfimleika ungs fólks hangandi á taumi úr kranabómu í tilefni Listahátíðar sem haldin er þessa dagana. Lilja dóttir Valdimars og Stellu hefur verið í heimsókn hjá okkur þessa helgi og höfum við átt góðar stundir. Nóg í bili.

mánudagur, 9. maí 2011

Í söng.

Skaftarnir.
Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga voru haldnir eins og til stóð í Áskirkju í gær. Þrátt fyrir brakandi blíðu var á annað hundrað manns mættir til þess að hlusta á kórinn. Tónleikarnir gengu vel fyrir sig og var gerður góður rómur að söng kórsins. Eftir tónleikana var haldið kaffisamsæti í Skaftfellingabúð. Þá bauð einn kórfélagi kórnum heim til sín svona til að ljúka deginum. Það er ekki laust við að maður sé þegar farinn að sakna þess að nú verði engar söngæfingar á þriðjudagskvöldum en æfingar hefjast ekki að nýju fyrr en í september. Kórfélögum eru þakkaðar samstarfið síðastliðinn vetur og frábært félagsstarf á vettvangi kórsins.

miðvikudagur, 4. maí 2011

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga.

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga verða haldnir í Áskirkju sunnudaginn 8. maí nk. kl.14:00. Að þeim loknum verður boðið upp á kaffi og kökur í félagsheimili Skaftfellingafélagsins í Reykjavík að Laugarvegi 178. Allir söngelskir eru hvattir til þess að koma á tónleikana og njóta með okkur afrakstrar vetrarstarfsins í tónum og ljóðum. Stjórnandi kórsins er Friðrik Vignir Stefánsson. Einsöngvarar eru Jóna G Kolbrúnardóttir sópran og Stefán Bjarnason bassi. Undirleikarar með kórnum eru Jón Rafnsson kontrabassi, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Vignir Þór Stefánsson píanóleikari. Mætum öll!

fimmtudagur, 28. apríl 2011

Írar heimsóttir á páskum.

Það eru 1700 krár í Dublin. Í nýju umhverfi leitar maður að kunnuglegum kennileitum. Sérstaklega ef maður er á höttunum eftir skyldleika, frændsemi og þvílíku. Eitt af því fyrsta sem ég rak augun í á leiðinni frá flugvellinum inn í Dublin voru löngu sérhljóðarnir "í, á, é" á vegvísum þar sem kennileiti voru rituð á gelísku. Nú þeir eru þá svona skyldir okkur hugsaði ég með mér. Eftir því sem leið á þessa páskaheimsókn varð ég þess fullviss að við værum mikið skyld Írum. Viðmót, fas og útlit var oft æði líkt því sem hér má finna. Þessi ferð til Dublinar nú um páskana reyndist langt umfram væntingar. Yndislegt páskaveðrið með allt að 20°C hita og sólskini var bónus sérstaklega í ljósi þess kalsa og vetrarríkis sem við komum úr að heiman. Dögunum var varið í heimsóknir á sögustaði borgarinnar, gönguferðir, búðarráp, kráarheimsóknir, strætóferðir auk þess sem við fórum dagpart út fyrir borgina í rútu með leiðsögumanni. Miklir efnahagsörðugleikar eru á Írlandi um þessar mundir í kjölfar banka- og fasteignabólu sem sprakk með háum hvelli í kjölfar stóra bankahrunsins. Írar glíma við gríðarlegan skuldabagga og mikið atvinnuleysi. Þeir eru að endurmeta stöðu efnahagsmála í kjölfar hrunsins og uppteknir að því að leita svara við því hverjum sé um að kenna. Ofurlaun bankamanna er umræðuefni sem þeim er hugleikið svo og því hvernig málin gátu farið svona úr böndum. Þetta eru nú dægurmál sem Íslendingur í fríi eyðir ekki miklum tíma í. Augljóslega eru þetta mál málanna í dægurumræðunni og hún fer ekkert framhjá þeim sem kíkir í blöðin eða horfir á sjónvarp. Nóg í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 14. apríl 2011

Ári eftir eldgosið.

Í dag er ár síðan gosið í Eyjafjallajökli hófst. Náttúran mínnti í þessu eldgosi á ægimátt sinn og askan var þess valdandi að flugsamgöngur í Evrópu fóru allar úr skorðum. Forleikur þessa mikla eldgoss hófst á Fimmvörðuhálsi með litlu "túristagosi." Maður gleymir aldrei þeirri upplifun þegar við félagar í Söngfélagi Skaftfellinga stóðum við innkeyrsluna að Þorvaldseyri og horfðum upp í fjallið þar sem það þeytti öskunni upp í himininn. Í för með okkur voru sænskir söngfélagar Östergök kórsins í Lundi á leiðinni austur á Klaustur til að halda sameignlega tónleika. Einnig er eftirminnileg þögn ferðafélaganna í rútunni langleiðina í Vík í Mýrdal eftir þessa mögnuðu upplifun. Við erum háðari náttúrunni en við almennt gerum okkur grein fyrir. Allt síðasta ár hefur náttúran minnt okkur á mátt sinn. Ægilegir jarðskjalftar í eða nálægt Chile, Haiti, Japan vitna um mátt náttúrunnar. Hið jákvæða við gosið er að það hætti fljótlega en náði að koma Íslandi á framfæri heimsbyggðarinnar og líklega njótum við þess um tíma í aukningu ferðamanna.

sunnudagur, 10. apríl 2011

Tónleikar Goðalandi í Fljótshlíð

Tenórar Í gær hélt Söngfélag Skaftfellinga tónleika ásamt Hring, kór eldri borgara í Rangárþingi. Tónleikarnir voru haldnir að Goðalandi í Fljótshlíð og var fjölmenni mætt til þess að hlusta á kórana m.a. hópur eldri borgara austan úr Skaftárhreppi. Jón G Kolbrúnardóttir, sópran, ung og ný söngkona söng með kórnum nokkur einsöngslög. Hér er efnileg söngkona á ferðinni sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Lagt var af stað austur kl. 10.00 og keyrt upp Landsveit. Leiðsögumenn voru Guðni Olgeirsson og Kolbrún Einarsdóttir en bæði eiga ættir að rekja í Rangárþing. Farið var í hellaskoðun að Hellum í Landsveit. Um er að ræða manngerðan helgan helli, sem upphaflega var byggður af írskum Pöpum. Þá var heimsótt Heklusetrið að Leirubakka. Á báðum þessum stöðum var lagið tekið. Næst var brunað að Goðalandi í Fljótshlið þar sem tónleikarnir voru haldnir. Góður rómur var gerður að söng kóranna og þeir klappaðir upp til að syngja nokkur aukalög. Eftir tónleikana var haldið í heimboð í sumarhús til Kolbrúnar Einarsdóttur kórformanns og eiginmanns hennar Gísla Sigurþórssonar í Ketlubyggð í landi Ketilhúshaga. Þar var borðaður kvöldverður og haldið áfram í söng og gleði. Lagt var af stað í bæinn um ellefuleytið. Góður og eftirminnilegur dagur var að baki í góðra vina hópi.

sunnudagur, 3. apríl 2011

Sjá enga von.

Athygli mín var vakin á því um helgina að við þurfum að gæta vel að unga fólkinu. Það vakti athygli viðmælanda míns að ungir piltar sem hann átti tal við sáu bara svartnætti, sáu enga framtíð. Þeir voru allt að því búnir að gefast upp rétt rúmlega tvítugir. Við sem eldri erum verðum að huga að unga fólkinu og gæta þess að gleyma okkur ekki í svartnættistali. Unga fólkið almennt þekkir ekki umrót af þessu tagi. Veit jafnvel ekki að öll él styttir upp um síðir og lífið heldur áfram. Undanfarnir tveir áratugir hafa um margt óvenjulegir í efnahagslegu tilliti. Unga fólkið hefur margt búið við efnahagslegan stöðugleika sem nú er lokið í bili. Þetta á ekki aðeins við Ísland. Þetta er eins í flestum löndunum í kringum okkur þótt ástandið sé auðvitað misjafnt. Þetta ættum við að hafa í huga þegar við hellum úr skálum reiði okkar og hefjum upp raust okkar um dægurmálin. Líklega hefur maður ekki haft þetta nógsamlega í huga.

laugardagur, 2. apríl 2011

Tvennir tónleikar

Salurinn. Þetta var fínn endir á vinnuvikunni í gær. Fyrst fórum við Sirrý í Salinn í Kópavogi og hlustuðum á frábæra listamenn flytja lögin hans Sigfúsar Halldórssonar í "swing" útgáfu. Þeir spiluðu og sungu nokkur helstu lögin hans fyrir fullum sal s.s. Dagny, Litlu fluguna, Í dag, Íslenskt ástarljóð og fleiri og fleiri. Þarna sungu Egill Ólafsson, Stefán Hilmarsson og Andrea Gylfadóttir. Í hljómsveitinni voru m.a. Vignir Þór Stefánsson á píanói, Jón Rafnsson á bassa, Björn Thoroddsen á gítar. Egill Ólafsson var kynnir á tónleikunum og var stundum full málglaður en það er fyrirgefið. Sigfús er mér kær og minning hans björt. Hann er einn af þessum samferðamönnum sem maður minnist ævinlega með þakklæti og gleði yfir að hafa fengið að kynnast persónulega. Hann var nágranni foreldra minna og mikill vinur fjölskyldunnar. Eftirminnilegast er þegar við höfðum með okkur skiptivinnuna. Ég málaði gluggakarmana á húsinu hans og fékk borgað með málverki í staðinn. Það voru ekki slæm býtti. Næst lá leiðin niður á Hverfisgötu 46 til þess að fara á tónleika "Lame Dudes" félaga á Hverfisbar.
The Lame Dudes með Kyle og félaga. Það er nú nokkuð síðan ég heyrði í þeim félögum síðast og óhætt að segja að þeir verði stöðugt betri. Svíðsframkoma öll fumlaus, söngur og spil með ágætum. Það bar til tíðinda á þessum tónleikum að tveir ungir Ameríkanar tóku nokkur lög með hljómsveitinni. Annar þeirra Kyle og Snorri sólógítarleikari The Lame Dudes eru frændur. Það var ekki að sjá að kynslóðabilið kæmi í veg fyrir að þeir sameinuðust í músíkinni. Það gefst tækifæri á næstu blúshátíð um páskana að heyra í þeim félögum og það verður enginn svikinn af þeirra tónlist ef viðkomandi á annað borð hefur gaman af blús og rokki. Flutningur þeirra eru bæði eigin lagasmíðar og annarra. Hér má heyra eitt af þeirra lögum: Hversdagsblámann.

mánudagur, 21. mars 2011

Skaftfellingamessa 2011

Söngfélag Skaftfellinga. Í gær var haldin hin árlega Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju. Söngfélag Skaftfellinga sá um sönginn að venju. Eftir helgihaldið var haldið kaffisamsæti í safnaðarheimili kirkjunnar og boðið upp á kaffi, kökur og söng sem kórinn annaðist. Skaftfellingamessa hefur nú verið haldin í nokkur ár og er hún ávallt mjög vel sótt. Nú er talið að um tvö hundruð manns hafi sótt messuna.

laugardagur, 19. mars 2011

Svala Wilma Kristiansdóttir

Skírnin Litla sænska/íslenska frænka mín hún Svala Wilma var skírð í daga af langaafa sínum heima hjá Axel bróður og Rannveigu. Skemmtileg og hátíðleg stund með stjórfjölskyldunni. Eftir skírnina var ég mættur í Ráðhúsi Reykjavíkur ásamt félögum mínum í Söngfélagi Skaftfellinga þar sem við sungum nokkur lög á kynningunni Suðurland, já takk.

föstudagur, 18. mars 2011

Í dagsins önn.

Þetta hafa verið óvenjulegir sjö dagar. Hörmungar Japana eru ofarlega í huga og er ekki enn séð fyrir endan á þeim. Þá eru blóðug átök í ýmsum arabalöndum. Hér á landi er enn verið að vinda ofan af bankakrísunni og mikil óvissa er á flestum sviðum þjóðlífsins meira og minna af manna völdum. Það besta sem ég hef heyrt í dag var í RÚV á leiðinni í vinnuna þar sem kollegi minn/hagfræðingur gerði að umtalsefni ástina og lostan í stað þess að tala um efnahagsmálin og raforkuna. Hann notaði í þessu samtali samlíkingu úr tölvuheiminum. Það væri ekki nóg að vélbúnaðurinn væri tengdur það þarf að tengja hugbúnaðinn saman líka. Hann fór líka allt aftur um 2500 ár til Plató til þess að rökstyðja mál sitt varðandi hina líkamlegu og andlegu tengingu ástarinnar. Segði svo að hagfræðingar hugsi bara um tölur.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Hörmungar Japana.

Jarðskjálfti upp á níu á Richter. Gríðarleg flóðbylgja af hafi. Eyðing byggða. Mikið manntjón. Kjarnorkuver í ljósum logum. Geislavirk efni í andrúmsloftinu. Matarskortur og ringulreið. Vaxandi hræðsla og örvænting. Hörmungarnar í Japan og dómínó áhrif jarðskjálftanna sem þar urðu á föstudaginn eru hræðilegri en orð fá lýst. Hvað er hægt að segja við fólk sem glímir við slíka erfiðleika? Hugur okkar er með ykkur? Ég veit það ekki. Manni er orðavant.

sunnudagur, 13. mars 2011

Afleiðingar jarðskjálfa og flóðbylgju í Japan.

Leitaða að geislavirkni. BBC.CO.UK Þessi mynd lýsir vel því ásatandi sem Japanir glíma við í dag.Leitað að geislavirkni á litlu barni sem verið er að flytja á brott. Tvöhundruð þúsund hafa verið flutt á brott. Tvö kjarnorkuver eru í hættu og þegar hafa orðið sprengingar í einu þeirra, þótt sú sprening sé ekki í kjarnaofninum sjálfum. Sjónvarpsstöðvar sýna skemmdirnar í landinu og ljóst að þær eru gríðalegar. Vonandi að takast megi að koma í veg fyrir bráðnun ofnanna í þessum verum. Fjöldi þeirra sem týnt hafa lífi í hamförunum fer hækkandi og augljóslega ekki vitað á þessu stigi hvert manntjónið er. Fréttastöðvar dást að því hvernig fólkið bregst við hamförunum, þrátt fyrir gífurlega erfiðleika og skemmdir.

föstudagur, 11. mars 2011

Jarðskjálftar og flóðbylgjur í Japan.

Enn á ný minnir náttúran okkur á mátt sinn og krafta. Á fyrsta degi er staðfest að eitt þúsund hafi farist. Augljóslega á sú tala eftir að hækka. Jarðskjálftinn í Japan var 8.9 stig. Skjálftinn er sagður 1000 sinnum sterkari en síðasti Suðurlandsskjálfti. Í kjölfarið kom flóðbylgja sem fréttastofur hafa keppst við að sýna okkur í dag. Eyðileggingin er gríðarleg. Ofan á þetta bætist að heimsbyggðin bíður í ofvæni eftir því hvort takist að kæla kjarnorkuverið Fukushima sem er skaðað. Hugur okkar er hjá japönsku þjóðinni og þjáningu hennar í þessum náttúrhamförum.

mánudagur, 21. febrúar 2011

Lífsklukkan tifar.

Vík í Mýrdal. Tíminn flýgur áfram. Við erum stöðugt minnt á að öllu er mörkuð ákveðin stund í tíma. Vinkona mín sagði mér einu sinni að lífinu mætti líkja við tímaglas. Sandurinn rennur milli hólfa. Fyrst hægt og rólega, svo er eins og hröðun verði í rennslinu er á líður og efra hólfið tæmist. Lífið er núna og okkur ber að fanga stundina og njóta hennar til fullnustu. Maður á ekki að fresta því sem maður á ógert sagði annar góður vinur sem átti við veikindi að stríða. Betur væri að maður færi eftir þessum heillaráðum oftar en því miður gerir maður það ekki. Það eru vangaveltur í þessum dúr sem leita á hugann í skammdeginu, jafnvel þótt daginn sé farið að lengja. Meðfylgjandi mynd frá Vík í Mýrdal lýsir svoltíð þessu hugarfari skammdegsins sem ég er að reyna að koma í orð,dimmt yfir en sólskin í fjarska.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Rótarýklúbbur Kópavogs 50 ára.

Ræðumaður kvöldsins. Í gær þann 6. febrúar var haldið upp á 50 ára afmæli Rótarýklúbbs Kópavogs í Turninum í Kópavogi. Þá voru nákvæmlega 50 ár frá því fyrsti stofnfundurinn var haldinn í klúbbnum þann 6. febrúar 1961. Alls voru mættir um 100 gestir á þennan hátíðarfund. Aðalræðumaður kvöldsins var Helgi Sigurðsson prófessor og fjallaði hann um tilurð og gildi fjórprófsins og kynni sín af Rótarýhreyfingunni í gegnum árin. Fjórprófið er svona: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? Þessi einkunnarorð Rótarý komu til í kjölfar kreppunnar miklu á þriðja áratug síðustu aldar í þeirri viðleitni að auka viðskiptasiðferði og traust manna í milli. Ásgeir Jóhannesson kynnti nýja bók þar sem saga klúbbsins er tíunduð. Þá söng Barnakór Kársnesskóla nokkur lög auk þess sem ýmsir gestir tóku til máls. Hátíðin hófst kl. 18.00 og stóð fram eftir kvöldi og tókst í alla staði eins og best verður á kosið.

föstudagur, 4. febrúar 2011

Helgarferð til Lundúna.

"Þú ert þá eins og heima hjá þér," sagði breska konan frá Kensington, sessunautur minn í fínu stúkunni í Roayal Albert Hall. Í orðum hennar lá að hún var að bjóða mig velkominn til Lundúna eftir fimm ára fjarveru. Ég hafði sagt henni að ég hefði komið nokkuð reglulega til borgarinnar síðastliðin rúm þrjátíu ár og London væri í miklu uppáhaldi. Við Sirrý fórum á Cirque du Solei, Totem á laugardaginn var í þessari glæsilegu byggingu. Þetta var einn af hápunktum helgarferðarinnar sem var í boði eignkonunnar. Hún hafði setið um fargjaldatilboð hjá Iceland Express og náð tveimur miðum á hagstæðu verði. Við bjuggum þrjár nætur á Thistle hótelinu við Marble Arch, ágætis hóteli og að sjálfsögðu á tilboðsverði. Við gerðum ýmislegt okkur til skemmtunar. Örkuðum svolítið á Oxfordstreet og fórum á útimarkað. Skoðuðum sýningu í British Museum um Fornegypta "The book of death" kallaðist hún og lýsti viðhorfi þeirra til lífs og dauða. Skeltum okkur út í O2 kúpuna og litum á mjög athyglisverða sýningu um Titanic slysið. Við fórum á uppáhalds veitingastaði eins og Garfunkels og fengum okkur Chichen Kiev. Einnig fórum við á Líbanskan veitingastað í Kensington og fengum okkur kinda-og kjúklingarétt. Auðvitað var litið við í Harrods og þreifað á dótinu og yfir götuna á Viktoruíusafnið að skoða höggmyndir. Þá komum við við í uppáhalds bókabúðinni okkar Foyles. Það er ýmislegt hægt að gera í London á einni helgi. En þetta er að sjálfsögðu aðeins brotabrot af því sem borgin hefur upp á að bjóða. Að sjálfsögðu fórum við tvisvar niður á Piccadelly að kvöldi til. Þar fæ ég alltaf þessa tilfinningu að borgin sofi aldrei. Alltaf fólk, alltaf eitthvað um að vera og maður skynjar ákveðið tímaleysi. Hápunkturinn var svo þessi heimsókn í Royal Albert Hall sem við höfðum aldrei heimsótt áður. Sirrý lenti í annarri stúku og kann að segja skemmtilega sögu af kynnum sínum af fjölskyldunni sem þar var saman komin. Fólkið sem var í minni stúku samanstóð af móður með þremur uppkomnum börnum sínum og hollensku pari auk mín. Bretarnir "mínir" buðu upp á hvítvín í hléi og svo var"tjattað" á léttu nótunum. Konan upplýsti mig um að hún væri úr hverfinu og skólinn hennar hefði notað sviðið í Royal Albert Hall við hátíðleg tækifæri. Svo var komið að kveðjustund. Þakkað fyrir hlý og ánægjuleg kynni og gengið út í nóttina.

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Sigurganga landsliðsins öðrum til eftirbreytni.

Guðjón Valur Sigurðsson. Enn á ný eru það handboltastrákarnir "okkar", sem rífa mann upp úr svartsýni og drunga hversdagleikans og lyfta huganum til nýrra hæða. Þegar öll sund virðast við það að lokast koma þeir til leiks og minna mann á að það er allt hægt. Baráttuvilji, hæfni og þrek þeirra er aðdáunarvert. Þrátt fyrir mikið mótlæti í kjölfar bankahrunsins undanfarin ár hefur okkur lagst ýmislegt jákvætt til. Almættið sendi okkur makrílinn inn í íslenska lögsögu. Handboltaliðið okkar hefur unnið frækilega sigra undanfarin ár. Meginþættir atvinnulífsins hafa staðist þær hremmingar sem dunið hafa yfir. Auðvitað hefur ýmislegt farið úrskeiðis, sérstaklega hjá þeim sem tefldu djarft og skuldsettu sig of mikið. Ýmsir hafa misst atvinnu sína og enn aðrir séð ástæðu til að leita til annarra landa í leit að vinnu og tækifærum. Æ oftar spyr ég sjálfan mig að því hvernig standi á því að skulum sitja uppi með þessa vesælu ríkisstjórn.Við hljótum að eiga annað og betra skilið. Stjórnin virðist taka vitlausar ákvarðanir í hverju málinu á fætur öðru eða snýst eins og skopparakringla í kringum sjálfa sig. Hvenær skyldum við fá ríkisstjórn sem hugsar vel um grunnstoðir samfélagsins, atvinnulífið og fólkið sem vill lifa hér og starfa? Ég ætla ekki að eyðileggja stemmninguna frekar en maður er farinn að bíða óþreyjufullur eftir "sigrum" á sviði stjórnmálanna. Áfram Ísland.

mánudagur, 3. janúar 2011

Gleðilegt ár.

Gleðilegt ár með þökk fyrir liðið ár. Þetta hafa verið ljúf jól og áramót og liðið ótrúlega fljótt. Það fer ekki milli mála að Facebook hefur tekið mikinn tíma frá þessari bloggsíðu, hvað svo sem verður. Engin áramótaheit voru ákveðin að þessu sinni. Einhver persónuleikaþjálfinn sagði í útvarpsviðtali um daginn að maður ætti að forðast slíkt. Ég ákvað að fara eftir því. Þannig að það getur ef til vill flokkast undir áramótaheit. Hann lagði til að þess í stað færi maður yfir málin í rólegheitum í upphafi ársins. Oft var maður hér með loforð á árum áður. Hætta að reykja var um tíma klassískt loforð en það er á annan áratug síðan maður hætti því. Svo var það áheitið um að hreyfa sig meira. Ég er eiginlega búinn að segja "tjekk" við það. Þá var það loforðið um að grenna sig. Æ, það er svo gott að borða þannig að því hefur verið skotið undir teppið í bili. Þá var það áheitið um að um að minnka Facebook hangsið. Því hefur verið frestað um óákveðinn tíma en verður tekið til frekari skoðunnar innan skamms. Langtímamarkiðið er þó enn hið sama en það er að halda sínu striki og bæta sig í því sem maður hefur fyrir stafni hverju sinni. Að lokum er vinum og samferðamönnum þökkuð samfylgdin á árinu. Kveðja.