fimmtudagur, 20. október 2011

Umhverfið mótar manninn.

Finnbjörn Hjartarson. Föðurbróðir minn hefði orðið 74 ára í gær.

Umhverfið mótar manninn, sagði Finnbjörn föðurbróðir minn síðast þegar við hittumst. Það var rétt viku fyrir andlátið. Hann bauð okkur í hádegisverð á sunnudegi enda orðið of langt síðan við höfðum hist. Við vorum meðal annars að ræða um land og þjóð, náttúruna, lífsbaráttuna og síðast en ekki síst Vestfirði og Ísafjörð. Þá barst talið að mynd sem hann hafði fengið listmálara til þess að mála af föður sínum í vestfirsku umhverfi. Framansögð ummæli frænda míns voru einmitt þema málverksins og eiga svo vel við hann.

Fyrir mér er þetta vestfirska umhverfi frekar framandi, þótt ættir eigi að rekja til þessa fjarlæga landshluta, en í sálu hans var þetta sá staður, þar sem ræturnar lágu og hann fékk aukna lífsfyllingu við það eitt að tala um.

Ferðirnar vestur voru margar á ári oft með litlum fyrirvara. Æskustöðvarnar toguðu og ekki spillti fyrir að hann hafði nú eignast jörð í Mjóafirði, sem hann og Helga höfðu áform um reisa sumarbústað á. Ég hafði fært honum litla ljósmynd af nýjasta skipi þeirra Vestfirðinga, Guðbjörgu ÍS, sem nú hangir uppi á vegg í stækkuðu formi.

Bubbi safnaði ýmsum nýjum og gömlum munum sem minntu á sögu þjóðarinnar, svo sem líkönum af gömlum árabátum. Hann hafði ánægju af málverkum og keypti gjarnan verk listamanna, sem með verkum sínum höfðuðu til hans þótt þeir færu lítt troðnar slóðir og fáum væru kunnar. Ég hef grun um að þessi áhugi hans hafi ekki síður verið vegna ánægjunnar af að umgangast listamenn.

Ræktarsemin við gömlu átthagana, frændfólk og vini var honum í blóð borin. Hann hafði gaman af að hitta fólkið sitt og lagði mikið upp úr því að rækta frændsemina og hafði frumkvæði að heimsóknum í þeim tilgangi ­ nokkuð sem fleiri mættu taka til eftirbreytni. Hann hafði yndi af að gleðja aðra með sínum sérstæða hætti og var mikið í mun að hjálpa. Það var gert af hispursleysi, velvilja og hlýju og það voru ekki höfð um það mörg orð ­ verkin látin tala. Stutt var í brosið og glensið, en undir niðri bjó alvara hins leitandi manns að æðri gildum lífsins í trú, leik og starfi.

Ég veit að leit hans hafði borið ríkulegan ávöxt. Bubbi og Helga voru ávallt mjög samrýnd hjón og miklir félagar. Þau störfuðu saman við fjölskyldufyrirtækið Hagprent hf. ásamt tveimur af fimm börnum sínum og tengdadóttur. Brátt og ótímabært fráfall hans er sársaukafullt og setur mikil spor á líf fjölskyldunnar svo og ættingja og vina, en eigi má sköpum renna.

Í minningunni geymum við svipmót Bubba frænda. Æskuminningar, mörg gamlárskvöld í Víðihvamminum þegar brugðið var á leik með eftirminnilegum hætti. Þúsundkallinn í tyggjóbréfinu til þess að létta dapra stund í lífi unglingsins og dýrmætar samverustundir á seinni árum með svipuðum hætti og hér hefur verið lýst.

Við þökkum honum fyrir allt og biðjum Guð að blessa hann og veita Helgu og frændsystkinum, Jensínu ömmu, systkinum hans og fjölskyldunni allri styrk til þess að horfa ótrauð fram á veginn. Blessuð sé minning hans.

Mbl. Miðvikudaginn 23. nóvember, 1994 - Minning


Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Engin ummæli: