föstudagur, 21. október 2011

Bernskuminningar úr Kópavogi.

Kópavogsblaðið 20.10.2011
,,Fyrsti kennarinn minn var fallegasta kennslukonan á öllu landinu!”
Haustið er tími eftirvæntingar ekki síður en sumarið. Það er breyting í loftinu, þriðju árstíðarskiptin. Leikfélagar bernskuáranna sem fóru í sveitina komnir til baka. Endurfundir voru ánægjulegir og síðkvöldin úti við á haustin eftirminnileg í leikjum og einstaka prakkarastrikum. Skólinn hóf göngu sína að nýju um þetta leyti. Við vorum spennt að sjá hvort eða hvaða breytingar yrðu í bekknum, hvort sömu bekkjafélagar yrðu áfram, nýir kæmu í bekkinn eða hvort við yrðum með sama kennara.
Stundum voru breytingar. Góðir skólafélagar fluttu í önnur byggðalög og jafnvel til útlanda. Eftirminnilegasta breytingin var þegar fyrsti kennarinn minn og sú sem kenndi okkur lengst af í E – bekknum í Barnaskóla Kópavogs fór í barneignafrí. Hún hét Helga Sigurjónsdóttir, fallegasta kennslukona á öllu landinu, það fannst mér allavega. Helga varð síðar kunn sem stjórnmálamaður, baráttukona fyrir kvenréttindum og mikilsmetinn skólamaður. Hún lést í byrjun þessa árs. Það var erfitt að sjá að baki Helgu í barneignafríum. Á bekkjarmyndinni er yfirkennari skólans Óli Kr. Jónsson í stað hennar en hann var umsjónarkennari okkar í 12 – E síðasta veturinn.


12 ára bekkur E.
12 ára E í Barnaskóla Kópavogs 1965. Fremsta röð frá vinstri: Guðný Björgvinsdóttir, Halldóra Guðmundsdóttir, Una Elefsen (látin), Helga Austmann Jóhannsdóttir, Sigrún Hilmarsdóttir, Kristbjörg Sigurnýjasdóttir, Ástríður Kristinsdóttir, Ingibjörg Garðarsdóttir, Ingibjörg S Karlsdóttir. Önnur röð frá vinstri: Björgvin Vilhjálmsson, Lárus Már Björnsson (látinn), Hrafnhildur Jósefsdóttir, Gerður Einarsdóttir, Heiðrún Hansdóttir, Ragnheiður Lára Guðjónsdóttir, Jóna Ingvarsdóttir, Gerður Elín Hjámarsdóttir, Helgi Sigurðsson, Húgó Rasmus og umsjónarkennarinn, Óli Kr. Jónsson í tólf ára bekk. Þriðja röð frá vinstri: Páll Einarsson, Gylfi Norðdahl, Páll Ragnar Sveinsson, Þorsteinn Baldursson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Hjörtur Pálsson, Yngvi Þór Loftsson, Jón Halldór Hannesson (látinn), Atli Sigurðsson og Óli Jóhann Pálmason (látinn).
Við Esju rætur.
Við rætur Esju sumarið 1965, mynd tekin af föðurbróður mínum Finnbirni Hjartarsyni prentsmiðjustjóra, en hann og eiginkona hans Helga Guðmundsdóttir bjuggu fyrstu búskaparár sín í Kópavogi. Fyrst í húsi foreldra minna við Víðihvamm og síðar í Austurgerði í vesturbæ Kópavogs. Á myndinni erum við þrjú frændsystkinin af fimm börnum Finnbjörns og Helgu og þrjú af fjórum systkinum frá vinstri til hægri: Guðmundur Helgi Finnbjarnarson, Guðrún Finnbjarnardóttir, Þórunn Ingibjörg Hjartardóttir, Oddur Kristján Finnbjarnarson, Axel Garðar Hjartarson og ég, Sveinn Hjörtur. Tilefni ferðarinnar var bíltúr í nýja (gamla) Willis-jeppanum sem Finnbjörn hafði keypt. Bíltúrinn var upp að Esju þar sem við áttum góðan dagpart við klifur í klettabelti Esjunnar. Slíkar ferðir út fyrir Kópavoginn voru ekki tíðar á þessum árum og því afar eftirminnilegar.
Útskrift Valdimars.

Við brautskráningu sonarins sem lögfræðings frá Háskóla Íslands 16. júní 2007. Við foreldrarnir Sigurveig H. Sigurðardóttir, Sveinn Hjörtur Hjartarson og sonurinn Valdimar Gunnar Hjartarson.


Færðum kennaranum jólagjöf
Í bók sinni ,,Sveitin mín - Kópavogur” minnist Helga þess með hlýhug þegar við fjögur sem skipuð voru af bekknum til þess að heimsækja hana komum og færðum henni jólagjöf árið 1962. Við gáfum henni ljóðabókina ,,Heiðnuvötn” eftir Þorstein Valdimarsson skáld. Helga segir svo frá: „Ég var afskaplega upp með mér þegar fjórir nemendur mínir í Kópavogsskóla færðu mér bókina að gjöf um jólin 1962. Eftirfarandi skráði Þorsteinn í bókina:
,,Kverinu þykir heldur heiður
að hýsa jólagleðina;
Yngvi, Hjörtur, Húgó, Eiður
og Helga rekur lestina.
Yngvi er að sjálfsögðu sonur Guðrúnar [Þorsteinn Valdimarsson skáld var náfrændi Guðrúnar móður Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts], Sveinn Hjörtur er Hjartarson og hann er hagfræðingur. Húgó Rasmus er kennari í Kópavogi. Eiður heitir fullu nafni Eiður Örn og er Eiðsson. Hann er matreiðslumaður og rekur ásamt konu sinni Hótel Framnes í Grundarfirði.“ (Helga Sigurjónsdóttir, 2002 bls. 86). Í minningu minni vorum við hinsvegar fimm og Helga sem rekur lestina muni vera bekkjasystir okkar Helga Austmann Jóhannsdóttir.

Við fengum aðra Helgu kennslukonu en hún var ekki Helga mín. Það átti eftir að skila sér í heimsókn til skólastjórans Frímanns Jónassonar, sem leiddi þó ekki til tiltals. Sr. Gunnar Árnason, sem síðar fermdi okkur mörg hver var í heimsókn hjá honum og enginn tími til að hirta unga skólasveina. Þetta stirða samband okkar batnaði ekki við það að hún rak okkur tvo félagana síðar heim. Að vísu höfðum við Hjörtur Árnason, nú hótelhaldari í Borgarnesi, líklega unnið til þess. Hentum skólatöskum í hvor annan og ein þeirra lenti óvart á skólasystur okkar.

Endurfundir á Facebook
Margir voru í bekknum allt frá fyrstu tíð þar til við fórum yfir í Gagnfræðaskóla Kópavogs, bygging sem nú hýsir Menntaskólann í Kópavogi. Að loknu barnaskólanámi skildu leiðir en nokkrum hefur maður fylgst með gegnum lífið, mismikið þó. Það hefur auðveldað upprifjun þessara endurminninga að á Facebook-síðunni höfum við nokkur hist og rifjað upp minningar og nöfn fyrrum skólafélaga. Þannig auðveldar ný samskiptatækni t.d. endurfundi gamalla bekkjasystkina. Skólaferðalagið í lok tólf ára bekkjar var austur að Skógum og þótti mikið ferðalag á þessum árum.

Engin ummæli: