föstudagur, 7. október 2011

Ferð til Frakklands og Svíþjóðar

Auxerre
Síðustu viku höfum við Sirrý verið á ferð í Frakklandi og Svíþjóð. Í Frakklandi gistum við nokkrar nætur hjá vinum okkar, Helga og Ingunni í Commessey í Búrgundí. Þetta litla þorp er rétt hjá bænum Tonnerre og ekki langt frá Chablis, sem er þekkt fyrir hvítvínsframleiðslu. Miðvikudaginn 5. október fórum við til Kristianstad í Svíþjóð og höfum átt hér góða daga. Tíðin hefur verið afar góð bæði í Frakklandi og Svíþjóð. En í Frakklandi fór hitinn upp í 30°C á daginn og var heiðskírt alla dagana. Veðrið hér í Svíþjóð hefur verið sæmilegt, enda komið fram í október og ekki við örðu að búast. Í gær fórum við til Hässlehólm og vorum aðeins að ganga frá í íbúðinni og gera hana klára. Þetta er snotur íbúð, gömul en það er búið að taka hana mikið í gegn. Íbúðin er steinsnar frá brautarstöðinni og í rólegu hverfi og snyrtilegu. Það ætti að vera hægt að skrifa lærðar ritgerðir á þessum stað, ef vel tekst til. Meira um það síðar... Kveðja.

Engin ummæli: