fimmtudagur, 26. janúar 2012

Vetrarríki í janúar

Undraveröld Elliðaárdals
Vetrarríkið í janúar er orðið slíkt að það er ekki annað hægt en að minnast á það í þessum annál. Þessi mikli snjór og erfiða færð sem af honum hlýst setur strik í tilveruna. Þótt ekki geti maður kvartað með tvo 4x4 á hlaðinu og það á nöglum. Margir samborgararnir eru ekki jafn vel búnir til aksturs og það tefur umferðina. Maður reynir að halda sinni daglegu rútínu. Ein af þessum rútínum hafa verið gönguferðirnar um Elliðaárdal á miðvikudagskvöldum og Heiðmörk á laugardagsmorgnum. Heiðmörk er illfær þessa dagana þess vegna hefur verið gengið um Elliðaárdal tvisvar í viku. Í gærkvöldi gengum við Skálmarar um Elliðaárdal í þæfingi og snjóþungum dalnum. Það var stilla og frábært veður til göngu. Á gróðrinum var drifhvít snjóþekja og svæðið líkast undraveröld. Meðfylgjandi mynd sem einn göngufélagi minn tók lýsir stemningunni betur en þúsund orð.(Mynd Sigurlaug Jóna Sigurðardóttir)

sunnudagur, 1. janúar 2012

Á nýju ári.

Þá er 2012 runnið upp.Við höfum verið hér í Kristianstad í Svíþjóð yfir áramótin. Veðrið í gærkvöldi var stillt en það kólnaði með kvöldinu. Raketturnar hafa sjaldan í mínu minni þotið jafn beint upp í loftið. Afastrákarnir Sveinn og Jóhannes skemmtu sér vel við þessa iðju og afi þeirra líka. Það er stutt í barnið í manni þegar flugeldar eru annarsvegar. Áramótaheitin voru ekki merkileg í ár. Reyndar var ég búinn að ákveða að þetta yrðu áramót án loforða. Við áttum hér indæla kvöldstund með Hirti og Ingibjörgu og strákunum. Hér var líka góður vinur þeirra, Ingimundur ásamt okkur. Meira síðar....