laugardagur, 27. október 2007

Jæja.

Þetta er búin að vera viðburðarrík vika og lítill tími til að hanga í tölvunni. Á fimmtudaginn hófst aðalfundur LíÚ og stóð til þrjú í gærdag. Við fórum á lokahófið og var það glæsilegt að vanda. Þema fundarins var fyrst og fremst hafrannsóknir. Einnig var fjallað um efnahagsmálin og umhverfismerki. Þetta má allt nálgast á heimasíðu samtakanna. Það er alltaf viss eftirvænting í loftinu á svona stórum fundi. Maður hittir fullt af fólki víða af landinu sem maður er í símasambandi við en sér sjaldan. Annars er lítið í fréttum. Kveðja.

laugardagur, 20. október 2007

,,Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar"

Við sátum á bekk í almenningsgarði í nágrenni við heimili hans. Þögðum báðir og nutum sólskinsins þennan sumardag. Í fjarska gat að líta drungalega rauðbrúna byggingu. Þetta var pappírsverksmiðjan sem hann sagðist hafa unnið við alla sína starfsævi við eftirlit með valsavél. Umhverfis bygginguna var há steingirðing. Til þess að komast að henni þurfti að ganga um hlið á miðri girðingunni. Fyrir því var gríðastórt og þunglamalegt járnhlið. Ég ákvað að rjúfa þögnina þarna á bekknum og athuga hvort gamli maðurinn vildi ekki tjá sig um vinnustaðinn og snéri mér að honum. Ég sá að það runnu tár niður kinnar hans. Auðvitað varð mér nokkuð við. Ég spurði hann svona til þess að rjúfa þögnina hvort eitthvað amaði að.
Eftir nokkra stund rauf hann þögnina og sagði:

"Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar." eða "Hversu oft hef ég ekki gengið í gegnum þetta hlið."

"Saknarðu vinnunar?" spurði ég til að segja eitthvað.

"Nei",svaraði hann eftir stutta þögn.

"Ég vildi aldrei vinna þarna. Ætlaði í siglingar."

Hann náði sér fljótt og tárin hættu að renna.

"Af hverju fórstu ekki í siglingar Gunnar? Var ekki nóg af skipsrúmum í Gautaborg?"

"Jú, jú það var hægt að fá skipsrúm, en faðir minn réði mér frá því. Hann taldi betra fyrir mig að fara til starfa í verksmiðjunni og ég fylgdi þessum ráðum."

"En hugur minn stóð til siglinga um öll heimsins höf, en það átti ekki að verða."

Gat það verið að hann hafi eytt allri starfsævi sinni í vinnu við eitthvað, sem hann gat ekki hugsað sér? Það hafði ekki hvarflað að mér áður að maður gæti átt það fyrir höndum. Allt mitt líf fram til þessa hafði farið í undirbúning undir þátttöku á vinnumarkaðnum. Hvað ef ég myndi svo lenda í sömu aðstöðu og Gunnar?
Þetta samtal okkar átti sér stað þegar við vorum búnir að þekkjast nokkrar vikur. Uppgjör gamla mannsins við lífið þarna á bekknum hafði gríðarleg áhrif á mig. Þessi eina setning: "Hur ofta har jag inte gått genom dessa portar." Það hafði aldrei fram til þessa hvarflað að mér fyrr að fólk starfaði heila mannsævi við eitthvað sem það hafði aldrei viljað. Þetta er gömul reynslusaga frá starfi við heimilishjálpina í Möndal í Svíþjóð 1979. Gunnar var einn af skjólstæðingunum mínum.

þriðjudagur, 16. október 2007

Mýs og menn.

Mýs og menn. Það er vinsælt að spyrja fólk við ýmis tækifæri hvað sé eftirminnilegasta bókin sem það hafi lesið. Ég velti þessari spurningu fyrir mér í dag og komst að þeirri niðurstöðu að eftirminnilegasta sagan sem ég hef heyrt væri saga John Steinbecks, Mýs og menn. Ég hef aldrei lesið hana sjálfur en hlustað á hana í upplestri fyrrum kennara míns í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Þetta hefur líklega verið veturinn 1966 og 1967 og lesturinn átti sér stað þegar við áttum nestistíma. Upplesarinn var Einar Bragi(1921-2005)rithöfundur. Hann las bókina með þvílíkum tilþrifum að sagan hefur alla tíð setið föst í minni mínu. Sagan gerist í Kreppunni miklu í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar. Hún segir í stuttu máli frá tveimur félögum George og Lennie. George er lítill,kvikk og hæðinn en Lennie er stór og vitgrannur. Þá dreymir um eigið býli og George reynir að halda Lennie frá vandræðum með því að minna hann á að hann fái ekki að hafa kanínur, ef hann haldi sig ekki frá vandræðum. Þetta er sorgarsaga en jafnframt er í henni húmor sem Einar Bragi kom frábærlega til skila í upplestri sínum. Túlkun hans á þeim félögum tveimur er ógleymanleg, sérstaklega hvernig hann gerði Lennie lifandi í upplestri sínum. Ég hélt lengi vel að Einar hefði þýtt bókina en við eftirgrennslan í Gegni, gagnasafni Landsbókasafnsins kemur fram að Ólafur Jóhann Sigurðsson (1918-1998) hafi þýtt þessa bók. Vel má vera að þessi saga hafi beint sjónum mínum að framtíðar starfsvettvangi mínum, hagfræðinni. Allavega hefur áhugi minni á því efnahagslega umhverfi sem Kreppan mikla skapaði fólki verið mikill. Svona geta áhrif kennara verið mikil á nemendur. Einar Bragi réðst í það stórvirki á 9.áratug síðustu aldar að þýða leikrit Henriks Ibsens og August Strindbergs. Ég keypti bæði þessi verk af honum ekki síst í þakklætisskyni fyrir upplesturinn þarna um árið í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Nú að sjálfsögðu líka vegna þess að það er hverju heimili nauðsynlegt að eiga helstu bókmenntaperlur Norðurlanda. Nóg í bili. Kveðja.

sunnudagur, 14. október 2007

Heimsókn í höfuðstað Norðurlands.

Veitingahúsið Bláa kannan. Þesssi mynd er tekin fyrir Ingibjörgu og Hjört í Svearíki í von um að þau geti yljað sér við minninguna um kaffiilminn á þessu uppáhalds kaffihúsi þeirra. Nú er bara að hella uppá og njóta stundarinnar. Annars var tilefnið ráðstefna um sjávarútvegsmál á KEA. Þrátt fyrir slæma veðurspá slapp ég við óveðrið og komst fram og til baka á réttum tíma.










Horft inn að Eyrinni. Á Akureyri er líka verið að byggja. Eins og myndirnar gefa til kynna var hið besta veður þennan fimmtudag. Þarna má sjá stefnið á Súlunni EA, því fornfræga skipi.











Horft "fram" fjörðinn. Mig minnir að þeir tali um að fara út fjörðinn þegar þeir eru að fara innar í fjörðinn. Það var víst fram fjörðinn sbr. komment frá Hirti.













Kirkjan. Þegar litið var út um gluggan á hótelherbeginu blasti þessi sýn af kirkjunni við. Annars lýsa þeir upp nokkrar eldri byggingar og er það tilkomumikil sýn eins og sjá má.

laugardagur, 13. október 2007

Í vikulok.

Þetta hafa verið annasamir dagar síðustu daga. Fór norður á Akureyri á miðvikudag. Þar var fjallað um hagfræðileg og líffræðileg málefni tengdum hafinu á fimmtudeginum. Þannig að ég missti af þessum sviptingum í borginni í "live". Ég ætla ekki að þykjast skilja þetta mál til hlítar. Ljóst mátti vera af atburðarás vikunnar að til tíðinda mundi draga. Þannig að það kom í raun ekki á óvart að meirihluti borgarstjórnar mundi springa. Í pólitíkinni og skákinni er það þannig að sá sem vinnur endataflið endar sem sigurvegarinn. Læt nú þessi fáu orð duga um þetta mál. Orkuútrásin er spennandi verkefni og vonandi að það verkefni haldi áfram að þróast og blómstra og við sem kaupum orku af OR berum ekki skaða af því.

sunnudagur, 7. október 2007

Gautaborgargengið í heimsókn.

Gautagellurnar. Sirrý var með "saumaklúbb" sem í eru stelpurnar sem voru á sama tíma og við í Gautaborg. Við bjuggum í nágrenni við þær og við vorum heimagangar hvert hjá öðru. Svo liðu námsárin og við fluttum öll heim. Þær ákváðu svo að halda tengslum með því að hittast, en án maka. Alinn upp í anda jafnréttis og allt það hefur mér alltaf þótt þetta skrítið ráðslag. Nú héldu þær klúbbinn heima hjá okkur þannig að ég fékk að sitja með þeim til borðs smá stund og rifja upp gamla tíma. Að því loknu var manni uppálagt að láta sig vinsamlegast hverfa svo lítið bæri á. Svo stóð "saumaklúbburinn" langt fram á kvöld en enga sá ég prjónana og hef ekki vitað til þess að til þeirra væri nokkurn tíma gripið á þessum klúbbfundum. Hópurinn á myndinni er að vísu ekki allur hópurinn því a.m.k. vantaði tvær til þrjár í hópinn í þetta skipti. Annars hef maður bara verið að leika sér þessa helgi. Byrjuðum á því að fara í gær í afmæli Alexanders hjá Axel bróður og Rannveigu. Fór á kínverska menningarhátið í Gerðarsafni og bókamarkað í Jóns Loftssonar húsinu. Kveðja.