mánudagur, 6. febrúar 2017

Ono á Borgarlistasafninu

John Lennon sagði víst einhverju sinni um Yoko Ono að hún væri “the World's most famous unknown artist." Allir þekkja nafn hennar en fæstir verkin. Þetta átti um mig þar til ég fór í Borgarlistasafnið á föstudaginn var. Gékk þar inn og skyldi lítið sem ekkert í þeirri sýningu sem þar var í hennar nafni. Eftir stutta örkynningu með safnverði um sýninguna fannst mér þó ég skilja listamanninn betur. Hvítu taflmennirnir á skákborðinu fyrir báða aðila. Málverkið, sem mátti heilsast í gegn um, negla í og bæta um betur með málingu. Glerbrotin sem sýningargestum var ætlað að raða saman að nýju. Vasinn sem hún braut á sýningu fyrir margt löngu og bað svo fólk um að koma með brotin aftur mörgum árum saman. Spakmælin og svo síminn sem bíður eftir því að hringt sé í en ekki er hægt að hringja úr. Sú eina sem getur hringt inn er Yoko sjálf. Að lokum stuttmyndin sem sýnir hvar gestum og gangandi er veitt heimild til að klippa af henni spjarirnar og hversu varnarlaus hún er við þessar aðstæður. Hvet ykkur eindregið til þess að skoða þessa sýningu, sem er meira í átt við gjörning en hefðbundna listaverkasýningu. Örsýning safnvarðar er eiginlega nauðsynleg fyrir leikmanninn.