mánudagur, 30. maí 2016

Nýja nýja Ísland

Við verðum að ræða hvaða áhrif ferðamennska hefur á atvinnumál, vinnumarkaðinn, landnýtingu, íbúa- og byggðaþróun svo nokkuð sé nefnt. Hvers væntum við á ferðamannalandinu Íslandi? Hér  á meðfylgjandi mynd má sjá farþegafjölda um Keflavíkurflugvöll til Íslands (skv. Hagstofu).



Í lok 20. aldar og byrjun þessarar var mikið talað um nýja hagkerfið þ.e að lykilstarfsemi fyrirtækja mundi ekki lengur snúast um framleiðslu heldur óefnislegar eignir þeirra s.s. vörumerki, tækniþekkingu og fleira. Framleiðslan mundi flytjast í austurveg til Kína og fleiri landa. Upplýsingatæknin átti að vera lykilþáttur í starfsemi fyrirtækja.

Um margt hefur þetta ræst. En við megum ekki gleyma því að það var framleiðslugeta þjóðarinnar, sérstaklega í sjávarútvegi, sem var okkar helsta haldreipi í efnahagshruninu.

Áleitin er sú spurning hvort skólakerfið þjónar lengur með skilvirkum hætti þeim breytingum, sem eiga sér stað eða hvort það aðlagar sig á síðari stigum. Er áhersla á klassíska bóknámið úrelt menntaleið miðað við vinnuaflsþörf  á næstu áratugum? Ekki síst í ljósi þess að "Google" þ.e. youtube og wikipedia virðast hafa svör við flestum spurningum.

Í sjávarútvegi heldur sama þróun áfram. Litlu og meðalstóru fyrirtækjunum fækkar áfram og fyrirtækin verða færri og stærri. Sjálfvirkni tækninnar mun minnka enn frekar mannaflaþörf í fiskvinnslu og fiskveiðum á næstu árum. Fyrirsjáanleiki í aflaúthlutun næstu ára gefur atvinnugreininni tækifæri til þess að skipuleggja starfsemina enn betur og hagkvæmni eykst.

Hvað tekur við af sjávarútveginum í strandbyggðum? Vaxandi ferðamennska? Þetta eru nokkrar af þeim grundvallarspurningum sem við þurfum að ræða og rannsaka til þess að mæta gjörbreyttum áherslum í íslensku samfélagi.

Í landbúnaði munu stóru búin sækja að litlum og meðalstórum búum eins og í sjávarútvegi. Sjálfvirkni, aukin tæknivæðing og stærð markaðarins mun ekki leiða til fjölgunar starfa.

 Þjónustugeirinn er að vísu drjúgur hvað störf varðar, en fyrirsjáanlegur samdráttur í bönkum og þjónustustofnunum er ekkert sérstaklega uppörvandi hvað varðar fjölgun vel launaðra starfa í þessum geira.

Í ferðaiðnaði er obbinn af starfsframboðinu mikið láglaunastörf og yfirleitt störf við þjónustu almennt s.s. verslun.

Hvernig munum við þróa nýtt Ísland, fjölmenningarsamfélagið? Hvað ber að forast, hvert viljum við stefna?

Þessar fjölmörgu spurningar leiða aftur til spurningarinnar í upphafi um hvers við væntum. Hvar liggja tækifæri framtíðarinnar fyrir ungt langskólagengið fólk? Þetta er áleitið umhugsunarefni þessa dagana þegar stór meirihluti hvers útskriftarárgangs skrýðist hvítum kollum úr menntaskólum landsins. Verður það til þess að eldri kynslóðir hverfa fyrr af vinnumarkaði en áður?


þriðjudagur, 24. maí 2016

Söngfélag Skaftfellinga


Þá er lokið viðburðarríkum söngvetri Söngfélags Skaftfellinga 2015/2016. Hér að neðan er yfirlit yfir vetrarstarfið. Eins og skýrsla stjórnar ber með sér er Söngfélagið líflegur kór karla og kvenna og ein meginstoð í starfsemi Skaftfellingafélagsins.


Skýrsla stjórnar veturinn 2015/2016


Fyrsta æfing kórsins var haldin þriðjudaginn 15. september í Skaftfellingabúð.  Æfingar voru á þriðjudögum eins og undanfarin ár. Langur laugardagur var haldinn fyrir áramót þriðjudaginn 31. október.
Helstu viðburðir á dagskrá kórsins var fjölsótt aðventuhátíð sem haldin var 6. desember. Þá voru sjúkrastofnanir heimsóttar 8. desember. Farið var á geðdeild LSH og Landakot. Að auki sáum við um söng í guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju og heimsóttum Hjúkrunarheimilið Eir þann sama dag, 27. desember. 
Æfingar á vorönn hófust þriðjudaginn 12. janúar í Skaftfellingabúð. Langur laugardagur var haldinn 20. febrúar. Farið var í kvöldheimsókn til Gerðubergskórsins föstudaginn 11. mars og sungu kórarnir nokkur lög í Fella- og Hólakirkju. Þetta var vel sóttur atburður og þótti takast vel.
Kórinn söng við Skaftfellingamessu 13. mars og í framhaldi var boðið upp á messukaffi á vegum kórsins og Skaftfellingafélagsins. Að þessu sinni komu kirkjukórar Víkur, Ása og Prestbakkakirkju og sungu einnig við messuna. Sameiginlegur kvöldverður með kórunum var á Hótel Holti laugardagskvöldið 12. mars.
Lokatónleikar voru haldnir 1. maí í Seltjarnarneskirkju eins og undanfarin ár. Þrír undirleikarar spiluðu undir í hluta laganna, þeir Jón Rafnsson bassaleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Karl  Olgeirsson á píanó. Tónleikarnir tókust mjög vel og voru vel sóttir. Eftir tónleikana var svo boðið í vorkaffi Skaftfellingafélagsins og kórsins í Skaftfellingabúð.
Vorferð kórsins var farin austur í Vík í Mýrdal helgina 7.-8. maí og og tókst mjög vel. Rúmlega þrjátíu manns fóru í þessa ferð og var sungið á fjórum stöðum: Dvalarheimilinu Lundi á Hellu, veitingahúsinu Svörtu Fjöru í Mýrdal, Dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík og svo tónleikar á Icelandairhoteli í Vík. Gist var á Hótel Kötlu að Höfðabrekku og borðaður sameiginlegur kvöldverður. Allt var þetta hin besta skemmtun og tókst í alla staði mjög vel.
Virkir söngfélagar hafa verið 35 í vetur en heldur kvarnaðist úr hópnum er leið á starfsárið. Yfirleitt hafa mætt um 28 manns á æfingar. Æfingargjald fyrir hvora önn var 15.000.-  Margrét Bóasdóttir kom á tvær æfingar til þess að raddþjálfa kórinn, en kórstjóri í vetur hefur verið Friðrik Vignir Stefánsson.
Í stjórn hafa verið í vetur Sveinn Hjörtur Hjartarson formaður, Sigurlaug Jóna Sigurðardóttir, Kristjana Rósmundsdóttir, Helga Lilja Pálsdóttir, Gísli Þórörn Júlíusson, Svanhildur Kristjánsdóttir og Þórunn Jónasdóttir. Stjórnin hélt fjóra formlega stjórnarfundi. Meðstjórnendum er þakkað gott samstarf á liðnum vetri.









Siðbótin byrjar hjá okkur sjálfum

Var minntur á það í dag að á hverjum degi erum við fyrst og fremst að takast á við okkur sjálf. Þetta þekkja fáir betur en þeir sem kynnst hafa áfengisvanda, tóbaksnautn, matarnautn, vandræðum í skóla, vinnu og svo mætti áfram telja. Hvað varð til þess að ég fór að velta þessu upp. Jú, félagi minn sagðist vera með tvær spurningar sem hann vildi ræða í hádeginu.

Í fyrsta lagi hvernig við gætum komið í veg fyrir vaxandi spillingu í þjóðfélaginu og í öðru lagi hvernig vinnum við gegn vaxandi misskiptingu gæða? 

Mín fyrstu viðbrögð við spurningunum var að þagna vegna þess að þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Tími til frekara spjalls leið fljótt og fundurinn hélt áfram án þess að gott svar kæmi við spurningunum. Niðurstaða mín eftir því sem leið á daginn voru upphafsorðin í þessum passus.
 
Takist okkur að bæta okkur eru vonandi líkur til að spilling almennt minnki og ef við ljáum málum stuðning, sem leiða til jafnari skiptingu gæða næst árangur í þeim efnum líka.

Siðbótin hlýtur að byrja hjá okkur sjálfum. Við enduðum fundinn á að fara með okkar ágæta fjórpróf, sem eru svona:

Er það satt og rétt?
Er það drengilegt?
Eykur það velvild og vinarhug?
Er það öllum til góðs?


miðvikudagur, 11. maí 2016

Ferðamennska

Það eru gríðarlegar breytingar að eiga sér stað í landinu vegna ferðamennsku. Það var framan af hægur stígandi í þessu, en undanfarin þrjú, fjögur ár hefur orðið stökkbreyting. Þetta er allavega upplifun mín af því að ferðast um Suðurland. Ég hef í rúm fjörtíu ár keyrt Suðurlandsveg milli Skaftártungu og Kópavogs á ýmsum árstímum. Lengst af þegar maður keyrði austur féll umferðarþunginn niður eftir að komið var á Selfoss. Eftir að Landeyjarhöfn opnaði jókst aðeins þunginn þangað. Nú keyrir maður austur og það er bíll við bíl bæði austur og vestur. Það er erfitt að fá inn á hótelum vegna eftirspurnar. Upplifði það í fyrsta skipti að vera "óvart" afbókaður í Fjósinu undir Eyjafjöllum með 30 manna hóp, sem hafði þó verið bókaður með mánaðar fyrirvara. Ástæðan var auðvitað sú að þau höfðu yfirbókað. Maður fékk eitt lítið "sorry," en svo urðum við að leita annað með mat. Auðvitað spyr maður sig hvað þetta getur gengið svona lengi og hvenær bakslagið kemur. Ég hugsa að það sé ekki langt í það að við náum að verðleggja okkur út af markaðnum. Frétti af sænskri fjölskyldu, sem gat farið í þriggja vikna frí til USA fyrir viku kostnað á Íslandi. Bíll innifalinn. En mikið er gaman að ferðast um landið okkar í fallegu veðri.