mánudagur, 30. maí 2016

Nýja nýja Ísland

Við verðum að ræða hvaða áhrif ferðamennska hefur á atvinnumál, vinnumarkaðinn, landnýtingu, íbúa- og byggðaþróun svo nokkuð sé nefnt. Hvers væntum við á ferðamannalandinu Íslandi? Hér  á meðfylgjandi mynd má sjá farþegafjölda um Keflavíkurflugvöll til Íslands (skv. Hagstofu).



Í lok 20. aldar og byrjun þessarar var mikið talað um nýja hagkerfið þ.e að lykilstarfsemi fyrirtækja mundi ekki lengur snúast um framleiðslu heldur óefnislegar eignir þeirra s.s. vörumerki, tækniþekkingu og fleira. Framleiðslan mundi flytjast í austurveg til Kína og fleiri landa. Upplýsingatæknin átti að vera lykilþáttur í starfsemi fyrirtækja.

Um margt hefur þetta ræst. En við megum ekki gleyma því að það var framleiðslugeta þjóðarinnar, sérstaklega í sjávarútvegi, sem var okkar helsta haldreipi í efnahagshruninu.

Áleitin er sú spurning hvort skólakerfið þjónar lengur með skilvirkum hætti þeim breytingum, sem eiga sér stað eða hvort það aðlagar sig á síðari stigum. Er áhersla á klassíska bóknámið úrelt menntaleið miðað við vinnuaflsþörf  á næstu áratugum? Ekki síst í ljósi þess að "Google" þ.e. youtube og wikipedia virðast hafa svör við flestum spurningum.

Í sjávarútvegi heldur sama þróun áfram. Litlu og meðalstóru fyrirtækjunum fækkar áfram og fyrirtækin verða færri og stærri. Sjálfvirkni tækninnar mun minnka enn frekar mannaflaþörf í fiskvinnslu og fiskveiðum á næstu árum. Fyrirsjáanleiki í aflaúthlutun næstu ára gefur atvinnugreininni tækifæri til þess að skipuleggja starfsemina enn betur og hagkvæmni eykst.

Hvað tekur við af sjávarútveginum í strandbyggðum? Vaxandi ferðamennska? Þetta eru nokkrar af þeim grundvallarspurningum sem við þurfum að ræða og rannsaka til þess að mæta gjörbreyttum áherslum í íslensku samfélagi.

Í landbúnaði munu stóru búin sækja að litlum og meðalstórum búum eins og í sjávarútvegi. Sjálfvirkni, aukin tæknivæðing og stærð markaðarins mun ekki leiða til fjölgunar starfa.

 Þjónustugeirinn er að vísu drjúgur hvað störf varðar, en fyrirsjáanlegur samdráttur í bönkum og þjónustustofnunum er ekkert sérstaklega uppörvandi hvað varðar fjölgun vel launaðra starfa í þessum geira.

Í ferðaiðnaði er obbinn af starfsframboðinu mikið láglaunastörf og yfirleitt störf við þjónustu almennt s.s. verslun.

Hvernig munum við þróa nýtt Ísland, fjölmenningarsamfélagið? Hvað ber að forast, hvert viljum við stefna?

Þessar fjölmörgu spurningar leiða aftur til spurningarinnar í upphafi um hvers við væntum. Hvar liggja tækifæri framtíðarinnar fyrir ungt langskólagengið fólk? Þetta er áleitið umhugsunarefni þessa dagana þegar stór meirihluti hvers útskriftarárgangs skrýðist hvítum kollum úr menntaskólum landsins. Verður það til þess að eldri kynslóðir hverfa fyrr af vinnumarkaði en áður?


Engin ummæli: