fimmtudagur, 24. september 2015

..að gera garðinn frægan

Fjölskylda okkar hefur átt fleiri afreksmenn í knattspyrnu en Jón Hjört Finnbjarnarson afa sbr. mynd hér að neðan af honum með Vestfjarðameistaraliðinu Vestra árið 1932. Ég fann þessa mynd af meistaraflokki Vals 1961, en þar má finna föðurbróðir minn Matthías Hjartarson sem spilaði lengi með Val. Þær eru eftirminnilegar stundirnar sem maður fór á Melavöllinn eða Laugardagsvöllinn til að sjá Matta frænda spila. Nú eða þegar ég fór með pabba upp á Akranes til að horfa á Val spila við ÍA. Það varð inngreipt í barnsminnið tuddaskapurinn í Skagamönnum. Matthías var afburðamaður í knattspyrnu. Bjó yfir mikilli boltatækni. Lék sér fyrstur íslenskra knattspyrnumanna að því skora mark beint úr horni í leik og gerði það oftar en einu sinni. Hann spilaði aldrei með íslenska landsliðinu, þótt hann væri einn flinkasti knattspyrnumaður okkar á sínum tíma. Það var einhver snúður í samskiptum þar á milli. Matthías var góður frændi í æsku en veikindi hans síðar í lífinu urðu til þess að hann fjarlægðist margt fólkið sitt og vini, þar á meðal mig. Um hann má segja að það er sitt hvað gæfa eða gjörvileiki. Skapferli hans var erfitt og á einhverju stigi fór hann yfir á annað svið. Hann varð meira og minna einfari í lífinu og umgengni hans við annað fólk var takmörkuð. Nú þegar talað er mikið um einelti minnist ég þess að hann sagði mér að hann hefði verið lagður í einelti í Verzlunarskóla Íslands af skólasystur sem bjó við betri efni. Hún lét dreifibréf ganga um bekkinn þar sem hún bauð bekknum í partý heim til sín, öllum nema honum. Hann sá þetta bréf og það fékk mikið á hann. Síðar í lífinu var honum sérstaklega illa við þá sem stóðu fyrir borgaralegum gildum. Þessi saga hefur verið mér ákveðið veganesti í lífinu og sýnir manni hvernig einelti getur haft ólíkustu birtingarmyndir. (Matthías Hjartarson 5.8.1939 - 23.12.2012)