föstudagur, 30. júní 2006

Fanturinn.

Þegar ég var barn fór ég á íþróttanámskeið í Mosfellssveit hjá kunnum íþróttamanni. Ég hef verið þetta í kringum tíu ára gamall. Þetta var afar skemmtilegt námskeið. Fórum í rútu úr Kópavogi inn í dalinn og þar var tekið á móti okkur. Við voru svo í fótbolta og frjálsum íþróttum eftir atvikum. Hápunktur dagsins var svo að allir fóru í sund í hlöðu, sem búið var að breyta í sundlaug. Ég tók eftir því að umsjónarmaðurinn sem var með okkur í sundlauginni var "skrítinn". Hann hafði m.a. gaman af að berja frá sér með handklæði. Það virtist tilviljun háð hver varð fyrir þessu. Einn daginn þegar ég er að koma upp úr lauginni lemur hann mig snögglega og án nokkurs fyrirvara beint í andlitið með handklæðinu. Þetta var auðvitað rosalega vont og ég meiddi mig á auga. Maðurinn lét aftur á móti sem ekkert væri. Hann baðst ekki afsökunar, spurði mig ekki hvort ég hefði meitt mig. Hann gékk í burtu og lét sem ekkert væri. Mín viðbrögð voru engin. Hvað gerir 10 ára barn sem verður fyrir svona fólskubragði og er mjög illt? Ég greip fyrir andlitið og reyndi að harka af mér. Ég velti því að sjálfsögðu fyrir mér hvers vegna maðurinn hefði gert þetta. Fann enga skýringu, en þegar ég rifjaði þetta upp áratugum síðar hafði ég afgreitt þetta með sjálfum mér þannig að ég hefði "bara" verið fyrir. Maðurinn hefði ekki ætlað að gera þetta og þetta væri mín óheppni og væri jafnvel mér að kenna. Einhvern veginn svona afgreiddi barnið þetta fantabragð. Meiri en þrjátíu árum síðar lenti þessi maður í fjölmiðlaumræðu, þá skólamaður, fyrir slæma framkomu í garð nemanda sinna. Nú varð honum ekki undankomu auðið. Hann var látinn hætta og hvarf af sjónarsviðinu. Hvað hann hefur verið búin að kvelja mörg börn allan þennan tíma fæst væntanlega aldrei svar við. Af hverju er ég að rifja upp þessa sögu hér? Jú, ég var nýlega í hópi fólks sem var að tala um einelti í skólum og á vinnustað. Þá rifjaðist þessi slæma minning mín upp. Ég gerði það upp í langtímaminni mínu að ég átti enga sök í þessu máli. Heldur hafði ég orðið fyrir fantabragði barnaníðnings. Ég slapp við frekari líkamleg eftirköst, en hef örugglega borið einhver sár í sálartetrinu eftir þetta. Ég er búinn að fyrirgefa manninum. Það gat ég gert þegar ég var búinn að vinna úr þessu máli sjálfur rúmum 40 árum síðar. Ég var spurður á fundinum hvað þessi maður héti en vildi ekki nefna hann á nafn. Það þjónar engum tilgangi úr þessu. Það skiptir gríðarlegu máli varðandi velferð barna já og okkar allra að við séum á varðbergi gagnvart svona sadistum. Þeir fái ekki að stunda iðju sína óáreittir áratugum saman. Ég er tiltölulega nýfarinn að geta keyrt um Mosfellsdalinn án þess að þetta atvik ræni mig gleðinni af því að hafa sótt þetta annars eftirminnilega námskeið.

Dagarnir líða.

Dagarnir líða einn af öðrum. Maður er í vinnu og milli þess reynum við að gera eitthvað hérna heima við. Næg eru verkefnin heima fyrir. Í dag náði hitinn allt að 14°C og stundum lét sólin sjá sig. Annars allt gott að frétta. Hingað komu í dag í heimsókn Björn og Sunna. Bið að heilsa.

miðvikudagur, 28. júní 2006

Sannkallað sumarverður.

Í dag voru stjórnarskipti í Rótarýklúbbnum. Ég er búinn að vera ritari síðasta starfsár. Ég er þó ekki laus því nú tekur við varaformennska næsta starfsár. En það er gott að vera laus við fundargerðirnar. Það hefur verið sannkallað sumarveður í dag hlítt, hægviðri og sólskin. Höfum að mestu verið heima við tiltekt og svona snudd. Nú svo hefur maður aðeins horft á boltann. Leik Frakklands og Spánar, sem Frakkar unnu 3/1 og svo horfði ég að hluta á Brassana leika sér að Ghana mönnum. Ótrúleg boltatækni hjá Brössunum. Hreinasta unun að horfa á þá leika sér með knöttinn. Annars ekkert sérstakt í fréttum héðan. Kveðja.

sunnudagur, 25. júní 2006

Um Þingholtið í fylgd Birnu Þórðardóttur.

Á fimmtudagskvöldið í síðustu viku fórum við í gönguferð um Þinghloltin með Birnu Þórðardóttur. Aldrei hefur hvarflað að mér að ég ætti eftir að fara í gönguferð með henni! En svona er lífið maður veit aldrei hvað bíður manns. Hún var sem sé leiðsögumaðurinn í þessari ferð. Þetta var ferð sem var á vegum félags félagsráðgjafa og var lagt af stað frá Hallgrímskirkju kl. 20.00. Síðan var gengið niður í bæ og endað í portinu við Bernhöftstorfuna. Þetta var ágætis skemmtun og fróðlegt að upplifa bæjarhluta sem maður telur sig þekkja ágætlega undir leiðsögn annarra. Enduðum svo á fínu kaffihúsi neðarlega á Laugavegi með tveimur vinnufélögum Sirrýjar. Svona er Rvík í 101 í dag.

Hugur vor dvelur í Þýskalandi.

Mark Beckham var svakalega flott. Snúningsbolti beint í mark af 20 til 30 metra færi. Annars var leikurinn ekkert sértaklega skemmtilegur. Englendingarnir spiluðu upp á vörn og töf. Fengu tvö spjöld fyrir að tefja leikinn. Þeir eru komnir í átta liða úrslitin, en verða að gera betur en þetta til að eiga vinningsvon. Ekvadormenn börðust áæglega en réðu ekki við England.
Maður vissi nú stundum ekki út á hvað leikur Portugals og Hollands gékk. Allt logandi í áflogum á vellinum og fjórir reknir út af. Portugalir unnu með einu marki. Var hissa að sjá séntilmanninn Fico skalla Hollending á vellinum og fá "bara" gult spjald. En það var Manche sem skoraði sigurmark Portugala. Það er örugglega mikið fjör þar á götunum. Vorum á Algarve árið 2000 þegar Evrópukeppnin var haldin og upplifðum svona alvöru fótboltasigurs stemmingu. Annars verið heima við í dag dundað okkur við hitt og þetta.

laugardagur, 24. júní 2006

Jónsmessa.


Höfum verið heima í dag. Notið góða veðursins sem hér hefur ríkt. Heimsóttum Íu og Kolla. Hér kom Stefanía í heimsókn. Svíar töpuðu tvö núll fyrir Þjóðverjum í 16 liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Þeir voru ótrúlega óheppnir enda erfitt að keppa við Þjóðverja á heimavelli í Munchen. Í gærkvöldi hittum við Höllu Sigrúnu, Hannes, Önnu Stínu og Hjálmar Örn í Húsdýragarðinum. Vorum að leita að Jónsmessufjöri og enduðum á heimsókn inn i Laugardal þar sem var skemmtihlaup í gangi. Enduðum svo í kvöldheimsókn hjá mömmu og pabba. Þar var staða dægurmála krufin og rædd. Jónsmessa hefur víst aldrei náð sömu hátíðarstemmingu og í Svíþjóð. Þar er þetta einn helsti hátíðardagur ársins. Jónsmessa mun vera í minningu þess að þennan dag fyrir margt löngu hélt Jóhannes skírari eftirminnilega ræðu. Þegar bloggið mitt er skoðað undanfarin tvö ár um þetta leiti er ekki minnst á Jónsmessu fyrr en nú. Það segir ef til vill sína sögu. Annars ekkert í fréttum þannig að ég bið að heilsa.

þriðjudagur, 20. júní 2006

Vá hvílík barátta!


Maður verður að taka ofan fyrir Svíum eftir leikinn gegn Englandi. Þeir börðust eins og ljón. Skipulagðir og svo var bara sett í puð gírinn og jafnað tvö tvö. Nokkurn veginn svona gékk leikurinn. Englendingar skorðu fyrsta markið, Svíar jöfnuðu. Englendingar skora 2/1. og Svíar jafna undir lokin. Hraður og skemmtilegur leikur með stórglæsilegum mörkum. Mark Cole var náttúrulega meistaralegur grís. Snúningsbolti í hægra bláhornið af 40 metra færi. Mark Gerards var ódýrt heppnismark, en skalla mark Almarks var flott en mark Larssons var svona í flokknum "réttur maður á réttum stað" og pínulítið pot. Hvað um það þetta var hörkuleikur. Hingað komu í dag Hjörtur, Ingibjörg og nafni og verða fram á fimmtudag. Valdimar og Stella litu við í kvöld. Sigrún er á kvöldvakt. Hún vinnur mikið stúlkan sú. Annars mest lítið í fréttum. Kveðja.

sunnudagur, 18. júní 2006

Austur í bústað

Horft til Hemruheiðar. Hún er falleg Hemruheiðin í fullum sumarskrúða. Grænt birkið klæðir hana að stórum hluta.













Sigrún Huld. Þá er að skrifa nokkrar línur í gestabókina sem geymir margar frásagnir af veru okkar á þessum slóðum allt frá því bústaðurinn var reystur 1983. Við Sirrý fóru að venja komur okkar í Skaftártunguna árið 1973. Gistum þá í hinu fræga hundagili rétt fyrir ofan barðið sem bústaðurinn stendur á.














Mæðgurnar. Hér stilla þær sér upp og leyfa henni Sunnu okkar að vera með á myndinni.













Skógarfoss.Við þrjú ég Sirrý og Sigrún fórum austur í Skaftártungu í dag. Við fórum til móts við sólina og sumarið sem þar ríkti og þessar myndir bera með sér. Veðrið í Tungunni var æðislegt 15°C og hlýr vindur, sól og sumar. Stoppuðum stutta stund í Göggubústað og héldum svo suður er líða tók á daginn. Hér má sjá okkur við Skógarfoss og Sigrúnu kvitta í gestabókina og svo Hemruheiði í fullum skrúða.

laugardagur, 17. júní 2006

Gleðilega þjóðhátíð.

Gleðilegan 17.júní. Lýðveldið orðið 62 ára. Það er hinn virðulegasti aldur. Búið er að rigna í hálfan mánuð nánast samfellt. Nú í dag hefur aðeins stytt upp þannig að það er hægt að koma út. Annars langt síðan ég skrifaði. Mikið verið að gerast hjá okkur. Fertugsafmæli Gunnars þann 13. júní sl. Sirrý heim frá útlandinu. Hjörtur, Ingibjörg og nafni heim frá útlandinu. Mamma og pabbi, Þórunn og Sveinn líka heim frá útlöndum. Í gær fórum við og heimsóttum nafna í Borgarnesi og ílentumst þar í góðu yfirlæti hjá afa og ömmu og foreldrum Ingibjargar. Horfðum á æsispennandi landsleik Íslands og Svía í handboltanum. Við náðum að tryggja okkur sæti í heimsmeistarkeppninni. Nú segi ég við því "strákarnir okkar" stóðu sig eins og hetjur þótt þeir töpuðu með einu marki. Stórsigurinn í Globen í Stockhólmi duggði til heildarvinnings vegna 4 marka munar. Skruppum svo aðeins einn rúnt í bæinn að venju en það var allt búið þar, þótt mikið væri af fólki í bænum. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

sunnudagur, 11. júní 2006

Sjómannadagurinn.

Sjómönnum er hér óskað til hamingju með daginn. Sjómannadagurinn er venjulega fyrsti sunnudagurinn í júní, en beri hvítasunnu upp á þann dag færist stjómannadagurinn um eina viku. Veðrið hér á suðvestur horni landsins er hundleiðinlegt. Lágskýjað og rigning, en veðrið hefur verið stillt. Hitinn er um 11°C. Raunar held ég að veðrið sé víðast um land í þessum dúr. Fór í bíltúr um hádegisbilið en annars hef ég verið heimavið. Aðeins horft á boltann. Horfði á leik Hollendinga og Serbíu og með annað augað á leik Mexico og Íran. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Ja ekkert nema af vettvangi stjórnmálanna. Jón Sigurðsson verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hættir í Seðlabankanum.

laugardagur, 10. júní 2006

Þeir verða að gera betur en þetta!!!

Ég er búinn horfa í 4 tíma í dag á boltann. Enn eru rúmir 60 leikir eftir þannig að það á mikið eftir að gerast. Aumt af Englendingum að fá þrjú stig fyrir að Paragvæ gerði sjálfsmark á þriðju mínútu. Þetta enska lið er bara ekki sannfærandi. Þeir verða að gera betur en þetta ef þeir ætla sér sigur í þessari keppni. Þetta var leiðinlegur bolti sem það spilaði. Frændur vorir Svíar voru heldur ekki sannfærandi gagnvart Trinidad. Puðuðu eins og þeir einir kunna en vantaði alla snerpu í sóknina. Jafntefli í þessum leik var í raun sigur fyrir Trinidad. Þeir eiga hrós skilið fyrir frábæran baráttuvilja í erfiðri stöðu voru aðeins 10 í seinni hálfleik þar sem einn var rekinn útaf. Nú af öðrum málum er það helst að frétta að ég fékk flygilinn stilltan í dag. Hvílíkur munur að spila á hann. Ég verð að gera eitthvað til þess að verja hann fyrir hitasveiflum. Sirrý er í Jönköping við lestur fræða. Hjörtur að horfa á boltann í K-stad og Ingibjörg og nafni að setja niður í töskur. Mamma og pabbi og Þórunn og Sveinn á Mallorka. Hér komu í dag Björn og Sunna og horfðu á fyrri leikinn. Gunnar Örn bróðir Sirrýjar og Bryndís dóttir hans litu hér líka við í dag. Hann verður fertugur 13. júní næstkomandi. Valdimar er í útskriftarveislu hjá Sæma Kalla. Þetta eru helstu fréttirnar.

föstudagur, 9. júní 2006

Boltinn rúllar í Þýskalandi.

Jæja þá er boltinn farinn að rúlla í heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi. Sá fyrsta leikinn milli Kosta Rica og Þýskalands áðan. Þetta var svolítið leikur kattarins (Þjóðverja) að músinni (Kosta Rica). Sex mörk í fyrsta leiknum var ágætis skemmtan. Mörg þeirra voru líka glæsileg, sérstaklega mark Thorstens Frings snúningsbolti langt utan af vellinum óverjandi. Nú hér af heimavettvangi er það helst að frétta að miðstjórn Framsóknarflokksins fundar í dag um málefni flokksins. Flokksráðstefnan verður þriðju viku í ágúst, þannig að Mallorkafarar geta verið rólegir. Halldór hélt ræðuna sína í dag. Svo sem ekkert nýtt í henni annað en hann og Guðni hafa slíðrað sverðin í bili allavega. Endurskipan ríkisstjórnarinnar verður kynnt um eða eftir helgi og þá hvaða mannabreytingar og hrókeringar verða því samfara. Það er enn á ný komin langþráð helgi og ég held maður verði bara heimavið í boltagírnum.

þriðjudagur, 6. júní 2006

Þjóðhátíðardagur Svía.


Það fer vel á því að minnast þjóðhátíðardags Svía sem er í dag, 6. júní. Þeir eru nýbúnir að taka þennan dag upp sem sérstakan þjóðhátíðardag. Áður kallaðist þessi dagur "Svenska flaggans dag". Nú er tekist á um það á götum helstu borga í landinu hvort svona dagur sé til þess að ýta undir aðskilnaðarstefnu í samfélaginu þ.e. að þessi dagur sé vatn á millu þjóðernissinna sem eru andsnúnir innflytjendum. Nú svo eru aðrir sem vilja hafa þetta sem "karnival" dag í ætt við 17. júní. Ég sendi fjölskyldumeðlimum í Svíaríki hátíðarkveðjur og þakka fyrir frábæra hvítasunnuhelgi. Hér á heimavelli er nú tekist á um formennskuna í Framsóknarflokknum. Halldór búinn að ákveða að hætta og Guðni að meta sína stöðu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Framsókn tekst að spila úr þeirri erfiðu stöðu sem flokksstarfið virðist vera í nú á þessum tímamótum. Allra hluta vegna er mikilvægt að ná megi farsælli niðurstöðu í málefnum flokksins svo ekki komi til stjórnarkreppa vegna óeiningar í flokknum. Halldór á að baki afar glæstan feril í íslenskum stjórnmálum og vandasamt verður fyrir flokkinn að fylla hans skarð.

sunnudagur, 4. júní 2006

Á leið í Tívoligarðinn í góðviðri.


Hér erum við á leiðinni í góða veðrinu að skoða fuglana og flatmaga í Tívolígarðinum í Kristianstad.

Vatnaríkið í Kristjanstad.



Við Hjörtur fórum í bátsferð um vatnaríkið kringum Kristianstad. Sáum sýnishorn af nokkrum fuglum, sem allir eru líka á Íslandi,nema haukurinn sem við sáum. Aðar teg. voru alaskagæsir,tjaldur, spói og jarðraka.

Hvítasunnan


Já ég skelti mér bara aftur til Svíþjóðar nú um helgina. Sirrý var í Finnlandi og verður næstu viku hér í Svíþjóð. Ég nýtti mér góða punktastöðu hjá Flugleiðum og hef dvalið hér á Lasarettbolivarden í góðu yfirlæti. Við höfum bara verið á rólegu nótunum. Slappað af, borðað góðan mat og haft það mjög gott hér. Auk okkar hefur hafa verið hér í tvo daga Anna Stína og Elías vinkona Ingibjargar og sonur hennar. Hér má sjá nafna í góðum gír. Hann þroskast ört þessa dagana og er fljótur í förum. Þannig að það er betra að hafa auga með honum.