föstudagur, 30. júní 2006

Fanturinn.

Þegar ég var barn fór ég á íþróttanámskeið í Mosfellssveit hjá kunnum íþróttamanni. Ég hef verið þetta í kringum tíu ára gamall. Þetta var afar skemmtilegt námskeið. Fórum í rútu úr Kópavogi inn í dalinn og þar var tekið á móti okkur. Við voru svo í fótbolta og frjálsum íþróttum eftir atvikum. Hápunktur dagsins var svo að allir fóru í sund í hlöðu, sem búið var að breyta í sundlaug. Ég tók eftir því að umsjónarmaðurinn sem var með okkur í sundlauginni var "skrítinn". Hann hafði m.a. gaman af að berja frá sér með handklæði. Það virtist tilviljun háð hver varð fyrir þessu. Einn daginn þegar ég er að koma upp úr lauginni lemur hann mig snögglega og án nokkurs fyrirvara beint í andlitið með handklæðinu. Þetta var auðvitað rosalega vont og ég meiddi mig á auga. Maðurinn lét aftur á móti sem ekkert væri. Hann baðst ekki afsökunar, spurði mig ekki hvort ég hefði meitt mig. Hann gékk í burtu og lét sem ekkert væri. Mín viðbrögð voru engin. Hvað gerir 10 ára barn sem verður fyrir svona fólskubragði og er mjög illt? Ég greip fyrir andlitið og reyndi að harka af mér. Ég velti því að sjálfsögðu fyrir mér hvers vegna maðurinn hefði gert þetta. Fann enga skýringu, en þegar ég rifjaði þetta upp áratugum síðar hafði ég afgreitt þetta með sjálfum mér þannig að ég hefði "bara" verið fyrir. Maðurinn hefði ekki ætlað að gera þetta og þetta væri mín óheppni og væri jafnvel mér að kenna. Einhvern veginn svona afgreiddi barnið þetta fantabragð. Meiri en þrjátíu árum síðar lenti þessi maður í fjölmiðlaumræðu, þá skólamaður, fyrir slæma framkomu í garð nemanda sinna. Nú varð honum ekki undankomu auðið. Hann var látinn hætta og hvarf af sjónarsviðinu. Hvað hann hefur verið búin að kvelja mörg börn allan þennan tíma fæst væntanlega aldrei svar við. Af hverju er ég að rifja upp þessa sögu hér? Jú, ég var nýlega í hópi fólks sem var að tala um einelti í skólum og á vinnustað. Þá rifjaðist þessi slæma minning mín upp. Ég gerði það upp í langtímaminni mínu að ég átti enga sök í þessu máli. Heldur hafði ég orðið fyrir fantabragði barnaníðnings. Ég slapp við frekari líkamleg eftirköst, en hef örugglega borið einhver sár í sálartetrinu eftir þetta. Ég er búinn að fyrirgefa manninum. Það gat ég gert þegar ég var búinn að vinna úr þessu máli sjálfur rúmum 40 árum síðar. Ég var spurður á fundinum hvað þessi maður héti en vildi ekki nefna hann á nafn. Það þjónar engum tilgangi úr þessu. Það skiptir gríðarlegu máli varðandi velferð barna já og okkar allra að við séum á varðbergi gagnvart svona sadistum. Þeir fái ekki að stunda iðju sína óáreittir áratugum saman. Ég er tiltölulega nýfarinn að geta keyrt um Mosfellsdalinn án þess að þetta atvik ræni mig gleðinni af því að hafa sótt þetta annars eftirminnilega námskeið.

Engin ummæli: